Stefan Raab og Evróvision Ég ætla að gerast svo kræf að skrifa heila grein um einn af kynnunum keppninnar í ár. Það kann að hljóma undarlega en það vill svo til að þessi náungi á töluverðan þátt í því að draga Evróvision upp úr því göturæsi sem það var lent í í öðru fjölmennasta Evróvision landinu, Þýskalandi. Þar að auki er Evróvision saga hans afar fjölbreytt.

Stefan Raab (fæddur 1966 í Köln) er þekktur í Þýskalandi sem lagasmiður, söngvari, upptökustjóri, sjónvarpsmaður, sjónvarpsþáttaframleiðandi og sjónvarpsmaður. Mörg þeirra laga sem hann hefur sjálfur flutt hafa komist inn á vinsældarlista en yfirleitt stíla þau inn á húmor. Oft notar hann búta úr gömlum lögum eða jafnvel hljóðbrot úr viðtölum í lögin. Hann stjórnar sjónvarpsþættinum TV Total sem sendur er út fjögur kvöld í viku. Þátturinn er síðkvöldsþáttur í ætt við þætti Jay Leno. Raab gerir m.a. grín að öðru sjónvarpsefni sem er á boðstólnum í þýsku sjónvarpi og fær til sín gesti í viðtöl. Einnig hefur hann þróað hugmyndina á bak við nokkrar raunveruleikaseríur eða sjónvarpskeppnir í ætt við Idol-keppnir, t.d. til að velja keppendur/lög fyrir Evróvision.
Stefan Raab er þó alls ekki óumdeildur. Grínið dansar oft á línu gríns og illkvittni. Tvisvar hefur hann verið dæmdur til að greiða skaðabætur fyrir ærumeiðingar en nokkrum sinnum hafa orð hans fallið í verulega grýttan jarðveg. Raab voru hinsvegar dæmdar miskabætur eftir að þýskur tónlistarmaður sló hann og nefbraut baksviðs við afhendingu þýsku tónlistarverðlaunanna eftir að Raab hafði endurtekið gert grín að manninum í þættinum sínum.

Raab kom í fyrsta sinn að Evróvision árið 1998 þegar hann samdi lagið Guildo hat euch lieb fyrir söngvarann Guildo Horn. Já, við erum að tala um gamla manninn, með síða hárið og skallann í græna velúrgallanum sem klifraði út um allt. Lagið var sent inn undir höfundarnafninu Alf Igel sem gerir grín að Ralph Siegel sem hefur átt 17 lög í lokakeppni Evróvision og er fastagestur í þýsku undankeppninni. Lagið var valið með tæplega 62% atkvæða og náði 7. sæti í lokakeppninni í Birmingham.

Árið 2000 sneri Raab aftur og þá flutti hann sjálfur lagið Wadde hadde dudde da í blikkandi diskógalla. Undankeppnina vann hann með 57% atkvæða og náði 5. sæti í aðalkeppninni.

Fyrir þýsku undankeppnina 2004 fengu Raab og nokkrir aðrir tónlistarmenn boð um að taka þátt án þess að fara í gegnum dómnefnd. Síðla árs 2003 hleypti Raab af stokkunum sjónvarpssöngvakeppninni Stefan leitar að súper Evróvision-keppanda í þætti sínum TV Total. Nafnið á keppninni var afökun á nafni þýsku Idol keppninnar sem heitir Þýskaland leitar að súperstjörnu. Á frummálinu er Idol-ið, Deutschland sucht den Superstar, stytt í DSDS en keppni Raabs hét Stefan sucht den Super-Grand-Prix-Star stytt í SSDSGPS (Árið 2007 stóð Raab fyrir keppni sem var stytt í SSDSDSSWEMUGABRTLAD). Söngvarinn Max Mutzke stóð uppi sem sigurvegari SSDSGPS og söng lag Raab, Can’t wait until tonight í þýsku undankeppninni og vann í einvígi við framlag frá Scooter með 92% atkvæða. Í lokakeppninni í Istanbúl endaði hann í 8. sæti. Fram að þessu höfðu Evróvision-lög Raabs einkennst af því sem hann er þekktur fyrir, vitleysisgangi. En nú brá öðru við. Lagið var ljúft blúsað lag þar sem ekki komu neinir skrautlegir búningar við sögu og ekkert var fíflast. Raab sat sjálfur þægur á sviðinu og spilaði á gítar.

