Selmu vel tekið-styttist í Eurovision Nú styttist svo sannarlega í hina árlegu Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin verður laugardaginn 21. maí n.k. Næsta fimmtudag verður undankeppnin haldin en í henni munu ýmsar þjóðir, þ.á.m. fulltrúar okkar Íslendinga stíga á svið.

Eins og lang flestir vita er það Selma Björnsdóttir sem tekur þátt í keppninni í ár fyrir Íslands hönd ásamt aðstoðarfólki. Selma mun syngja lagið “If I had your Love” . Eins og segir í grein á mbl.is í dag, 15. maí er Selma vinsæl þar ytra og hefur gengið mjög vel á æfingum og á fundum með blaðamönnum. Sjá http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1138575

Eins og svo oft áður þá er okkar lagi spáð sigri en við eigum eftir að komast að því þegar keppninni líkur hvort Selma slær sitt eigið met í Eurovision og sigrar keppnina fyrst Íslendinga.

Ég held persónulega að það sé ekki spurning að Selma komist áfram í aðalkeppnina og reyndar finnst mér ekki svo ólíklegt að hún sigri undankeppnina. Ég tel líklegt að við sjáum á gengi Selmu í undankeppninni hvernig henni verður tekið í aðalkeppninni sjálfri. Ég vona svo sannarlega að hún verði ofarlega og það yrði frábært að vinna. Ég held að við færum ekkert á hausinn við að halda þessa keppni frekar en þessi austantjaldslönd sem hafa verið að halda hana síðustu ár. Það væri hægt að halda hana í Egilshöllinni og það þyrfti eflaust að kaupa ýmis tæki sem svo sannarlega kæmi Ríkissjónvarpinu vel að eignast. Ég er hér hins vegar komin langt fram úr sjálfri mér með þessum hugsjónum.

Svo að ég komi með mitt álit á nokkrum öðrum lögum þá finnst mér hin Norðurlöndin vera með ágæt lög að þessu sinni.

Danska lagið; “Talking to you” finnst mér mjög skemmtilegt, þó svo að mér finnist það mun betra á dönsku. Það er Jakob Sveinstup sem syngur framlag Dana og ég er ákveðin í að gefa honum mitt atkvæði í forkeppninni.

Norska lagið mun án efa eiga góðu gengi að fanga í keppninni í ár. “In my Dreams” er sungið af fjórum strákum sem kalla sig Wing Wam og þeir minna svo sannarlega á hjómsveitina Wam og fleiri gamlar rokksveitir. Lagið er grípandi rokklag og alls ekki í þessum svokallaða Eurovision stíl. Mér heyrist á öllu að það höfði mjög til unglinga og muni verða vinsælt a.m.k. í forkeppninni. Sjálf er ég ekkert svo hrifin af því sem Eurovision lagi.

Norrænu “dómararnir” sem hafa verið í sjónvarpinu undanfarnar vikur hafa spáð öllum þessum lögum góðu gengi í keppninni í ár, en kannski finnst okkur Norðurlandabúum við sjálf best í þessu eins og öðru og því kannski ekkert að marka þessar spár, því miður.
Ég hef hlustað á ýmis lög bæði í sjónvarpinu og á www.eurovison.tv og ég get ekki sagt að það séu nein önnur lög sem grípa mig sem stendur (ef þið vitið um eitthvað mjög gott lag megið þið alveg benda mér á það). Ég er þó mjög spennt að sjá forkeppnina og hvernig keppendum tekst til og hvernig framkoma þeirra verður. Fólk venst lögunum við að heyra þau í forkeppni og ég tel að efstu lögin í þeirri keppni muni eiga góðu gengi að fagna í aðalkeppninni sjálfri, næstkomandi laugardag. Á síðasta ári sigraði einmitt söngkonana Ruslana bæði undankeppnina og aðalkeppnina fyrir hönd Úrkaínu eins og frægt er orðið.

Hvað finnst ykkur? Hvaða lög telið þið að verði efst í ár. Eigið þið ykkur eitthvað uppáhalds lag? Hafið þið einhverjar kenningar um gengi Selmu í ár.
Gaman væri að heyra einhver svör við þessum spurningum (og ekkert skítkast eða leiðindi gagnvart einum né neinum keppanda).

Karat.