Þessa helgina hef ég verið að læra undir próf úr Sölku Völku í ÍSL503 og langaði að deila með ykkur glósum sem ég fann af netinu. Það tók mig langann tíma að finna þær eftir að hafa gefist upp amk 3 sinnum. 

Ástæðan fyrir því að ég set þetta inn hérna er til að hjálpa námsmönnum að ná skilning á bókinni (og hversu ógeðslega erfitt var að finna þetta). Salka Valka eftir Halldór Laxness er löngu úreld bók og telst erfið bók fyrir marga námsmenn.

Ég mæli með að lesa glósurnar yfir t.d. 1-3 kafla í einu og lesa svo kaflana. Svo er gott að lesa glósurnar fyrir próf.

Hér kemur þetta...

---

Formáli
 
Halldór Laxness fæddist 23. apríl 1902.  Hann hafði ekki náð 30 ára aldri þegar Salka Valka kom út (fyrri hlutinn; Þú vínviður hreini kom út 1931 en seinni hlutinn; Fuglinn í fjörunni 1932).
 
Ýmsir telja bók hans Vefarann mikla frá Kasmír marka upphaf íslenskra nútímabókmennta en Salka Valka var fyrsta bókin sem hann fékk útgefna á erlendri grund.
 
Litlu munaði að drögin að Sölku Völku yrðu kvikmynduð í Bandaríkjunum.  Handrit Laxness A woman in pants vakti athygli hjá Metro-Goldwin-Mayer-kvikmyndasamsteypunni en fyrirætlanir um kvikmynd runnu út í sandinn þegar væntanlegur leikstjóri stytti sér aldur.
 
Fyrri hluti Sölku Völku gerist á Óseyri við Axlarfjörð á árunum 1910-1914 en síðari hlutinn um áratug síðar eða um miðjan þriðja áratuginn.
 
Salka Valka er „bók um peníngalaust fólk“ eins og Laxness sagði sjálfur.  Síðari hluti hennar er ákaflega pólitískur og þar verður mjög vart við sósíalískar lífsskoðanir Laxness.  Ýmsar persónur og atburðir sem sagt er frá í síðari hluta bókarinnar eiga sér stoð í samtíma höfundar en um miðjan þriðja áratuginn urðu hatrammar pólitískar deilur sem á stundum leiddust út í persónulegt níð. 
 
Sú mynd sm dregin er upp af samfélaginu í fyrri hluta bókarinnar, Þú vínviður hreini, er kyrrstæð.  Lögmál efnahagslífsins eru eilíf og óumbreytanleg og Bogesen kaupmaður ríkir yfir öllu.  Inn í fiskiþorpið ryðst síðan nýr tími – 20. öldin.
 
Í Sölku Völku stíga fram á sviðið stórbrotnar persónur.  Tvær eru þar í forgrunni; Salka Valka og Arnaldur, en litlu minna áberandi eru Sigurlína, móðir Sölku, og Steinþór, ástmaður hennar og örlagavaldur í lífi þeirra mæðgna. 
 
Verkið Sölku Völku má túlka á ýmsa vegu.  Deilt hefur verið um hvernig meta skuli aðalpersónur verksins og þar með hvaða svið sögunnar séu mikilvægust.  Sumir leggja megináherslu á þjóðfélagslega mynd verksins – hið pólitíska svið – þar sem Arnaldur er mest áberandi.  Aðrir telja að Salka Valka sé ótvírætt aðalpersóna verksins og bókin sé þroskasaga hennar. Þar skipti mestu máli samband hennar við móðurina þótt samskipti við Arnald og Steinþór séu einnig mikilvæg.
 
Steinþór Steinsson er öðrum fremur persónugervingur þorpsins, farmaður og fiskimaður.  Hann er villimaður, siðlaus persónugervingur hinnar stórbrotnu og óblíðu náttúru en gæddur þeim hæfileika að vefja líf sitt eins konar frumstæðum skáldskap.  Salka Valka laðast að honum, á milli þeirra er erótísk spenna, þótt hún fyrirlíti hann jafnframt.
 
Sigurlína, móðir Sölku er að sumu leyti andstæða Steinþórs.  Hann mótar líf sitt samkvæmt dýrslegu eðli en Sigurlína hrekst viðnámslaust eftir duttlungum örlaganna.  Að sumu leyti má segja að hún sé aðalpersóna fyrri hluta bókarinnar; Þú vínviður hreini, þar sm leið hennar liggur um „Ástina“ í „Dauðann“, eins og tveir meginhlutar bókarinnar eru nefndir.  Sigurlínu skortir fyrirhyggju, stefnufestu og ábyrgð.  Hún er algjörlega á valdi himnaföðurins – og Steinþórs – enda hrærir hún í bænum sínum saman Jesú Kristi, Steinþóri og heilögum anda.
 
Salka Valka er ótvírætt aðalpersóna verksins.  Ef litið er á söguna Sölku Völku sem þroskasögu hennar má segja að nöfn fjögurra hluta bókarinnar vísi til áfanganna á þeirri leið.  Hún kynnist „Ástinni“ gegnum Steinþór í fyrsta hluta, í öðrum hluta „Dauðanum“ þegar móðir hennar kveður þennan heim, í þriðja hluta „Öðrum heimi“ með sambandi sínu við Arnald og loks rennur upp „Kjördagur lífsins“ í fjórða og síðasta hluta þegar hún verður að kjósa sér hlutskipti. 
     Sigurlína er persónugervingur undirgefni og linku við komuna til Óseyrar við Axlarfjörð, enginn hlustar á þjáningu hennar og píslir og Salka Valka ákveður að svona muni ekki fara fyrir henni.  Hún verður því að samsama sig karlmönnum en afneita því sem móðir hennar stendur fyrir.
     Snemma í sögunni myndast ástarþríhyrningur á milli Sölku Völku, Steinþórs og Sigurlínu.  Segja má að árás Steinþórs á Sölku ræni hana móðurinni og staðsetji hana utan við samfélagið.  Það er ekki fyrr en hún kynnist Arnaldi sem einsemd hennar er rofin að nokkru leyti en þó óttast hún alla tíð að týna sjálfri sér í ástinni líkt og móðir hennar týndi sínu sjálfi í ástinni til Steinþórs.
     Salka Valka hefur, líkt og áður segir óbeit á Steinþóri og óttast hann.  Samt sem áður hefur hann eitthvert tangarhald á henni og dregur hana til sín eins og höfuðskepnurnar og örlögin.  Þannig er í sögunni annar ástarþríhyrningur á milli Steinþórs Sölku Völku og Arnalds.
 
Arnaldur er ótvírætt andstæða Steinþórs.  Persónu Sölku Völku einkennir öðru fremur frjór samleikur náttúru og menningar.  Henni er þannig stillt upp á milli tveggja andstæðna sem holdgerast í Steinþóri og Arnaldi.  Steinþór er ímynd frumeðlisins, hinnar siðlausu lífsorku, en Arnaldur er fulltrúi siðmenningarinnar og hugsjónabaráttunnar. 
     Segja má að Arnaldur og Salka bæti hvort annað upp í þeim skilningi að hann er tenging hennar við hinn fagra heim siðmenningarinnar og hún er samband hans við veruleikann (fiskinn!).
     Arnaldur er sveimhugi; draumóramaður sem lifir fyrir hugsjónina (draumsýn sósíalismans).  Á hann virðist lítið vera að treysta á stundum, hann er flókinn persónuleiki og oft er erfitt að henda reiður á honum.  Elskar hann Sölku Völku eða er hann bara að nota hana til þess að komast í takt við veruleikann, öðlast jarðsamband?  Salka Valka freistast til þess að bera hann saman við Steinþór; hann sé manneskja en Arnaldur bara kenning.  Samt sem áður lítur hún upp til Arnalds og elskar hann – þrátt fyrir að viðhorf þeirra til lífsins og verðmætamat eigi litla samleið.
 
Þótt ástarsagan sé kölluð „pólitísk“ er þjóðfélagslegi þáttur hennar aðeins rammi utan um mikla örlagasögu sem gæti í raun gerst hvar sem er.  Í henni verður vart við vangaveltur manna um „hvort maðurinn sé alltaf einn“ eða hvort „enginn sé eyland“.  Óttinn við einsemdina grúfir eins og vofa yfir Sölku Völku.  Á unga aldri vaknar hún um miðja nótt og verður vör við að móðir hennar er horfin úr rúminu og farin til Steinþórs.  „Uppfrá þessu átti hún aungva móður.  Kanski átti einginn maður móður.“  Yfir ástarsögu Sölku Völku og Arnalds grúfir einnig óttinn við einveruna.  Ástin milli þeirra verður svo áköf og harmsár af því að hún er í rauninni ekki annað en vin í eyðimörk einverunnar.
 
Af þessu má sjá að Salka Valka hefur ýmsar víddir.  Hægt er að túlka hana sem beitta ádeilu á kröpp kjör íslenskrar alþýðu á fyrri hluta aldarinnar.  Það má lesa hana sem harmræna ástarsögu þar sem stórkostlegar persónur stíga á svið og lesandinn getur túlkað með ýmsu móti.  Jafnframt býður sagan upp á að lagt sé út af henni á heimspekilegan hátt um tilvist mannsins og einsemd hans.  Svona mætti lengi telja.  Eftir stendur að Salka Valka er meistaralega skrifuð skáldsaga sem er í senn bráðfyndin og harmræn og nær til lesenda á öllum tímum hvar sem er í veröldinni.
 