Vorið 2005 fór Raab í samkeppni við Evróvision og startaði nokkurskonar þýskri Evróvision keppni þar sem þýsku sambandsríkin 16 keppa sín á milli. Með því vildi hann efla þýska tónlist, en í þeirri keppni þarf a.m.k. helmingur textans að vera á þýsku. Keppnin hefur verið haldin árlega síðan en hefur verið flutt til hausts til að vera ekki í samkeppni við Evróvision lengur.

Árin 2007 til 2009 voru mögur ár fyrir Þýskaland í Evróvision, 19. sæti 2007, 23. árið 2008 þótt ein vinsælasta stúlknasveit landsins hafi flutt lagið og meira að segja hálfber Ditta von Teese dugði ekki í meira 20. sæti 2009. Norður-þýska sjónvarpið (NRD) sem fer með sýningarréttinn á Evróvision í Þýskalandi leitaði því leiða til að rífa keppnina upp úr því fari. Stefan Raab hafði sýnt keppninni áhuga í gegnum árin og þau atriði sem hann hafði komið nálægt enduðu öll í topp 10. En Raab var samningsbundinn einkareknu sjónvarpsstöðinni ProSieben sem sýnir TV Total. Málum lyktaði þannig að stöðvarnar tvær fóru í samstarf um keppnina. Keppnin var með Idol-sniði og sóttu 4.500 söngvarar um að komast í þáttinn en aðeins 20 voru valdir. Þeim var svo fækkað í átta þáttum með símakosningu. Þriggja manna dómnefnd gaf álit á frammistöðu keppanda þótt hún hefði ekkert vægi í úrslitunum. Raab var formaður dómnefndarinnar og honum til aðstoðar var þekkt þýskt tónlistarfólk eða skemmtikraftar. Þegar kom að úrslitunum voru tvær söngkonur eftir og í úrslitaþættinum sungu þær hvor þrjú lög, sem kepptu um að verða framlag Þjóðverja í Evróvision 2010. Tvö af lögunum sungu þær báðar en hvor þeirra fékk eitt lag sem var sérstaklega samið fyrir þær. Fyrst var kosið um hvaða lag af þessum fjórum sem var í boði ætti að fara út en af því að lagið Satellite var annað af lögunum sem báðar sungu þurfti líka að kjósa um hvor söngkonan færi. Niðurstaðan varð Lena Mayer-Landrut sem gerði sér svo lítið fyrir í Osló og vann lokakeppnina. Raab hefur síðan unnið með Lenu sem upptökustjóri. Þátturinn fékk verðlaun fyrir besta skemmtiþáttinn þegar þýsku sjónvarpsverðlaunin fyrir árið 2010 voru veitt.

Eftir sigur Lenu ákváðu Þjóðverjar fljótlega að hún myndi reyna að verja titilinn á heimavelli 2011. Undankeppnin var því bara til að ákveða hvaða lag hún syngi. Alls voru tólf lög í boði, og í þremur þeirra átti Raab einhvern þátt auk þess sem hann var formaður ráðgefandi dómnefndar eins og árið áður. Þátturinn fékk þó ekki jafn góða dóma og undankeppnin í fyrra þar sem spennan var engin og þátturinn þótti einsleitur þar sem aðeins einn flytjandi kom fram.
Meðan á undankeppinni stóð voru komnar fram hugmyndir um að Stefan Raab yrði kynnir í lokakeppninni í Düsseldorf. En ef eitt laga hans yrði valið sem þýska framlagið yrði hann að gefa það starf frá sér. En svo fór að lagið Taken by a Stranger vann en Raab á ekki hlut í því.

Og nú tekst Stefan Raab á við enn eitt hlutverkið í þessari keppni, að vera kynnir. Hvort hann sé heppilegur í það starf er ég ekki viss um. En hvað sem því líður þá finnst mér hann svo sannarlega eiga það skilið.

Heimildir:
www.de.wikipedia.org
www.eurovision.tv
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.