Enski leikstjórinn Guy Ritchie hefur loks viðurkennt að kvikmyndin Swept Away, sem hann gerði með eiginkonu sína, Madonnu, í aðalhlutverki, sé tómt rusl. Hann gaf þessa yfirlýsingu á fundi með nokkur hundruð námsmönnum í Oxford í vikunni. Myndin kolféll í Bandaríkjunum og verður aðeins gefin út á myndbandi í Bretlandi.
Ritchie nýtur mikillar virðingar fyrir myndir sínar Snatch og Lock, Stock and Two Smoking Barrels en nýjasta myndin hefur fengið einróma last gagnrýnenda og í kjölfarið hafa áhorfendur sniðgengið myndina. Ritchie hefur til þessa varið þá ákvörðun sína að láta Madonnu leika aðalhlutverkið í myndinni.

„Hugmyndin var að konan og ég myndum búa til ögrandi listræna litla mynd en við fengum síðan spark í rassinn. Myndin sló met í Bandaríkjunum. Þetta hlýtur að vera í fyrsta skiptið sem gagnrýni um kvikmynd kemur á forsíðum blaða. Ég held að 21 bandarískt blað hafi skrifað fréttir um hve myndin væri léleg.“

Ritchie upplýsti að hann sæi eftir fleiri ákvörðunum sem hann hefur tekið á síðustu misserum. Honum var m.a. boðið að leikstýra myndinni Ocean's Eleven, sem Brad Pitt, George Clooney, Matt Damon og Julia Roberts léku m.a. í en hafnað því.

„Mér var boðið handritið og ég snéri upp á mig. Ég var asni,” sagði Ritchie


tekid af mbl.is