 
 
1. hluti bókar - Ástin
 
 
Kafli 1
 
Sigurlína og Salka Valka koma með strandbáti til Óseyrar við Axlarfjörð.  Sigurlína er mjög þrekuð eftir mikla sjóveiki (kómísk lýsing) en Salka valka er hress og spræk. 
 
Mæðgurnar eru illa búnar og umkomulausar í hráslagalegu vetrarveðrinu (aðeins þrjár vikur eru liðnar frá jólum sem segir okkur að það er janúar). 
 
Upphaflega höfðu mæðgurnar ætlað suður (til Reykjavíkur) í leit að betra lífi en Sigurlína treysti sér ekki til að fara lengra vegna sjóveiki
 
(Takið því hvernig mæðgunum er lýst; Sigurlína umkomulaus og brjóstumkennanleg, eiginlega kómísk lýsing, en Sölku Völku líst sem frísklegri og kátri – þó ögn skringilegri – ungri stúlku).
 
Guðmundur kadett er kynntur til sögu í þessum kafla.  Hann tekur á móti Sigurlínu og Sölku og vísar þeim á herinn.  Ekki fer þó mikið fyrir greiðvikni hjá honum.  Á hernum hitta þær mæðgur Steinþór í fyrsta skipti en hann á eftir að verða örlagavaldur í lífi þeirra.  (Veitið ruddalegu stolti hans eftirtekt þegar hann kynnir sig eins og hann sé allt í öllu í þorpinu).
 
 
Kafli 2
 
Í öðrum kafla er kafteinn Anderson kynntur til sögunnar.  Hann telur öll vandkvæði á að hýsa mæðgurnar (þótt aðeins sé skammt liðið frá fæðingarhátíð Frelsarans) en samþykkir þó að leyfa þeim að matast á Hernum (takið eftir kómískri lýsingu á því hvernig lifnar yfir Sigurlínu við að matast – hún fer að daðra við karlmennina, e.t.v. til að eiga betri möguleika á að fá húsaskjól).
Eftir matinn er haldin trúarsamkoma í samkomusal hússins.  Sigurlína heillast svo af Guðsorðinu að hún frelsast á einu augabragði (felur sig Guði til að þurfa ekki að bera ábyrgð á sér sjálf?)  (Takið eftir spaugilegri lýsingu á Þórdísi Sigurkarlsdóttur eða Toddu truntu sem talar fjálglega um þær píslir sem syndugur skríllin mun þurfa að líða á dómsdegi – annað en hún sjálf og hennar líkar sem hafa frelsast!)
 
Flestir sem samkomuna sitja eru þó ekki komnir þangað til að hlýða á Guðsorðið heldur til þess að daðra og dufla (a.m.k. unga fólkið).  Svo fer að lokum að samkoman leysist upp þegar einhverjir taka að henda öskudollum inn í samkomusalinn, ýmist fullum af ösku, gólfhroða, ruðum, þangi eða snjó (Salka Valka heldur að nú sé guð að hegna fólkinu fyrir allt daðrið!)
 
 
3. kafli
 
Segir frá fyrstu nótt mæðgnanna á Hernum og atvinnuleit Sigurlínu daginn eftir.  Hún fer og leitar sér vistar í húsi Bogesens kaupmanns en frúin (dönsk hefðardama) nennir ekki að veita henni viðtal (er vön að sofa fram að hádegi á morgnana). 
 
Lýsing á híbýlum kaupmannsfjölskyldunnar – þau eru í miklu ósamræmi við það sem annars tíðkast í þorpinu.
 
Angantý, syni kaupmannsins, lýst sem ofdekruðum og ókurteisum strákpjakki.  Það að vera ríkur gerir fólk ekki endilega betra.  (Dóttir fátækrar einstæðrar móðir e.t.v. vandaðari að innan en hinn forríki sonur kaupmannsins).
 
Kafli 4
 
Sigurlína heimsækir prófastinn í þorpinu.  Hann tekur henni mátulega vel, segist ekki hafa nokkuð að gera fyrir hana og engan veginn geta hjálpað henni.  Heldur yfir Sigurlínu ræðu um konu sem fékk vist hjá söðlarahjónunum og reyndist svo vera ófrísk.
 
Prófasturinn býður Sigurlínu og Sölku að þiggja kaffi og með því hjá þjónustustúlku sinni.  Prestmaddaman stöðvar þær fyrirætlanir og vill fremur bjóða mæðgunum upp á uppáhelling frá því um morguninn.
 
Sigurlína firtist við og svarar fyrir sig – er loks nóg boðið af yfirlæti betur megandi fólks í þorpinu.
 
Kafli 5
 
Sigurlína leitar ásjár hjá lækninum í þorpinu.  Læknirinn tekur henni vel, er yfirmáta kurteis við hana (smeðjulegur)?
 
Sigurlínu þykir læknirinn undarlegur í háttum og á erfitt með að skilja hann.  Augu hans eru syfuleg og sljó, næstum eins og í drukknum manni.  Hann þylur upp latnesk lyfjaheiti og fer yfir víðan völl.  Sigurlínu finnst á tímabili að hann sé að stinga upp á því við sig að hún fremji sjálfsvíg en því neitar læknirinn staðfastlega.
 
Læknirinn sér engin úrræði fyrir Sigurlínu og Sölku.  Hann hleypir þeim út á gaddinn.
 
Kafli 6
 
Steinþór kemur Sigurlínu og Sölku Völku til hjálpar með því að fara með þær til Steinunnar, móðursystur sinnar, og Eyjólfs í Mararbúð. 
 
Steinunn og Eyjólfur eru gömul hjón sem eiga orðið erfitt með búskap og hafa lengi verið að hugsa um að fá til sín vinnukonu.
 
Steinunn tekur mjög hlýlega á móti Sigurlínu og Sölku Völku en Eyjólfur er heldur skapstirður.
 
Ath.  lýsinguna á kúnni Dröfnu.  Steinunn kemur fram við hana eins og hún sé lifandi!
 
 
 
 
Kafli 7
 
Fyrsta kvöldið í Mararbúð greinir Salka Valka móður sinni frá því að Steinþór hafi látið ósiðsamlega við sig.  Sigurlínu verður hverft við, biður um að þær muni alltaf verða vinkonur hvað sem á gangi.
 
Um nóttina vaknar Salka Valka upp við að Steinþór er kominn upp í rúm þeirra mæðgna.  Hún fer að hljóða og hann hrekst á brott.
 
Seinna um nóttina vaknar hún við að móðir hennar er horfin úr rúminu og skilur að hún er farin til Steinþórs. 
 
Uppfrá þessu átti hún aungva móður.
 
 
Kafli 8
 
Salka Valka er látin vinna fyrir vistinni í Mararbúð með því að bera út mjólk á nágrannabæi. 
 
Fólkið í plássinu er forvitið um hagi móður hennar og í fyrstu er Salka óspör á upplýsingarnar.  Hún segir að móðir hennar sé farin að sofa uppi á loftinu hjá gömlu hjónunum enda séu þau Steinþór svo að segja trúlofuð. 
 
Fyrir þessar upplýsingar er Sölku í fyrstu borgað með ýmsum góðgerðum, s.s. kaffi og skonroki en smátt og smátt finnur hún fyrir því að fólkið í þorpinu lítur niður á hana og móður hennar.
 
Krakkarnir í þorpinu leggja hana í einelti; senda henni háðsglósur og kasta á eftir henni snjókúlum.
 
Þessi framkoma veldur stúlkunni mikilli sorg og hún grætur þegar hún er í einrúmi.
 
Salka er þó ekki illa haldin líkamlega; hún fær nóg að borða í Mararbúð.
 
Dag einn eru gerð boð fyrir Sölku Völku um að hitta barnakennarann (líklega farkennara).  Kennarinn spyr Sölku ýmissa spurninga en hún hefur engin viðeigandi svör. 
 
Kennarinn segist halda að hún hafi ekki fulla andlega heilbrigði, segir að réttast sé að senda hana til prófastsins enda geti kennarinn ekkert gert fyrir hana.  Eyvindur gamli ver Sölku hins vegar; segir hana vel geta lært.  Hann leyfir sér jafnvel að gera lítið úr barnakennaranum. 
 
 Kafli 9

 
Salka Valka kynnist Arnaldi Björnssyni, 13 ára pilti úr þorpinu.
 
Arnaldur úr Kófinu er fenginn til þess að kenna Sölku Völku að lesa o.fl.  Arnaldur kemur Sölku undarlega fyrir sjónir en henni líkar strax vel við hann. 
 
Í návist Arnalds skammast Salka sín fyrir útganginn á sér; finnur í fyrsta sinn fyrir því hvað hún er óhrein og í ljótum fötum.
 
Arnaldur greinir Sölku frá því að hann sé ættaður að sunnan.  Hann hafi verið aðskilinn frá móður sinni við 5 ára aldur og ekki séð hana síðan.  Afi hans og móðursystir hafi tekið hann að sér eftir að móðir hans „fór“.  Arnaldur trúir því þó ekki að móðir hans sé dáin og finnst hann ekki eiga heima á Óseyri.
 
