Hér verður fjallað um mikilvægi þess að taka réttar ákvarðanir í námi, sem á þó einnig við í daglegu lífi. Gerðu það sem þér þykir skemmtilegt. 


Mörg okkar eru svo æst í að klára nám og drífa sig í að komast sem fyrst í draumadjobbið að þau gleyma því hvað það er mikilvægt að taka sér pásur af og til, til að íhuga hvort þau séu að gera það rétta. Og margir gleyma því hvað það er mikilvægt að gera það sem þeim finnst skemmtilegt og enda kannski í draumastarfi einhvers annars...Sem væri kannski svolítið leiðinlegt.

Sumir geta þetta alveg, þeim gengur vel að halda sig við efnið og njóta þess, -vita alveg hvert þau stefna og áður en þau vita af eru þau komin í vinnu sem þau elska og virkilega njóta sín. End of story!

Svo eru aðrir, svona eins og ég, sem einfaldlega eru komin með upp í kok af námi og vita ekkert hvert þeir stefna. Ég er að útskrifast úr menntaskóla og meira en helmininn af þeim tíma sem ég er búin að eyða þar hef ég verið við það að hætta. Fyrsta árið var svosem allt í lagi en ég uppgötvaði smátt og smátt að náttúrufræðibraut væri nú kannski ekki alveg fyrir mig. En mig langaði í lækninn, búið að langa það frá því að ég var krakki. Og þar sem ég er mjög þrjósk þá ákvað ég að ég skyldi nú bara klára þetta, sama hvað mér gekk illa í stærðfræði og efnafræði og eðlisfræði og líffræði... Mér fannst samt alveg gaman í tímum! En svo kom ég heim og ætlaði að læra heima og allt í einu skildi ég ekki neitt og kunni ekki neitt...Ég ætlaði mér samt að útskrifast af náttúrufræðibraut! Samt þótti mér ótrúlega gaman í félagsfræði, sálfræði, sögu og íslensku. Eiginlega bara miklu skemmtilegra heldur en í öllu hinu... Ég fór í sumarskóla og lærði og lærði og lærði fyrir lokapróf og jújú, náði þeim svosem... En kannski ekki með glæsibrag.. Ég tók til dæmis stærðfræði 403 þrisvar sinnum. Og efnafræði 103 tvisvar. Tvo mismunandi líffræðiáfanga tvisvar sinnum hvorn. Og núna er ég að útskrifast af náttúrufræðibraut eftir mikið púður, grát, vonbrigði og erfiðleika og þvílíkt mikla vinnu og ákveðni. Ég gat þetta alveg -á endanum (með smá hjálp frá eigin þrjósku og endalaust frábærum foreldrum). En ég hefði getað útskrifast á þremur árum þessvegna, bara ef ég hefði farið á þá braut sem ég vissi alltaf innst inni að væri fyrir mig -félagsfræði, og ekki verið að falla aftur og aftur. Það er hrikalega svekkjandi og erfitt fyrir sálarlífið að falla aftur í tilteknu fagi. 

Svo bætist ofan á að ég er í klassísku tónlistarnámi. Það þýðir að maður mætir þrisvar sinnum í viku í bóklega tíma, svo einu sinni í viku í einkatíma, og sinfóníuhljómsveitaræfingar ofan á þetta. Og samspilsæfingar... Og maður fær óskaplega lítið af þessu metið inn. Eiginlega bara fáránlega lítið miðað við vinnuna sem maður leggur í þetta, því svo er ekki nóg að mæta í tímana heldur þarf maður að æfa sig á hverjum degi! Ekki samt að það sé einhver kvöð.. Ég elska þetta! Ég elska að setjast niður og æfa mig í nokkra klukkutíma á dag... Vildi óska þess að mér hefði þótt jafn gaman að diffra, heilda og pæla í erfðafræði á sama hátt.

Það getur verið pínulítið flókið að skeyta þessu tvennu saman.


