1986 - Íslendingar tóku fyrst þátt í Eurovision með laginu “ Gleðibankinn” eftir Magnús Eiríksson. Flytjendur voru Pálmi Gunnarsson, Helga Möller og Eiríkur Hauksson. Öll þjóðin fylgdist með “sigurlaginu okkar” en því miður gekk laginu ekki eins vel og allir vonuðu og lenti það í 16. sæti.

1987 - Halla Margrét söng lagið “Lagið Hægt og Hljótt” eftir Valgeir Guðjónsson. Aftur lentum við í 16. sæti.

1988 - Nú fóru þeir Sverrir Stormsker og Stefán Hilmarsson með lag Sverris “Sókrates”. Alveg ágætis lag, ef maður fílaði Sverri, en viti menn, það lenti í 16. sæti!

1989 - Daníel Ágúst söng lagið “Það sem enginn sér” eftir Valgeir Guðjónsson. Lenti lagið í neðsta sæti og það sem meira var, það fékk ekkert stig - zero points! Gárungarnir kölluðu lagið “Það sem enginn sá né heyrði” eftir keppnina.

1990 - Nú fór Stjórnin út, þau Grétar Örvarsson og Sigga Beinteins og tóku þau stjórnina í sínar hendur. Þau sungu lagið “Eitt lag enn” eftir G. Ólafsson og gerðu það með glæsibrag enda lenti lagið í 4. sæti. Glæsilegt!

1991 - Þeir Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson fóru til Ítalíu með lagið “Nína” eftir Eyjólf. Það var og er alveg gullfallegt lag en ekki var öll Evrópa því lagið lenti í 15. sæti. Það náði samt þónokkrum vinsældum hérlendis. Sama ár söng Eiríkur Hauksson með flokknum Just 4 Fun fyrir Noreg, þau lentu í 17. sæti

1992 - Hljómsveitin Heart 2 Heart, með þær Sigrúnu Evu og Siggu Beinteins í fararbroddi, sungu lagið “Nei eða Já” eftir Stefán Hilmarsson, Friðrik Karlsson og Grétar Örvarsson. Lagið var nokkuð gott og lenti í 7. sæti.

1993 - Þetta árið söng Ingibjörg Stefánsdóttir lagið “Þá veistu svarið” eftir Friðrik Sturluson og Jón Kjell Seljeseth. Svar Evrópu var 13. sætið.

1994 - Fyrir Íslands hönd fór Sigga Beinteins í þriðja skiptið og söng hún lagið “Nætur” eftir Stefán Hilmarsson og Friðrik Karlsson. Var Írinn Frank McNamara fenginn til að útsetja lagið. Ekki gekk samt laginu of vel því það lenti í 12. sæti.

1995 - Loksins fékk Björgvin Halldórsson að fara og syngja í Eurovision en hann hafði margreynt í undankeppnum. Söng hann lagið “Núna” eftir Jón Örn Marinósson, Bjögga sjálfann og Ed Welch. Aftur var Frank McNamara fenginn til að útsetja lagið. En ekki fór betur fyrir þessu lagi en mörgum öðrum því það lenti í 15. sæti

1996 - Anna Mjöll Ólafsdóttir fór og söng lagið “Sjúbidú” eftir hana sjálfa og pabba hennar Ólaf Gauk Þórhallsson. 13. sætið var handa þeim.

1997 - Páll Óskar Hjálmtýsson flutti lag sitt og Trausta Haraldssonar “Minn hinsti dans”. Það var sko tekið eftir Palla en því miður lenti lagið aðeins í 20. sæti.

1998 - Vegna lélegs gengis íslensku laganna undanfarin 5 ár, urðu Íslendingar að sitja hjá í eitt ár.

1999 - Besta ár Íslands í Eurovision til þessa. Selma Björnsdóttir söng lagið “All Out of Luck” eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson, Sveinbjörn I. Baldvinsson og Selmu sjálfa. Lenti lagið eftirminnilega í öðru sæti og munaði aðeins örfáum stigum á því og vinningslaginu. Eftir þessa keppni fór áhugi Íslendinga á keppninni að aukast til muna.

2000 - Einar Ágúst Víðisson og Telma Ágústsdóttir sungu lagið “Tell me” eftir Sigurð Örn Jónsson og Örlyg Smára og stóðu sig með prýði en lagið kom Íslandi í kunnuglegt sæti - það 12.

2001 - Two Tricky fór til Danmerkur með þeim Kristjáni Gíslasyni og Gunnari Ólasyni í broddi fylkingar. Þeir sungu lagið “Angel” eftir Einar Bárðarson og Magnús Þór Sigmundsson. Það er óhætt að segja að allir urðu steinhissa þegar í ljós kom að lagið fékk aðeins 3 stig og lenti í síðasta sæti ásamt Noregi. Ótrúlegt en satt!

2002 - Ísland á ekkert lag í keppninni vegna þess hve við fengum fá stig árið á undan.

2003- Birgitta Haukdal fer til Riga með lagið “Open Your Heart” sem er samið af Hallgrími Óskarssyni og textinn er eftir Birgittu og Hallgrím.