 
Kafli 10
 
Salka Valka er mjög uppnumin af kennslustundunum hjá Arnaldi.  Hún fer að þvo sér á hverjum degi til að líta betur út í augum hans og skammast sín mjög fyrir fötin sem hún gengur í.
 
Salka fer niður á bryggju til fiskhúsa Jóhanns Bogesens kaupmanns og falast eftir vinnu hjá verkstjóranum.  Honum líst í fyrstu mátulega á að ráða svo unga stelpu en Salka er ákveðin og fær að lokum vinnu.
 
Eyjólfur gamli er ekki mjög upprifinn yfir því að Salka Valka skuli vera orðin verkakona.  Hann vill að hún nýti sér kennslustundirnar hjá Arnaldi sem best.
 
Þegar Salka hefur unnið í þrjár vikur fer hún í verslun Jóhanns Bogesens til að kaupa sér kjól fyrir launin sín.  Þá kemst hún að því að móðir hennar er þegar búin að taka út varning fyrir launin hennar.  Hefur m.a. keypt sér fallegan rósóttan kjól sem stingur hlægilega í stúf við líkamssköpuð hennar.
 
Salka Valka fyllist reiði og hleypur grátandi út úr búðinni.  Þá verður Jóhann Bogesen kaupmaður á vegi hennar og spyr hvað ami að henni.  Hún segir honum sorgarsögu sína.  Jóhann Bogesen aumkar sig yfir hana.  Hann gefur henni 2 krónur og fer með hana heim til sín þar sem kona hans tekur á móti henni.  Hún lætur þvo Sölku og snyrta hana til og gefur henni svo kjól af dóttur sinni.
 
Sigurlína getur ekki horft framan í Sölku þegar hún kemur heim í öllum skrúðanum og það snöggrennur af Steinþóri við að sjá stúlkuna.
Kafli 11
 
Salka leggur í vana sinn að standa á steinbrú og horfa á börn úr þorpinu að leik.  Henni er aldrei boðið að vera með og hún biður ekki um það.  Arnaldur tekur heldur ekki þátt í leikjum barnanna.
 
Salka bíður kennslustundanna hjá Arnaldi í ofvæni.  Kennslan gengur vel og Salka lærir fljótt að stauta og draga til stafs. 
 
Dag einn er Salka búin að útvega sér krítarspjald af því að Arnaldur ætlar að kenna henni undirstöðuatriði í reikningi.  Áður en hann kemur teiknar hún litla mynd af manneskju á spjaldið (höfuðfætlu) og nær ekki að þurrka hana út áður en Arnaldur birtist.  Hún felur spjaldið og vill ekki sýna honum teikninguna sína.  Þau slást um spjaldið, kitla hvort annað og hlæja.  En þegar Arnaldur sér spjaldið segir hann að myndin sé af litlu barni.  Salka Valka reiðist.
 
Sagt er frá draumi Sölku þar sem hún stendur við steinbrúna og horfir á dreng að leik.  Þegar hann kemur nær sér hún að drengurinn er ekki Arnaldur heldur Steinþór og Salka vaknar með angist og hryllingi.
 
 
Kafli 12
 
Steinþór drekkur ótæpilega.  Í ölæði sínu raupar hann um afrek sín í útlöndum og segist eiga allt sem í þorpinu er. 
 
Þrátt fyrir menntunarleysi er Steinþór orðheppinn og sæmilega hagmæltur: “… í tali hans brá næstum altaf fyrir hinu háttbundna vængjataki skáldsins einsog það birtist í hinni hrjúfustu, ruddalegustu og upprunalegustu mynd; hann skynjaði tilveru sína í frumstæðum táknum, næstum goðfræðilegum. (bls. 92)”
 
Steinþór fer illa með Sigurlínu þegar hann drekkur og hún er hætt að syngja á morgnana. 
 
Sigurlína á að vitna á Hernum og biður Sölku að koma með sér.  Þegar þangað er komið verður Salka agndofa að heyra móður sína rekja raunasögu sína.  Sigurlína greinir frá því að hún hafi átt Sölku með giftum manni.  Einnig segir hún frá því að hún hafi verið rekin úr vist norður í landi þegar hún varð uppvís af því að hafa sofið hjá húsbónda sínum á meðan kona hans lá á sæng eftir barnsburð.  Eftir það hafi hún komið á Óseyri við Axlarfjörð.  Sigurlína segist margsinnis hafa verið að því komin að binda endi á líf sitt en alltaf hafi verið eitthvað sem stoppaði hana.  Hún biður til Guðs að hann frelsi Steinþór frá óreglunni svo að hún geti átt með honum hamingjuríkt líf.
 
 
Kafli 13
 
Steinþór gefur Sölku Völku 4 krónur og tvöfaldar þannig þá upphæð sem Jóhann Bogesen gaf henni.
 
Sigurlína kemst að þessu og verður reið við Sölku Völku. 
 
Sigurlína fær prófastinn til að koma og tala við Steinþór um framkomu hans við Sölku Völku.
 
Þegar prófasturinn er farinn rennur æði á Steinþór.  Reiði hans minnkar ekki þótt Sigurlína segist ganga með barn hans.  Hann gengur í skrokk á Sigurlínu og læsir sig inni í herbergi með Sölku Völku.  Móðir hennar fer og nær í hjálp en þegar hún berst liggur Salka í öngviti í herberginu.


2. hluti - Dauðinn



Kafli 14
 
Tvö ár hafa liðið.  Steinþór er farinn í burtu.  Sigurlinni, bróðir Sölku er fæddur.
 
Líkami Sölku Völku hefur breyst til muna.  Hún er orðin kynþroska, afnvel svolítið lagleg.  Salka gengur yfirleitt í buxum ólíkt öðru kvenfólki í þorpinu.
 
Arnaldur er fermdur og hefur tekið fullnaðarpróf.  Hann og Salka umgangast ekki mikið lengur en Salka dáist að honum úr fjarlægð.
 
Ágústa (Gústa) dóttir kaupmannsins kemur til Óseyrar frá Kaupmannahöfn.  Er afskaplega fallega klædd.  Daðrar við Arnald og fær hann til að útvega sér sígarettur og brennivín.
 
Salka móðgast við Arnald fyrir að virða sig að vettugi þegar Gústa er nálægt.
 
Kafli 15
 
Jafnaðarhugmyndir; það er enginn munur á Sölku Völku og Gústu kaupmannsins þegar þær eru háttaðar ofan í rúm.
 
Gráti Sigurlinna lýst; hann er mjög veikur og Sigurlína vakir yfir honum um nætur.
 
Slúðursögur ganga um að Gústa táldragi Arnald.  Salka Valka fyllist afbrýðisemi.
 
Salka eltir Herborgu móðursystur Arnalds heim í Kófið.  Í Kófinu er ekki ríkmannlegt um að litast en þar eru hlutirnir í röð og reglu og öllu nostursamlega fyrirkomið.
 
Herborg vorkennir Sölku fyrir að eiga Sigurlínu fyrir móður.  Býður Sölku upp á kaffi og sýnir henni myndaalbúm.  Þar eru m.a. myndir af Solveigu móður Arnalds og Birni föður hans.  Herborg fyrtist við þegar Salka segist hafa heyrt að móðir Arnalds sé ekki dáin en verður dreymin á svip þegar hún talar um föður hans.
 
Arnaldur kemur heim og þau Salka fara að rífast.  Salka Valka hleypur heim þegar Arnaldur minnist á að Steinþór hafi nauðgað henni.
 
Kafli 16
 
Á útmánuðum kemur Björn faðir Arnalds í heimsókn til Óseyrar.  Fólkið í þorpinu er mjög forvitið um hann og Herborg bakar og steikir sem aldrei fyrr. 
 
Ávæningur er af því að Björn Björnsson muni ætla að kaupa Kófið og reisa þar veglegt hús þar sem hann sé orðinn meðeigandi í togarahlutafélagi fyrir sunnan.
 
Arnaldur biður Sölku Völku afsökunar á ummælum sínum um þau Steinþór og tjáir henni að hann sé á leiðinni suður, faðir hans ætli að kosta hann til náms.
 
Salka er Arnaldi ennþá reið fyrir ummæli hans um þau Steinþór.  Hún á bágt með að fyrirgefa honum og hleypur í burtu frá honum
 
Kvöldið sem Arnaldur á að fara getur Salka hins vegar ekki setið á sér að hlaupa niður á bryggju til að fylgja honum til skips.  Arnaldur er hins vegar seinn fyrir verður ekki var við Sölku í öllum flýtinum. 
 
Þegar Salka ætlar að snúa heim á leið verður hún vör við manneskju sem henni finnst líkjast Herborgu.
 
Kafli 17
 
Sigurlína fær nýjan vonbiðil sem kallast Jukki á Kvíum en heitir réttu nafni Jóakim. 
 
Jukki er kominn nær fimmtugu og hefur lengi verið fyrirvinna karlægra foreldra sinna sem bjuggu á koti inni í dalnum.
 
Á vordögum braggast Sigurlinni.  Sigurlína og Jukki trúlofast. 
 
Herborg og Jón í Kófinu fara burt.  Kófið og allt sem því fylgir á að selja á uppboði.  Orðrómur er um að fyrrverandi tengdasonur Jóns hafi látið falla á hann víxil (vígseðil!) og Herborg sé ólétt.
 
