Við vorum búnar að bóka okkur í þetta í maí og svo er það bara hrifsað af manni korter í keppni,“ segir Sigrún Birna Blomsterberg ein af fjórum dönsurum sem tóku þátt í að sigra undankeppnina í Eurovision með lagið, This is my life. Búið er að taka ákvörðun um að henda stelpunum fjórum út úr atriðinu í stað fjögurra bakraddarsöngvara.

Sigrún segir að stelpurnar séu búnar að hittast á fundi og ræða við fólk um hvað þær geti gert. „Það er verið að brjóta á okkur og við héldum eins og alþjóð að við færum með út. Það þarf að ná sáttum í þessu máli,” segir Sigrún sem þó vill ekki skella sökinni á Friðrik Ómar og Regínu Ósk sem syngja lagið.

Aðeins sex einstaklingar mega vera á sviðinu úti og segir Sigrún að Páli Óskari sem samdi texta lagsins hafi fundist vanta meiri kraft í sönginn.

„Síðan prófuðu þau bakraddir sem honum fannst virka mjög vel og þannig á að redda söngnum,“ segir Sigrún sem hafði heyrt Heru og Pétur Jesú sem kandídata í bakraddir.

„Það er búið að fara með þetta í nokkra hringi og ég hef líka heyrt að það verði einhverjir tveir strákar til viðbótar. Það var búið að tala við þá áður en við vorum reknar.”

Sigrún bendir á að fólk hafi ekki einungis verið að kjósa lagið heldur atriðið í heild sinni. „Við erum búnar að hjálpa þeim að koma þessu lagi uppúr Laugardagslögunum og vinna þá keppni, svo er manni bara hent í burtu,“ segir Sigrún sem er mjög óánægð með hvernig að þessu var staðið.

„Þetta snýst heldur ekkert bara um rassgatið á okkur fjórum heldur voru fjölskyldur búnar að ákveða sumarfrí á þessum tíma og annað í þeim dúr. Það verður því spennandi að sjá hvort Ísland verði enn eina ferðina aftarlega á merinni eða komist áfram í keppninni.”
Frá Vísi