    Samfélagið í dag ætlast til þess af okkur unga fólkinu að við menntum okkur. Ef við viljum sæmilega vel borgaða vinnu, þá þurfum við menntun. Það er talið sjálfssagt að ungt fólk taki stúdentspróf eða sambærilegt iðnmenntunarpróf. Flestir sem klára stúdentspróf af bóklegri braut halda svo áfram í háskóla til að læra meira, fá sér mastersgráðu, bachelorgráðu eða jafnvel doktorsgráðu! Til þess að hvað...?

Jú, mikið rétt. Fá vel launað starf. En kannski ekki endilega starf sem fólk nýtur. 

Ég hef heyrt ótrúlega marga á mínum aldri segja "Jaá, mig langar rosa í [vel launað starf], það er víst svo vel borgað!". Þá hef ég stundum spurt : "Næs, ég vissi ekki að þú hefðir áhuga á [hinu tiltekna vel launaða starfi]?!" -"Nei já jú sko.. ég veit það ekki..."

    Ég tel að ef maður viti ekki alveg hvað mann langi að gera, þá ætti maður að kannski að taka sér frí, og hugsa sinn gang. 

Á laugardaginn útskrifast ég. Á mánudaginn byrja ég í sumarstarfinu mínu. Ég ætla til útlanda í sumar og ég ætla að spila á sellóið mitt. Svo ætla ég að sækja um á nokkrum stöðum og reyna að finna vinnu fyrir veturinn. Ég ætla að halda áfram að búa í kjallaranum hjá mömmu og pabba, og vonandi vinna. Ég ætla að klára tónlistarnámið mitt, því ég nýt þess og mér finnst það skemmtilegt. Svo uppgötvaði ég það að ég gæti jafnvel átt einhverja framtíð í starfi sem krefst þess af mér að kunna á hljóðfæri... Jafnvel fara út í kennslu. Þrátt fyrir sjúkan áhuga minn á læknisfræðinni þá veit ég að það er ekki leiðin fyrir mig. Ég neyði sjálfa mig grátandi í inflúensusprautur og get ekki hugsað mér að skoða það sem sólin sér ekki á öðru fólki. Mig langar ekki að geta ekki bjargað sjúklingi og sjá hann deyja.  

Í haust ætla ég ekki í háskóla, svo ég eyði nú ekki tíma, peningum og orku í eitthvað sem ég er ekki viss um að mér líki. Ég hef ákveðið að fara ekki í frekara háskólanám fyrr en ég er viss um hvað mig langar að læra, jafnvel þó það komi mér að litlu gagni í framtíðinni, þó það sé auðvitað praktískt að geta nýtt menntunina í eitthvað seinna meir. 

    Ég sé eftir því að hafa ekki skipt um braut í menntaskóla eða tekið mér pásu í eina önn en ég hef ákveðið að einfaldlega læra af reynslunni. Framvegis ætla ég ekki að gera eitthvað sem mér finnst að ég þurfi að gera. Þegar ég ákveð að fara í frekara nám, hvort sem það er bóklegt eða tónlistartengt, þá ætla ég að passa mig á því að um leið og ég fer að finna fyrir námsleiða (sem ég er búin að þjást af síðastliðin þrjú ár) þá ætla ég að hlusta strax á innsæið og slaka á tauminum. 

Það má þó ekki gleyma því að nám er enginn dans á rósum þó manni finnist það skemmtilegt, ég veit það af eigin raun í gegnum tónlistina. Það getur verið algert helvíti að æfa tónstiga, en ég geri það samt. Hljómfræði er ekki það skemmtilegasta sem ég geri en hún er samt hluti af þessu námi, svo ég læri hana bara. Mér finnst það á endanum alltaf erfiðisins virði. 

Það eina sem ég sé jákvætt við að hafa neytt mig í gegnum stærðfræðina  er það að ég þarf ekki að taka hana aftur, aldrei aftur og ég fæ að útskrifast út af því. En ég er miklu stoltari af allri sögunni sem ég tók og íslenskunni. Mér finnst það erfiðisins virði. 

Láttu vinnuna sem þú leggur í námið vera þess virði, þín vegna. 

Njótið sumarsins.
Munurinn á snilld og heimsku er sá að snilldin er takmörkuð.