Á haustdögum gerir aftakaveður.  Bátur Jóhanns Bogesens með fimm manna áhöfn ferst og þök fjúka af þurrabúðum.
 
Sigurlinni veikist aftur og deyr á milli jóla og nýárs. 
 
Salka Valka fer á skemmtun sem haldin er til styrktar fjölskyldunum í plássinu sem misstu fyrirvinnu sína.  Jóhann Bogesen heldur ræðu þar sem hann biður fólk að halda sig á mottunni með þær kröfur sem það gerir til hans.
 
Salka Valka verður vör við að móðir hennar er að reyna að gefa líki Sigurlinna litla brjóst.
 
Kafli 18
 
Sigurlína er farin að hugsa alvarlega til þess að gifta sig.  Kvíja-Jukki situr lon og don í eldhúsinu í Mararbúð og talar vísindalega um veðrið.
 
Steinþór kemur aftur heim.  Salka Valka verður skelfingu lostin en Steinunn hvetur hana til að halda ró sinni.  Segir að það þýði ekkert að hugsa um hvað hann gerði á meðan hann drakk.  Nú sé hann hættur að drekka og sé þar af leiðandi nýr maður.
 
Sigurlína ásakar Steinþór fyrir að hafa yfirgefið sig og barnið.  Steinunn tjáir þá skoðun sína að Steinþór ætti að giftast Sigurlínu.
 
Steinþór sýnir Sigurlínu gjöf sem hann hafði ætlað að færa syni sínum.  Það voru fallegir skór (allt of stórir samt).
 
Steinþór færir Sigurlínu einnig ljóð sem hann segist hafa ort á spítala í Englandi.
 
 
Kafli 19
 
Kvía-Jukki heldur áfram að leggja leið sína í Mararbúð en nú er Sigurlína orðin fálát við hann. 
 
Kvía-Jukki minnir Sigurlínu á peysufötin sem hann var búinn að kaupa fyrir hana.  Hún er samt ekkert skárri við hann.
 
Kvía-Jukki spyr Sölku Völku hvort Sigurlína og Steinþór séu farin að sofa saman.  Salka hreytir í hann ónotum og svarar ekki spurningunni.
 
Að lokum gefst Kvía-Jukki upp og fer í Mararbúð til þess beinlýnis að sækja Sigurlínu.  Sigurlínu kemur ekki til hugar að fara með honum.  Hendir í hann trúlofunarhringnum og peysufötunum.  Þar með er trúlofuninni slitið.
 
Eyjólfur les Steinþóri pistilinn.  Segir að aldrei muni komast skikk á kaupstaðinn fyrr en Steinþór og hans líkar séu farnir að þroska með sér ábyrgðartilfinningu gagnvart öðrum.
 
 
Kafli 20
 
Steinþór heldur áfram að væflast í Mararbúð.  Salka heldur sig eins mikið fjarri og hún getur.
 
Sigurlína flikkar upp á útlitið.  Fær leyfi hjá dóttur sinni til að taka út úr búðinni efni í treyju og fær gefins gamalt pils.  Einnig er hún farin að vanda sig við að setja upp hár sitt.  Hún hefur hengt upp í herberginu sínu skóna sem Sigurlinni átti að fá.  Þeir eru hennar einu skrautmunir.  Hún leggur sig einni sérstaklega fram um að staga í fötin af Steinþóri.
 
Steinþór reynir að koma sér í mjúkinn hjá Sölku.  Hrósar henni fyrir hvað hún sé gáfuð.  Segist ætla að giftast mömmu hennar ef það sé ósk Sölku.  Segist jafnvel vera tilbúinn að fara í fangelsi fyrir það sem hann gerði Sölku forðum.  Nær að rugla stúlkuna í ríminu.
 
Sigurlína verður vör við að eitthvað er í gangi á milli Steinþórs og Sölku og grátbiður stúlkuna um að taka ekki manninn frá sér.
 
Tveimur dögum síðar kemur prófasturinn í heimsókn.  Markmið hans er að hvetja Steinþór til að giftast Sigurlínu.  Minnir hann á hvað hann gerði Sölku og segist hafa komið í veg fyrir málarekstur út frá því.
 
 
Kafli 21
 
Laugardaginn fyrir páska fær Salka Valka bréf frá Arnaldi.  Með því fylgir mynd sem hjálpar Sölku við að skýra myndina af honum í huganum.  Salka Valka verður frá sér numin af gleði og stingur bréfinu inn á sig til geymslu.
 
Salka heyrir móður sína vitna á Hernum.  Sigurlína þakkar Drottni fyrir að Steinþór hafi nú loksins samþykkt að gifast sér.
 
Á leiðinni heim frá Hernum hittir Salka Steinþór.  Steinþór nær enn og aftur að rugla stúlkuna í ríminu.  Gefur henni forláta hring sem hann segist hafa verið þrjú misseri að vinna fyrir.
 
Salka slítur sig lausa frá Steinþóri í þann mund sem móðir hennar kemur heim.  Sölku er mjög brugðið, sver móður sinni að ekkert hafi gerst.
 
Salka áttar sig á því að bréfið frá Arnaldi er týnt.  Hún á erfitt með að gera upp við sig hvað hún eigi að gera við hringinn.  Finnst hálft í hvoru réttast að skila honum en ákveður svo að halda honum út af fyrir sig.
 
Sölku dreymir enn draum þar sem andlit, sem virðist vera Arnaldar, breytist í andlit Steinþórs.
 
 
Kafli 22
 
Brúðkaup Sigurlínu og Steinþórs er auglýst; „stórt halelúja-brúðkaup“, sem halda á í herkastalanum á laugardagskvöldið fyrir páska.
 
Skömmu fyrir brúðkaupið týnist Steinþór.  Fiskibátar kaupstaðarins koma að landi og Sigurlína fer niður á bryggju að hitta Steinþór.  Kemst þá að því að hann hefur ekki mætt til róðrar.  Fréttir að hann hafi farið um borð í gufuskipið nóttina áður og muni vera á leið til útlanda.
 
Sigurlína er eyðilögð.  Herkonurnar ná ekki einu sinni til hennar með sálmum sínum.
 
Í dymbilvikunni gerir mjög vont veður.  Sigurlína hverfur um daginn sem átti að vera brúðkaupsdagurinn hennar; laugardaginn fyrir páska.
 
Salka Valka og Steinunn leita Sigurlínu um kvöldið en finna hana ekki.  Eyjólfur reynir að hughreysta Sölku; talar í vingjarnlegum tóni í fyrsta sinn svo Salka muni.
 
 
Kafli 23
 
Sigurlína finnst látin á páskadag.  Hafði hent sér í sjóinn og rekið á fjöru.  Fannst með skóna hans Sigurlinna í höndunum.
 
Angantýr, sonur kaupmannsins skoðar líkið af mikilli forvitni.
 
Læknirirnn úrskurðar Sigurlínu látna.  Gefur Sölku Völku sælgæti.
 
Prófasturinn gengur úr skugga um að inneign Sölku í versluninni gangi upp í útfararkostnaðinn.
 
Prófasturinn ræðir við Sölku um líkræðuna yfir móður hennar.  Þeim dettur báðum fátt í hug að segja um Sigurlínu.
 

3. Hluti - Annar heimur

Kafli 1
 
Sagan hefst um vor u.þ.b. 10 árum eftir að fyrri sögunni lauk (miður 3. áratugurinn).
 
Litlar stúlkur stíga dans í fjörunni og syngja „Fuglinn í fjörunni.“ 
 
Guðmundur Jónsson kadett kemur í heimsókn til Sölku.  Nokkuð hefur hallað undan fæti fyrir honum.  Herinn hefur lagt upp laupana og Guðmundur er orðinn of gamall til að vinna.  Konan hans er orðin veik.
 
Guðmundur leitar á náðir Sölku Völku um að hjálpa sér með bréf sem hann hefur skrifað konunginum (Danakonungi) í þeirri von að konungur veiti sér ásjá.
 
Gömlu hjónin í Mararbúð eru liðin á braut.  SalkaValka er stuttklippt og gengur í buxum.  Er orðinn skrifari í nýstofnuðu sjómannafélagi.
 
Gamli prófasturinn er látinn og nýr prestur kominn í hans stað.
 
Samfélagið á Óseyri við Axlarfjörð hefur breyst mikið frá því að við skildum við það síðast.  Búið er að stofna sjómannafélag sem stendur vörð um hagsmuni sjómannanna gegn versluninni.  Peningar eru farnir að sjást í þorpinu.  Heyrst hefur að í bígerð sé að stofna verkalýðsfélag.
 
Salka Valka les yfir bréfið frá Guðmundi þar sem hann biður Danakonung um 75-80 krónur í peningum.
 
 
Kafli 2
 
Salka Valka fer í heimsókn Sveinbjargar, konu Magnúsar bóka.  Þau hjón eiga sjö börn í ómegð en fjögur eru dáin.  Magnús fær hvergi skipsrúm þar sem hann þykir ónýtur til vinnu.  Einhverja atvinnu hefur hann þó af því að binda bækur.
 
Sveinbjörg er mjög veik, þjáist af innanmeini.  Heldur vöku fyrir börnum sínum á næturnar með stununum í sér.
 
