Hérna er mjög svo sérstakt lag sem ég vil að þið veltið aðeins fyrir ykkur…

Rendez-vous var framlag Belga til Söngvakeppninnar sem haldin var í München árið 1983. Lagið flutti hljómsveitin Pas de Deux. Höfundur lags var Walter Verdin en hann samdi einnig ,,texta" lagsins ásamt Paul Peyskens.

Lagið þykir æði sérstakt fyrir nokkrar ástæður, en veigamestar eru þær ástæður að texti lagsins hefur að geyma svo gott sem 12 orð á hollensku:
Rendez-vous | Maar de maat is vol en m'n kop is toe
en á ensku er það þýtt og heimfært sem “Rendez-vous | Better give it up, I don't have a clue” og á frönsku sem “Rendez-vous | Mais les jeux sont faits et je suis à bout”.

Einnig þykir mjög sérstakt við þetta lag hvað sinfónía söngvakeppninnar spilar stóran part í virkni lagsins!

Þá þykir klæðnaður Dett Peyskens og Hilde Van Roy á úrslitakvöldinu hafa verið æði sérstakur, en meðal þess sem vakti athygli (einnig hjá spænska keppandanum) var að þær voru berfættar á sviðinu.

Rendez-vous vann belgísku forkeppnina með þó nokkrum yfirburðum, en atkvæði voru greidd af 7 manna dómnefnd. Ekki voru allir sammála, en þegar ljóst þótti að lagið hefði sigrað bauluðu áhorfendur sem mest þeir máttu og létu sig hverfa úr salnum.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í München varð sú að lagið endaði í 18. sæti af 20 þjóðum, með 13 stig (8 stig frá Spáni, 4 frá Bretum og 1 frá Portúgölum).

Persónulega tel ég að nokkurs konar listrænan gjörning sé að ræða. Ég rökstyð það með því að Walter Verdin er listamaður og hefur verið þekktur fyrir margskyns listræna gjörninga í heimalandi sínu.

Lagið flutt í aðalkeppninni í Þýskalandi
Lagið eins og það var flutt í belgísku undankeppninni
Endurflutningur lagsins eftir að hafa sigrað forkeppnina, heyrið bara baulin!

Heimildir að mestu fengnar af Diggiloo.net.

Mál að linni.