Lög í úrslitum Söngvakeppni sjónvarpsins - Skoðun stjórnanda Í kvöld er úrslitakeppnin í Söngvakeppni sjónvarpsins. Ákveðið var að gera líkt og gert var í vor en þá var hlustað á lögin í úrslitum, þau voru dæmd og gefin einkunn. Lindal, Pinkpajamas og Stjarna4, stjórnendur á áhugamálinu skrifa dómana. Svörin eru auðkennd með fyrsta staf notandanafnanna.

Hugarró - Magni:
L: Hugljúft lag sem syngur til manns. Lagið gefur hugarró eins og lagið gefur til kynna. Mér hefur yfirleitt fundist Magni ekki vera beint spes tónlistarmaður en þarna grípur hann mig alveg. 9
P: 2 - Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Magna en þetta er ekki eitt af betri lögum hans. Lagið fer aldrei eins langt upp og ég hefði viljað og textinn hefur heldur ekki nein sérstök áhrif á mig.
S: Ég var strax hrifin af þessu lagi þegar ég heyrði það. Byrjar á fallegu píanó-spili en verður svo rokkaðra þegar líður á lagið. Magni er líka bara frábær og gefur laginu mjög mikið. Þetta er líka mjög grípandi lag sem er alltaf kostur í keppni sem þessari. Ég væri mjög sátt ef þetta lag væri framlag okkar í Eurovision þetta árið. -9

Aldrei sleppir mér - Heiða Ólafsdóttir og Guðrún Árný:
L: Svipað lag og Hugarró. Eftir að hafa hlustað á Hugarró er þetta lag fremur þreytandi. 7
P: 3 - Lag og texti er svosem ekkert slæmur þó mér finnst að sviðsframkomu má allmjög laga. Heiða Ólafs er sterkasta söngkonan í þessum hópi og rödd hennar er yfirgnæfandi miðað við hinar. Ég hlakka til að sjá þær syngja í úrslitunum á laugardaginn.
S: Þetta er vel sungið lag og stelpurnar voru eins og grískar gyðjur á sviðinu.Gréta Salóme mun ekki vera með í þessu lagi í kvöld sem er skiljanlegt. Hún kaus frekar að syngja með í hinu laginu hennar Mundu eftir mér. Guðrún Árný og Heiða eiga eftir að standa sig vel enda hörku söngkonur. Hinsvegar finnst mér þetta lag ekki nógu sterkt fyrir keppnina sjálfa. Lagið er að mínu mati ekki nógu grípandi og of dæmigert. -7

Hjartað brennur - Regína Ósk:
L: Einkennilegur stíll í byrjun. Það er einstaklega grípandi taktur og augljóst að söngkona eins og Regína er tilvalin til að syngja lagið. Hins vegar situr efni textans voða lítið eftir og maður tengir efni textans lítið við “Hjartað brennur”. 8
P: 4 - “Hjartað brennur” er mjög grípandi lag og eftir að hafa hlustað á það einu sinni var það fast í hausnum á mér. Lagið hefur hag af geislandi sviðsframkomu Regínu Óskar, sem er í raun og veru stórkostleg söngkona að syngja miðlungslag. Ég tel það mjög ólíklegt að við munum senda Regínu til Bakú, en ef hún ber sigur úr býtum mun hún ekki verða okkur fyrir vonbrigðum.
S: Regína Ósk er frábær söngkona og ég var mjög stolt af framlagi okkar þegar hún tók þátt í Eurovision með Friðrik Ómari árið 2008. Ég er hinsvegar ekki mjög hrifin af þessu lagi. Það er eitthvað við bakraddirnar sem fer í taugarnar á mér. Þær syngja mjög vel en mér finnst ú-ið hjá þeim svo kunnulegt. Það hlýtur að hafa verið notað í fjölda laga áður. -6

Hey - Simbi og hrútspungarnir:
L: Einstaklega áhugavert lag. Þessi séríslenski og þjóðlegi bragur sem er af laginu og textanum er alveg einstakur. Ég held að það væri alveg þess virði að senda þetta lag út en að mínu í mati yrðu þeir að taka þetta séríslenskt úti! 9
P: 1 - Ég hef hlustað á þetta lag nokkru sinnum, en það á enn eftir að hafa einhver áhrif á mig. Mér finnst textinn ágætur og lagið líka, þó það sé aldrei neitt meira en það.
S: Það er eitthvað skemmtilegt við þetta lag. Ég elska byrjunina áður en hljómsveitin byrjar að spila. Lagið versnar aðeins þegar líður á lagið en þetta er samt skemmtilegt innleg inn í keppnina. Ég myndi samt sem áður ekki vilja að við myndum senda þetta út. -7