Séra Sófonías, er ungur prestur sem nýlega hefur vígst til Óseyrar við Axlarfjörð.  Séra Sófonías reynir að hughreysta Sveinbjörgu með orðum úr Biblíunni og bók eftir guðrækilegan mann að nafni Smiþþ (Smith!).   Ungi presturinn reynir að telja Sveinbjörgu trú um að þær kvalir sem á hana séu lagðar sé prófsteinn á trú hennar. 
 
 Salka Valka á erfitt með að halda einbeitingu yfir ræðu hans.

Kafli 3
 
Á leið heim frá Sveinbjörgu hittir Salka Valka Bogesen kaupmann. 
 
Bogesen lýsir vanþóknun sinni á því hvernig Salka er til fara; stuttklippt í buxum og stígvélum. 
 
Bogesen lýsir einnig áhyggjum af stofnun sjómannafélagsins og yfirvofandi verkalýðsbaráttu.  Finnst fólkið í þorpinu vera að svíkja sig.  Talar um gamla tímann þegar hagsmunir kaupmannsins og fólksins í þorpinu fóru saman, þá hafi allir haft nóg að bíta og brenna.
 
Salka er hálfhissa á því óöryggi sem henni finnst hún skynja í fari Bogesens.
 
Bogesen talar um að Beinteinn í Króknum hafi svikið sig.  Bogesen hafi gefið honum gervifót af bestu sort en svo hafi Beinteinn farið að dreifa boðskap úr rússneskri villutrúarbók meðal fólksins í þorpinu (Kommúnistaávarp Marx og Engels). 
 
Bogesen telur einnig að Beinteinn úr Króknum hafi haft samband við Kristófer Torfdal, æstasta bolsévika landsins, um að kenna fólkinu á Óseyri að gera verkföll.
 
Bogesen segist ekki eiga annað en skuldir og ábyrgð.  Segist aldrei hafa grætt nokkurn skapaðan hlut – konan sín eigi húsið með öllum tuttugu herbergjunum.  Spyr Sölku Völku hvort hún haldi að Krisófer Torfdal muni færa fólkinu í þorpinu styttur af framandlegum dýrum og barnagull líkt og hann hafi gert.
 
Tal Sölku og Bogesens eyðist þegar lítill strákur úr þorpinu kemur og spyr Bogesen hvort hann vilji borga fyrir að horfa á sig gleypa ánamaðk.
 
 
Kafli 4
 
Sagt frá Kristófer Torfdal, æstasta bolsévika landsins.  Sá maður gefur út dagblað fyrir sunnan, Þjóðina, sem ekki má lesa á Óseyri við Axlarfjörð.
 
Kristófer Torfdal fer fyrir flokki manna sem nefnast bolsévikar eða „bolsar“.  Það er mál manna að þeir hafi í fórum sínum sprengifefni og vígvélar frá Rússlandi og ætli sér að afkristna þjóðina og sýkja hana með fransósu (kynsjúkdómur).
 
Einnig ganga þær sögur að Kristófer hafi alið illkynjaða hræfugla og önnur kvikindi frá Rússum eða Dönum gegn borgarstjóranum í Reykjavík.  Gargið í þessum skepnum hafi haldið mjög vöku fyrir heldra fólki í Reykjavík þangað til flokkur unglinga hafi frelsað þær.  Skepnurnar hafi þá reynst vera hrafnar og tófur og sem gert hafi mikinn skaða fyrir bændum sunnanlands eftir frelsunina.
 
Nótt eina kemur ókunnur maður í þorpið og er mál manna að þar sé kominn sjálfur Kristófer Torfdal.  Það reynist hins vegar vera Katrínus verkstjóri Bogesens kaupmanns sem ráðinn hafði verið til að hafa yfirumsjón með fiskversluninni og smíði nýja íshússins sem fyrirhugað var að byggja.    
 
Ekki er laust við að vonbrigða gæti hjá fólkinu á Óseyri við Axlarfjörð.

Kafli 5                
 
Angantýr Bogesen kemur heim að utan.  Er orðinn fisksali í fyrirtæki föður síns.  Veitir Sölku Völku athygli og kallar hana heitfenga.
 
Híbýlum Sölku Völku er lýst.  Hún hefur þrjár myndir á kommóðunni sinni.  Ein er af konu sem hún hjálpaði oft með soðningu, önnur er af söðlasmiðsfrúnni og sú þriðja af eineigðum vonbiðli Sölku úr næsta firði.  Auk þess á hún litla mynd af Arnaldi í nisti.
 
Samanburður er gerður á kríum og æðarfugli.  Æðarfuglinn er miklu rómantískari.  Krían er ekki rómantískur fugl.
 
Fjórir gestir koma í heimsókn til Sölku Völku að kvöldlagi: Angantýr Bogesen, Stephensen verslunarstjóri, Sveinn Pálsson, söðlasmiður, rakari og þjóðskáld og Katrínus Eiríksson verkstjóri hjá Bogesen.
 
Tilgangur heimsóknarinnar er að fá Sölku Völku til að tala á móti stofnun verkalýðsfélags.  Þeir tilkynna Sölku einnig að Arnaldur sé kominn til Óseyrar til að fá fólk til að gangast undir merki Kristófers Torfdal.
 
 
Kafli 6
 
Eftir að gestirnir eru farnir frá Sölku fer hún að hugsa um Arnald.  Skoðar myndina af honum í nistinu sem hann gaf henni.  Skoðar einnig hringinn frá Steinþóri.
 
Angantýr Bogesen kemur aftur í heimsókn til Sölku, hafði gleymt leðurhönskunum sínum hjá henni.  Hann kemur að Sölku þegar hún er að máta hanskana.  Rífur einnig af henni nistið og skoðar það.  Salka segir að myndin sé af bróður sínum.
 
Angantýr heldur áfram að reyna að tryggja að Salka verði fráhverf boðskap bolsévika.  Lofar Sölku gulli og grænum skógum ef hún tali máli verslunarinnar í sjómannafélaginu.  Býður henni lán til að kaupa sér hlut í bát.  Salka afþakkar, minnug þess að Angantýr hafði sparkað í líkið á móður hennar.
 
Næstu nótt er Salka andvaka.  Stendur upp úr rúminu og lítur út um gluggann.  Þá sér hún mann í fjöruborðinu.  Hann sér hana líka en þau talast ekki við.
 
 
Kafli 7
 
Stjórnmálafundur er haldinn á Óseyri við Axlarfjörð.  Beinteinn í Króknum tekur til máls og útskýrir hvernig stóð á því að Bogesen keypti handa honum gervifót.  Segist alls ekki hafa skrifað þakkarávarpið til Bogesens sem birtist í blöðunum.  Er að lokum borinn grátandi út á tún.
 
Arnaldur tekur til máls.  Hann hvetur verkalýðinn til að sameinast og standa vörð um kjör sín gegn yfirstéttinni.  Vill að lýðurinn berjist fyrir bættri framtíð.  Talar um draumsýn þar sem fátækir barnamenn og -konur eiga glæsilegan togaraflota.  Börnin verði alin upp á samyrkjubúum þar sem litið verði eftir þeim af hálærðu fólki og götur þorpsins verði sléttar sem handarbak. 
 
Salka mótmælir þessari ræðu Arnalds.  Segir hann vera draumóramann.  Þó ver hún hann þegar til kastanna kemur og lemur óvini hans.
 
 
Kafli 8
 
Sölku Völku dreymir illa nóttina eftir stjórnmálafundinn.  Morgunninn eftir er sunnudagur.  Salka Valka baðar sig.
 
Arnaldur kemur í heimsókn þegar Salka er í miðju kafi við þvottinn.  Hún bregður yfir sig gamalli kjóldruslu.
 
Arnaldur segir að verkalýðsfélag hafi verið stofnað eftir að Salka fór af fundinum.  Hann þakkar henni fyrir að hafa barið óvini sína.
 
Salka og Arnaldur tala um Bogesen og börnin hans.  Arnaldur segir Sölku sögur af ósiðsamlegu lífi Gústu Bogesen og upplýsir hana um að Angantýr sé trúlofaður dönsku biskupsdótturinni.
 
Salka sakar Arnald um að vera draumóramann.  Segir að hugsjónir hans stríði á móti skynseminni.
 
Arnaldur talar um fátæktina í þorpinu.  Talar um að í þorpinu sé óeðlilega mikill barnadauði og að 85% þorpsbúa lifi við ófullnægjandi viðurværi.  Arnaldur vill meina að fátækt sé glæpur.
 
Arnaldur spyr Sölku hvort Steinþór hafi sent henni peninga til þess að kaupa Mararbúðina.  Salka segir að Steinþór sé áreiðanlega meiri maður en Arnaldur.  Hún minnir Arnald á daginn sem hann sagði að móðir hennar væri trunta og nuddaði Sölku upp úr glæp sem hún var saklaus af.
 
Þau tala um hvað þau séu ólík.  Salka segir að Arnaldur sé huldumaður sem búi í landi þar sem alltaf sé falleg spákona í himinbláum kjól.  Sjálf segist hún hins vegar búa í landi þar sem alltaf sé skuggi af einhverju fjalli.
 
