Söngleikurinn "Hárið" sýndur á Akureyri Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýnir hinn alkunna og viðamikla söngleik hippaáranna, HÁRIÐ, í Samkomuhúsinu á Akureyri föstudaginn 12. apríl næstkomandi. Leikstjóri er Hrafnhildur Hafberg og tónlistarstjóri er Björn Þórarinsson.

Alls taka um 60 nemendur þátt í uppfærslunni á HÁRINU en leikendur og söngvarar eru rúmlega 20 talsins og sjö manna hljómsveit leikur með á sviðinu. Í aðalhlutverkum eru Ævar Þór Benediktsson (Berger), Guðrún Fönn Tómasdóttir (Sheila), Sindri Gunnar Ólafsson (Voffi), Hildur Halldórsdóttir (Jeanie), Eiríkur Valdimarsson (Hud), Jóhanna Vala Höskuldsdóttir (Dionne) og Ingimar Björn Davíðsson (Claude).

Sjö manna stjórn LMA undir forystu formanns, Arnórs Brynjars Þorsteinssonar, hefur annast það mikla verk að koma þessari sýningu á koppinn, en æfingar leikara, söngvara og hljóðfæraleikara hófust snemma á haustönninni. Sýningar eru í Samkomuhúsinu í samvinnu við Leikfélag Akureyrar, sem veitir ýmsa tæknilega aðstoð, en vinna við tækni, svið, búninga og þess háttar er að öðru leyti í höndum nemenda.

Ýmislegt er gert til að kynna sýninguna á HÁRINU, og meðal annars mun hópurinn verða með kynningardagskrá og flytja nokkur brot úr HÁRINU á Glerártorgi núna laugardaginn 6. apríl..

Fyrstu fimm sýningarnar á HÁRINU verða sem hér segir:
Frumsýning föstudaginn 12. apríl klukkan 20.00
2. sýning laugardaginn 13. apríl klukkan 20.00
3. sýning - miðnætursýning - laugardaginn 13. apríl klukkan 23.30
4. sýning - síðdegissýning - sunnudaginn 14. apríl klukkan 17.00
5. sýning sunnudaginn 14. apríl klukkan 20.00.

Miðapantanir eru í síma 462 1400 milli klukkan 17 og 19 svo og í síma 868 5032.