Stund með þér - Rósa Birgitta:
L: Byrjunin góð, næst tekur jazz stíll við en síðan hljómfæraleikur. Ekki lag við mitt hæfi og mér finnst það eiginlega bara svo leiðinlegt að ég kláraði ekki að hlusta á það. 3
P: 3 - Rósa Birgitta er með mjög sérkennilega og áhugaverða rödd og lagið sjálft er ekki svo slæmt. Mér finnst að hún ætti að losa sig við þessa dansara í bakgrunninum eins og skot og að það ætti bara að vera hún og þessar tvær stúlkur fyrir aftan hana. Þó að söngur sé góður, er lagið ekki grípandi og ég hafði gleymt því stuttu eftir að ég heyrði það fyrst.
S: Þetta er mjög sérstakt lag en mér finnst eitthvað heillandi við það. Ég var allavegana mjög sátt þegar það var tilkynnt að dómnefndin valdi þetta lag áfram. Söngkonan er með mjög sérstaka rödd sem ég kann vel að meta. Þetta er samt enganvegin nógu gott lag til að senda út, en samt sem áður skemmtilegt. -8

Mundu eftir mér - Greta Salóme og Jónsi:
L: Einstakt lag. Þessi þjóðlegi bragur í textanum og spennuþrungnu tónar. Einstaklega kröftugt lag og það er greinilegt að þarna er Gréta Salóme að sýna hvað hún getur!
P: 5 - Þetta lag á skilið að vinna. Það er grípandi og eftirminnilegt, flutt vel og vandlega. Lagið virkar á mann eins og nútíma túlkun á þjóðlagi með því að blanda saman klassískum fiðlutónum og gospelkórs-ómum frá bakraddasöngvurunum með nútíma rokk-hljóði. Ég vil að þetta verði framlag Íslands í Eurovision í ár.
S: Þetta er að mínu mati besta lagið í keppninni. Ég fæ bara gæsahúð við að hlusta á það. Þetta lag er mjög sérstakt en samt formúlukennt sem passar vel í keppnina. Það er svona forn-íslenskur blær yfir því sem er mjög flott. Jónsi og Gréta Salóme syngja líka frábærlega vel. Það er síðan ótrúlega flott þegar hún dregur upp fiðluna og spilar á hana. Ég vona svo innilega að þetta verði framlag okkar í Eurovision í ár! -10

Stattu upp - Blár ópal:
L: Einstakt lag á allan hátt. Lagið er vel samsett, það grípur mann og rúllar um í hausnum á manni, þó án þess að pirra mann. Textinn er mjög góður en hann er eitthvað sem þarf að spá fyrir sig. Lagið er sungið af nýjum flytjendum sem vonandi munu verða meira áberandi í keppninni. Lagið hefur einnig vakið mikla athygli og verið mjög vinsælt. Af öllum 15 lögunum er þetta eina lagið sem ég hef sett inn á tónlistarspilarann minn og ég hef virkilega trúa á laginu.
P: 4 - Þetta lag er lag er eflaust sigurvænlegast af öllum í keppninni og er mjög grípandi. Textinn er ekki mjög frumlegur en vel sunginn og lagið hrífandi þó ég verði að segja að mér finnst ég hafa heyrt það allt of oft áður. Það kæmi mér ekki á óvart ef hljómsveitin “Blár ópal” myndi vera fulltrúi okkar í Eurovision í ár og ég hefði ekkert á móti því, þó það sé ekki uppáhaldslagið mitt í keppninni í ár.
S: Þetta er mjög hresst og eitthvað sem unga kynslóðin fílar. Það er gaman að horfa á þetta en á sama tíma vona ég að við munum ekki senda þetta. Ég er líka ekkert mjög hrifin af rappinu í þessu lagi. -6

Hvaða lag heldurðu að vinni og af hverju?
L: Það er alltaf mikill vafi við þýðingu á lögunum og hvernig erlendir áhorfendur túlka textann en ennþá varasamara er að fara með lagið út.
Ég giska á:
- 1. sæti: Stattu upp vegna þess að þetta er virkilega gott lag og ég held að bæði þýðingin verði góð og laginu verði tekið vel úti.
- 2. sæti: Hey vegna þess að það er séríslenskt og ég held að það sé virkilega þess virði að senda eitthvað séríslenskt út, sama hvort það verður í ár eða seinna.
- 3. sæti: Mundu eftir mér. Lagið er einfaldlega skemmtilegt.
P: Ég held að Blár Ópal muni vinna, þó ég væri helst til í að sjá Jónsa og Gretu á sviðinu í Bakú. “Stattu upp” er ekki slæmt lag, en “Mundu eftir mér” er mun betra að mínu mati.
S: Ég held að Mundu eftir mér með Grétu Salóme og Jónsa muni vinna einfaldlega af því það er lang besta lagið! Ég verð mjög stolt af því framlagi. Það er líka tími til kominn að lag samið eingöngu af konu verði sent í keppnina. Í öðru sæti set ég Hugarró sem ég er einnig mjög hrifin af.

Hver er annars ykkar skoðun?
Sviðstjóri á hugi.is