4. Hluti - Kjördagur lífsins

Kafli 9
 
Samningaviðræður verkalýðsins við Jóhann Bogesen hefjast.  Bogesen er ósveigjanlegur, vill ekki hækka kauptaxtann.
 
Gervifóturinn er skrúfaður af Beinteini í Króknum; það hafði verið misskilningur að nokkur annar en hann sjálfur ætti að borga hann.
 
Forsvarsmenn verkalýðsins stofna til verkfalls.  Haldin er verkfallsvakt til þess að koma í veg fyrir fólk geti stolist til að vinna.  Hlutverki verkfallsvarða gegna sterkir bolsar úr öðrum kauptúnum.
 
Samningaviðræður við Bogesen halda áfram.  Bogesen heldur áfram að vera ósveigjanlegur. 
 
Verkfallsmenn grýta Katrínus Eiríksson verkstjóra. 
 
Angantýr Bogesen og móðir hans sigla til Danmerkur.
 
Kláus Hansen, yfirbankastjóri Þjóbankans, kemur í heimsókn til Óseyrar við Axlarfjörð.
 
 
Kafli 10
 
Kláus Hansen er kominn til Óseyrar til þess að fylgjast með verkfallinu.
 
Sveinbjörg, kona Magnúsar bóka deyr.  Hún hafði orðið hress í einn og hálfan dag eftir að verkalýðsfélagið var stofnað og bað Arnald að koma til sín til þess að fræða sig um tilgang lífsins.  Hann hafði hins vegar orðið frá að hverfa þar sem henni sló heiftarlega niður.  Nokkrum dögum síðar var hún dáin.
 
Magnús bóki er farinn að halda við aðra konu áður en Sveinbjörg deyr.
 
Margir Óseyringar vilja fá nýjan lækni í plássið, telja að gamli læknirinn sé orðinn vitlaus.  Jóhann Bogesen mælir því hins vegar í mót, segir að allir nýir læknar séu bolsar.
 
Salka Valka reynir að hjálpa til eftir dauða Sveinbjargar.
 
Flugvél á sjóskíðum kemur að ná í Kláus Hansen.
 
 
Kafli 11
 
Bogesen situr fast við sinn keip og neitar að verða við samningaumleitunum verkfallsmanna.
 
Verkafólkið ókyrrist, vill fara að vinna aftur.  Arnaldur reynir að sannfæra fólkið um að halda verkfallinu áfram.  Virðist í fyrstu hafa tekist það en næsta dag eru nokkrar konur farnar að vaska fisk.
 
Það spyrst út að Arnaldur hafi sofið hjá Guju, dóttur Beinteins í Króknum.  Arnaldur er hins vegar á bak og burt.
 
Beinteinn í Króknum yfirgefur málstað Arnalds og gengur í lið með Bogesen kaupmanni. 
 
Arnaldi tekst að koma verkfalli aftur á.  Kemur siglandi til Óseyrar með 20 verkfallsverði.  Þetta vekur upp stemmningu í þorpinu.  Fyrst slást menn en svo endar allt með balli.
 
 
Kafli 12
 
Salka tekur að sér 4 af hinum eldri börnum Magnúsar bóka og Sveinbjargar.  Hún vill bjarga Magnúsi fyrir horn á meðan hann er ekki enn búinn að segja sig á sveitina.
 
Arnaldur heimsækir Sölku Völku um nótt.  Arnaldur veit ýmislegt um uppruna Sölku.  Segir henni að faðir hennar hafi verið norskur sjómaður sem nú sé látinn.
 
Salka og Arnaldur rífast um hugsjónir kommúnismans og framtak einstaklingsins.  Salka sakar Arnald um hugsjónamennsku og um að vera úr takti við raunveruleikann.
 
Arnaldur spyr Sölku út í Steinþór.  Fram kemur að Steinþór hefur sent henni peninga, m.a. til að kaupa Mararbúð. 
 
Salka Valka gerir grein fyrir tilfinningum sínum í garð Steinþórs og móður sinnar.
 
Arnaldur heldur til skips, er á leið burt úr þorpinu.  Á bryggjunni kemur til hans ungur drengur og færir honum lítinn böggul.
 
Kafli 13
 
Steinþór er kominn aftur til Sölku Völku frá Ameríku.
 
Salka og Steinþór tala um þjóðfélagið og réttlætið.  Salka hefur snúist á sveif með verkalýðshreyfingunni.
 
Steinþór segist hafa þekkt prettina í Bogesen lengi.
 
 
Kafli 14
 
Verslun Bogesens er komin á hausinn.  Sveinn Pálsson var eini óháði útgerðarmaðurinn í þorpinu og er nú tekinn við versluninni.  Þjóðbankinn er farinn á hausinn.
 
Miklar sögur ganga af því hvernig Bogesen hefur reitt af síðan hann fór frá Óseyri.  Sumir segja hann vera orðinn fátækan og telja að hann hafi fengið slag í banka fyrir sunnan. 
 
Arnaldur kemur aftur til Óseyrar í vertíðarbyrjun.  Kemur með ritvélargarm og ætlar að gefa út blað undir nafninu Áhuginn.  Blaðið á að koma út einu sinni í viku og vera andsvar við málgagni Jóhanns Bogesens.  Arnaldur segir að Bogesen hafi það ágætt fyrir sunnan, eigi nóg af peningum og hafi ekki fengið slag.
 
Stofnfundur kaupfélagsins er haldinn að undirlagi Arnalds.  Félagsmenn eiga að leggja til stofngjald.
 
Salka Valka skrifar sig fyrir 150 krónum en Arnaldur lítur ekki á hana.
 
 
Kafli 15
 
Steinþór gerist útgerðarmaður.  Hann kaupir tvær trillur og ræður til sín menn.
 
Steinþór segist hafa lagt til 2000 krónur svo að hægt yrði að stofna kaupfélagið.  Hann segist jafnframt hafa verið staðráðinn í að drepa eiginmann Sölku Völku ef hún hefði gifst í fjarveru Steinþórs.
 
Salka segist hafa gefið Arnaldi hringinn sem Steinþór gaf henni forðum.  Steinþór segir að hringurinn hafi verið verðlaus.  Segir jafnframt að hann hafi aldrei nauðgað Sölku.
 
Salka og Steinþór slást.  Eftir slagsmálin fer Salka flytur Salka úr Mararbúð.
 
 
Kafli 16
 
Salka Valka fer að finna Arnald snemma morguns.  Spyr hann hvernig hann hafi getað fengið af sér að taka við peningum frá Steinþóri.  Arnaldur segist ekki hafa átt annarra kosta völ. 
 
Salka tilkynnir Arnaldi að hún ætli að ganga í verkalýðsfélagið.  Segist jafnframt vera flutt úr Mararbúðinni enda hafi hún aldrei átt neitt í húsinu.  Segist vera öreigi.
 
 
Kafli 17
 
Trillubátur Steinþórs ferst með fjórum mönnum.  Aðeins hann einn kemst lífs af með því að halda sér í kjöl bátsins.  Kona eins sjómannanna fær vitrun í draumi um að Steinþór muni hafa hrint hinum mönnunum af kilinum.
 
Kaupfélagið hreiðrar um sig í gömlu úthýsi og tekur að versla með ýmsa vöru.
 
Beinteinn í Króknum hefur aftur snúist á sveif með Arnaldi og vill endilega að dóttir hans verði ólétt eftir Arnald.
 
Hin nýja kona Magnúsar bóka er orðin ólétt (!)
 
Verslun Jóhanns Bogesens tekur aftur til starfa á Óseyri.  Gefur fátækum konum gjafir.
 
Æskulýðsfélag sjálfræðismanna er stofnað í plássinu.  Presturinn, læknirinn og barnakennarinn ganga umsvifalaust í það.
 
Salka er gengin í verkalýsðfélagið og flutt upp á loft hjá smáútvegshjónum með kommóðuna sína.
 
Sagt er frá því að Sesselja frá Roðgúl hafi misst eiginmann sinn frá 11 börnum.  Yfirvöld í þorpinu hafi bjargað henni frá því að fara á hreppinn með því að senda börn hennar í fóstur hingað og þangað.  Sveinn Pálsson hafi tekið hana í aðgerðarvinnu og leyft henni að vera í kjallaranum hjá sér innan um útsæðiskartöflurnar. Bogesen hafi svo gefið henni efni til að sauma sér fatnað.  Sesselja sendir þakkarávarp til velgerðarmanna sinna í dagblað stórútgerðarinnar fyrir sunnan.
 
Guðrún Jónsdóttir og Sigurður Jónsson frá Gíslabala senda einnig þakkarávarp til Jóhanns Bogesens og Sveins Pálssonar söðlasmiðs fyrir að hafa aðstoðað sig eftir að þau misstu kúna sína.  Þakkarávarpið birtist í blaði Jóhanns Bogesens, Vindinum, sem gefinn er út á Sílsfirði.
 
Kafli 18
 
Salka Valka og Arnaldur hafa lítið talast við síðan Salka gekk í verkalýðsfélagið.  Salka Valka óttast að baráttumóðurinn sé að mestu runninn af Arnaldi.
 
Dag einn hittast þau Arnaldur og Salka á förnum vegi og fara að spjalla saman.  Arnaldur býðst til að lána Sölku bók.
 
Salka spyr Arnald út í pólitíkina.  Arnaldur segir henni frá Kistófer Torfdal.  Samkvæmt lýsingum Arnalds er Kristófer alls enginn bolsi; hann er vinstrisinnaður en enginn öfgamaður.  Arnaldur hefur enga trú á að Kristófer muni gera sig að pólitískum samherja.
 
Arnaldur segist öfunda Sölku af hennar sterku og einföldu sjónarmiðum.  Segir að það sé hægara að taka málstað fólksins af lestri erlendra rita en þeirri viðkynningu sem hann fái af því sem kaupfélagsstjóri.
 
 
Kafli 19
 
Beinteinn í Króknum er dáinn. 
 
Salka Valka slæðist inn í eldhúsið á Oddsflöt þar sem dóttir Guðmundar Jónssonar kadetts og Hákon tengdasonur hans búa.  Hákon hefur forframast af því að skjóta hval á ævintýralegan hátt í Færeyjum.  Einnig er hann mögnuð refaskytta.
 
Nokkrir gestir eru í heimsókn, þ.e. Guðmundur Jónsson, Mangi á Þrífót, Guðvör, meykelling úr næsta húsi og tveir bolsar.  Rætt er um að gervifóturinn hafi fyrir rest verið skrúfaður af Beinteini í Króknum og sendur til Þýskalands.  Það hafi alltaf átt eftir að borga hann.
 
Rætt er um að Steinþór Steinsson sé kominn inn undir hjá Kristófer Torfdal.
 
Arnaldur kemur í heimsókn rétt sem snöggvast en staldrar stutt við.
 
Beinteinn í Króknum er jarðsunginn.  Það er dansað í erfidrykkju hans Sölku Völku til mikillar armæðu.    Það er mál manna að Beinteinn hafi verið farinn að snúast að málstað Jóhanns Bogesens undir það síðasta.
 
 

Kafli 20
 
Salka Valka fer niður í Kaupfélag til Arnalds til þess að skila honum bók sem hann hafði lánað henni (Bréf til almennings).
 
Arnaldur og Salka ákveða að fara í göngutúr saman.  Arnaldur segir Sölku Völku frá draumsýn sinni varðandi Óseyri, að þar muni rísa sameignarstórvirki sem sameini síldarbræðslu, lýsisbræðslu, beinamjölsverksmiðju, áburðarverksmiðju, búrekstur, skóla, verkamannabústaði og barnaheimi.  Hann segist munu gera Sölku að forstjóra samyrkjubúsins í dalnum, verði það að veruleika.
 
 
Kafli 21
 
Salka Valka og Arnaldur halda áfram að hittast.  Kvöld eitt sjá þau kerlingu leynast undir brú seint um kvöld.  Þau komast að því að söðlasmiðsfrúin og prestfrúin hafa ráðið Steinku gömlu á Gíslabala til þess að fylgjast með þeim.  Arnaldur ræður Steinku í staðinn til þess að fylgjast með prestfrúnni.
 
Arnaldur heldur áfram að segja Sölku frá hinni kommúnísku draumsýn sinni.
 
Kafli 22
 
Steinþór kemur í heimsókn til Sölku Völku undir því yfirskini að hann ætli að tala við hana um Mararbúð og bátinn sem hún á hlut í.  Fljótlega kemur í þó í ljós að hann er að forvitnast um samband Sölku við Arnald.  
 
Salka og Steinór ræða um samband Arnalds og Kristófers Torfdal, kaupfélagið og hvernig Steinþór komst lífs af úr sjávarháskanum. 
 
Sama dag er Sölku sögð sú saga að Steinþór hafi komst til fjár með því að brjótast inn í banka í Ameríku og drepa þar mann.
 
Kafli 23
 
Arnaldur fær 200 krónur lánaðar hjá Sölku Völku.
 
Skömmu síðar fréttist að Guja Beinteins sé lasin.  Sama kvöld sér Salka Arnald koma út úr húsi hennar. 
 
Salka er gripin mikilli afbrýðisemi og hún ákveður að fara í heimsókn til Guju til að komast að því hvort þau Arnaldur hafi verið saman.
 
Guja segir Sölku að hún hafi verið með Arnaldi og orðið ófrísk af barni hans.  Svo þakkar hún Sölku fyrir að hafa lánað sér 200 krónur fyrir fóstureyðingu.
  

Kafli 24
 
Salka segir Arnaldi frá því að hún viti um fóstureyðinguna.  Arnaldur gerir grein fyrir tilfinningum sínum í garð hennar – allt frá því að þau voru börn þar til nú.
 
Hann segist eiga sér þá ósk heitasta að fá að deyja í örmum hennar.
  

Kafli 25
 
Salka Valka og Arnaldur elskast í fyrsta sinn.  Þau hætt að fela samband sitt fyrir öðrum. 
 
Arnaldur vanrækir kaupfélagið.  Steinþór græðir hins vegar á tá og fingri.
 
Arnaldur fær ekki að fara í framboð til þings.  Salka Valka heldur honum uppi fjárhagslega.  Hún óttast hins vegar stöðugt að hann muni fara frá henni.
 
Dag einn í sumarlok fær Arnaldur boð frá Sílisfirði þar sem hann er beðinn um að koma til fundar við Kristófer Torfdal.
 
Arnaldur á að koma aftur til Óseyrar á framboðsfund jafnaðarmanna.  Salka Valka bíður hans en Arnaldur kemur ekki.  Kristófer Torfdal tjáir henni að Arnaldur hafi verið fenginn til að fara á hestum upp í óbyggðir sem leiðsögumaður fyrir efnað amerískt menntafólk.
  

Kafli 26
 
Jafnaðarmenn hafa sigur á þingi og Kristófer Torfdal verður forsætisráðherra.  Þjóðbankinn fer endanlega á hausinn (hin nýja ríkisstjórn neitar að veita honum ríkisábyrgð).  Þar með fer verslun Jóhanns Bogesens á hausinn.  Áhöld eru hins vegar um hvernig komið sé fyrir honum sjálfum efnahagslega.
 
Kaupfélagið fær inni í gamla verlsunarhúsnæði Bogesens.  Sveinn Pálsson gerist kaupfélagsstjóri en Steinþór Steinsson er kjörinn formaður kaupfélagsins.  Steinþór kaupir hvíta húsið hans Bogesens með öllum innanstokksmunum.
 
Steinþór kemur í heimsókn til Sölku Völku.  Hann vill að hún flytji með honum í hús Bogesens og sigli til útlanda í boði hans.  Salka Valka segist ekki vera til sölu.
 
Salka Valka fær bréf frá Arnaldi þar sem hann segist vera væntanlegur til Óseyrar innan tíðar.  Salka Valka geymir bréfið eins og fjársjóð og les aftur og aftur.
 
Þegar Arnaldur kemur aftur er eitthvað breytt á milli þeirra.  Arnaldur lítur vel út og hefur augljóslega haft gaman af ferðinni með ameríska menntafólkinu.
 
Salka Valka hverfur í þrjá daga.  Arnaldur fréttir að hún hafi farið upp í sveit til að hjálpa kunningjafólki sínu við heyskap.  Hann finnur hana loks sofandi í berjamó.
 
Arnaldur viðurkennir fyrir Sölku Völku að hann langi burt.  Sýnir henni mynd af fallegri konu sem hann hitti í óbyggðaferðinni.  Segir að hann geti samt ekki hugsað sér að yfirgefa hana.

Kafli 27

 
Salka lætur Arnald hafa 540 krónur fyrir farinu til Ameríku.  Þrátt fyrir mótbárur Arnalds vill hún ekki heyra á annað minnst en að hann fari.  Hún fylgir honum til skips og kveður hann. 
 
Á leiðinni frá skipinu mætir Salka Guðmundi Jónssyni kadett sem bíður þess að níunda barnabarn sitt fæðist.
 
Það er aftur kominn vetur á Óseyri.
 

Steinþór       
*               
Hann hjálpar mæðginunum þegar þær koma í þorpið. Kemur þeim í hús hjá frænku sinni. Hann þykist mikill maður og þykist geta gert nánast allt. Hann er sjálfstæður og þess vegna er líklegt að Salka hefur orðið sjálfstæð að hluta til út af honum
*               Hann er mikill drykkjumaður og trúlofast Sigurlínu móður Sölku Völku.
*               
Steinþór fer vanalega illa með Sigurlínu, hann er alltaf fullur, og hann kemur illa fram við hana. Það getur verið ein af ástæðunum fyrir því að Salka verður hrædd við karlmenn í framtíðinni.
*               
Steinþór hefur komið til margra staða í útlöndum, en Salka hefur bara komið til Óseyrar og er og verður líklega þar að eilífu. Steinþór hefur þó einungis komið í sóðahverfi borganna og segist hafa drýgt margar hetjudáðir í útlöndum. Salka verður spennt fyrir útlöndum.
*               Móðir Sölku er mjög trúuð – ekki Steinþór – Salka verður lítið trúuð í framtíðinni. Treystir algjörlega á sjálfa sig eins og Steinþór.
*               Steinþór gerir Sigurlínu (MÓÐUR SÖLKU) mjög óhamingjusama.
*               Salka skammar Steinþór þegar hann leggur hendur á móður hennar – “Leggurðu hendur á hana mömmu, fanturinn þinn” – ÁKVEÐIN
*               ”Mikið helvíti getur þú verið ljót” Steinþór við Sigurlínu”. Salka lemur Steinþór – Steinþór verður æstur – Reynir að nauðga Sölku Völku.
Fer svo til útlanda.
*               
Síðar platar hann hana með sér inn í fjárhúsið og gefur henni hring og dregur á hönd henni. Salka bregst hrædd og óð við og þýtur í burtu en hittir móður sína í dyrunum, kallar svo á eftir henni að ekkert hafi gerst.
Salka hefur mikið samviskubit og líður SVAKALEGA illa yfir þessu.
*               Steinþór fer svo burt – Sigurlínu líður illa – Þau ætluðu að gifta sig – en hann fer rétt fyrir brúðkaupið.
*               
Nú er Sigurlína MJÖG þunglynd og Sölku líður illa að sjá móður sína svona. Svo týnist Sigurlína og það kemur í ljós að hún framdi sjálfsmorð.
*               HANN ER ORÐINN RÍKUR
*               Nú er Salka breytt og farin að tala um kommúnisma og svoleiðis, en Steinþór rakkar það niður! Salka veit meira en Steinþór og talar um önnur mál. Steinþór er heimskur miðað við hana.
*               Steinþór er mikill maður núna og verslar mikið með fisk..
*               Steinþór lagði til 2000 krónur til að hægt væri að stofna kaupfélagið.
*               Hringurinn sem hann gaf henni var ódýr (hann fann hann á klósetti.)
*               Salka Valka hugsar um að Steinþór sé djöfullinn. Hann er uppistaða alls ills sem gerðist í lífi hennar.
*               
Hann segir að honum hafi ekki tekist að nauðga henni – hún hafi bitið og klórað – svo hafi runnið af honum og hann flúið.
*               Það er talað um að Steinþór sé mikill mannkostur. Jafnvel upp í opið geðið á henni. Það líta allir á hana þegar Steinþór er ræddur.
*               Hún óttast hann greinilega, en ber óttablandna virðingu fyrir honum.
*               Steinþór er sagður hafa rænt banka og drepið mann. Salka trúir því ekki.
Meiri synd að eignast barn á Óseyri en að drepa mann. Hún ver Steinþór.
*               Steinþór er formaður kaupfélagsins.
*               
Hann segir henni að það sé henni að þakka að hann hafi hætt að drekka og snúið sér að mannlífinu. Hún segir að það hefði verið betra hefði hann aldrei hætt.
*               
Annað – Steinþór sendir Sölku pening frá útlöndum til að hún gæti keypt Mararbúð.
 
Arnaldur       
*               Barnakennarinn fékk hann til Sölku til að hjálpa henni að læra
*               
Hann er tveimur árum eldri en hún (eldri = fyrirmynd)
*               Þau eiga náið samband strax og þau hittast – tala strax um fjölskyldur sínar.
*               
Hann segir henni frá ævintýrum og sögum og vekur hjá henni áhuga á því að lesa slíkt. Hann segir henni að í sögunum geti maður horfið inn í annan heim – Kemur saman við það að Steinþór hefur verið úti – þeir báðir vekja hjá henni áhuga á öðrum löndum og öðrum stöðum.
*               Það er greinilegt að Salka er hrifin af Arnaldi á einn eða annan hátt.
*               Hún hugsar dálítið um að vera fín fyrir framan Arnald.
*               Arnaldur er utanveltu eins og Salka – leikur sér aldrei með öðrum börnum.
Börnin koma svipað fram við Sölku og Arnald.
*               Arnaldur lítur niður á aðra krakka – hann þykist vita margt og veit margt – en Salka trúir öllu sem hann segir og þess vegna er hann fyrirmynd hennar.
*               
Arnaldur tók fullnaðarpróf og fermdist á undan Sölku Völku og var orðinn mikill maður strax.


*               Salka Valka er MJÖG ástfangin af Arnaldi ( kemur fram að hún grípur um brjóst sér og hugsar: “Ef hann bara vissi, ef hann bara vissi.”


*               Salka fer að tala um Ágústu og segir að Arnaldur sé með henni – Arnaldur svarar með því að tala illa um móður Sölku, kallar hana truntu og talar um nauðgunina hans Steina. Salka brestur í grát (sárnar greinilega að Arnaldur skuli tala svona – á ekki von á þessu) og rýkur í burtu upp í Mararbúð.
*               Síðar kemur faðir Arnalds í bæinn og þá fer Arnaldur líka.
Arnaldur kemur til Sölku til að kveðja hana, en hann er útlægur úr hjarta hennar – en hún fer með honum niður að sjónum og talar við hann.
*               
Hann gefur henni silfurnisti sem móðir hans átti!! Honum þykir svo vænt um Sölku að hann gefur henni erfðagrip móður hans – sem er látin.
Henni verður mikið niðri fyrir við gjöfina en segir bara ”Takk fyrir” og réttir honum höndina og fer svo í burtu.
*               Hann sendir henni svo bréf að utan úr Menntaskóla og spyr hana um ýmislegt. Henni verður mikið um að fá bréf. (Arnaldur sá fyrsti til að senda henni bréf)
*               Arnaldur kemur svo heim seinna og Salka verður hissa – hélt að hann hefði verið alfarinn út í heim.
*               
Arnaldur er kommúnisti og hefur áhrif á Sölku – Salka er fyrst á móti kommúnisma en breytir svo um skoðun (Arnaldur???)
*               Salka svaraði kommúnistaávarpi hans með því að segja að kommúnisminn sé draumarugl.
*               Salka segir að Arnaldur geti ekki platað hana lengur hún er fúl út í hann – hún er hætt að trúa sögunum hans og orðum hans.
*               
Hún lét einkatilfinningar sínar hlaupa með sig í gönur – Arnaldur glottir
Salka bjargar Arnaldi frá slagsmálum en snýst á móti sínum eigin mönnum við það. Hún er með kapítalismanum en Arnaldur með kommúnismanum. Samt bjargar Salka honum.
*               Arnaldur segist vera fullur af röksemdum heimsins – lítur niður á Sölku.
Arnaldur skipar verkfall – Sjómannafélagið má ekki vinna né enginn fyrir það. Kemur næstum til átaka en Sveinn formaður félagsins stoppar það.
Arnaldur ræður núna mörgu í þorpinu.
*               
Fólk gafst svo upp á verkfallinu – en Arnaldur hélt tilfinningaþrungna ræðu og fékk alla til að ganga í kröfugöngu til Bogesens til að krefjast hærri launa – virkaði ekki – allir mættu til vinnu daginn eftir.
Salka var fegin ósigri hans
Svör við spurningum / verkefnum

*               Arnaldur átti að hafa sofið hjá Guju – Salka afbrýðissöm.


*               Svo fór Arnaldur en kom aftur með hóp manna með sér. Kom til áfloga
Verkalýðsfélagið endurreist.
*               Arnaldur segir Sölku að faðir hennar var norskur stýrimaður (Sölku)
*               Salka er reið út í Arnald fyrir allt sem hann hefur gert þorpinu.
*               Arnaldur fer suður án þess að kveðja Sölku Völku.
*               Salka veit það aftur á móti og sendir honum hringinn sem Steinþór gaf henni.
*               Arnaldur kemur aftur – Stofnar kaupfélag.
*               Salka gistir á sama stað og Arnaldur þegar hún flytur úr Marabúð.
*               Salka gekk í kaupfélagið sem Arnaldur stofnaði.
*               Arnaldi finnst Salka einföld – öfundar hana af því að hafa svona einföld sjónarmið af lífinu – Sölku finnst hann líta niður á sig.
*               
Arnaldur kennir henni um hugsjónir og fleira.
Hann kennir henni ýmislegt um kommúnismann.
Sölku finnst hún ómenntuð og vera minni manneskja en Arnaldur.
*               
Arnaldur er fyrsta raunverulega ást Sölku – þau byrja saman og stunda mikið kynlíf. Jafnvel kyssast á almannafæri sem þótti hneyksli á þessum tíma.
*               
Arnaldur venur Sölku af ýmsum ósiðum.
*               Arnaldi finnst Salka ljót
Salka er með lítið sjálfsálit
*               
Arnaldur heldur fram hjá Sölku með Guju.
Hann fær pening hjá Sölku fyrir fóstureyðingu
Salka fréttir það – verður reið og sár – kennir sjálfri sér um það ??!!
*               Þau eiga saman gott samband og halda áfram að vera saman þrátt fyrir framhjáhaldið.
*               
Arnaldur fer og hjálpar túristum í nokkurn tíma – skrifar Sölku en hún saknar hans mikið.
Hann er breyttur þegar hann kemur til baka – Salka heldur að hann elski sig ekki lengur – þau hætta saman – hann fer til útlanda fyrir hennar pening – til að geta hitt stúlku í Ameríku sem hann var að leiðbeina Arnaldur segist munu sakna hennar.
*               Salka er mjög leið – fyrsta ástin (eina ástin) í lífi hennar er farin.


Ein nothæf síða hér til undirbúnings: http://www.ismennt.is/not/bjarnad/salka_valka/forsida.htm

Ég vona að Þetta geti nú hjálpað einhverjum, þar sem ég lennti í því að vera með kennara sem vildi ekki hjálpa neitt með yfirferð bókarinnar, heldur bara henda okkur í próf og ritgerðir.

Thor