Ég hef séð nokkra þræði hér á huga með spurningum tengdum því að stytta sér leið að stúdentsprófi. Þar sem ég hef sjálf reynslu af því, ætla ég að skrifa aðeins um það og mínar pælingar gagnvart því.

Vorið sem ég kláraði 9. bekk fengum við níundubekkingar kynningu á nýrri námsleið í MA. Þetta var nýjung þá og við fengum að vita af þessu nokkrum vikum áður en umsóknarfresturinn rann út. Í gamla bekknum mínum voru ekki margir sem áttu möguleika á að sækja um á þessa braut, sem heitir hraðlína, því það þurfti að hafa lágmarksmeðaleinkunn til að geta sótt um.

Þegar ég heyrði af þessu fór ég í svakalegt valkvíðakast. Ég var í góðum bekk, átti ágæta félaga þar en átti þó fáa vini, vinaböndin höfðu slaknað síðasta árið eða tvö. Samt var ég mjög ánægð með bekkinn og skólann almennt. Tímdi því varla að fara. En ég ákvað samt að sækja um, ég gæti þá alltaf hætt við áður en ég þyrfti að staðfesta skólavist.
Svo ég sótti um og svo kláraði ég 9. bekk án þess að vita hvort ég hefði komist inn. Um sumarið fékk ég svo svar þess efnis að ég hefði komist inn og eftir rosalegan valkvíða ákvað ég að slá til.

Þessi braut, hraðlína, tekur inn krakka beint úr 9. bekk. Hópurinn er fámennur, við vorum 17. Við fengum voða spes meðferð, bestu kennararnir valdir fyrir okkur, við fengum skemmtilegri verkefni en hinir 1.bekkirnir o.s.frv. Það var gaman en samt fór það alltaf í taugarnar á mér að fá svona sérmeðferð, mér fannst það gera mann að hálfgerðum aumingja. Þetta var samt skemmtilegur vetur, allt nýtt fyrir manni og ég var í litlum bekk svo maður þekkti alla ágætlega. Ég kláraði þennan 1.bekk og eftir það var bekknum skipt upp og við fórum öll í nýja bekki.

Þar sem MA er bekkjakerfisskóli, eru yfirleitt allir í bekknum jafn gamlir. Einn og einn fallisti eða fyrrverandi skiptinemi er árinu eldri en hinir en annars eru bekkjarfélagarnir yfirleitt allir jafnaldrar. Ég gerði þau mistök að halda að ég væri mikið yngri en allir ’89 bekkjarfélagar mínir. Komst svo t.d. að því í fyrrasumar, í tengslum við útskriftina, að einn góður vinur minn í bekknum hefði verið að fatta það þá að ég væri árinu yngri. Semsagt, tóm minnimáttarkennd í mér. Þessi minnimáttarkennd, blönduð saman við góðan skammt af feimni, gerði það að verkum að fyrstu ár framhaldsskólans voru allt annað en skemmtileg. Ég var ein úti í horni, vel falin á bakvið tölvuna mína.

Svo loksins þegar ég fór að þora að tala við fólk og kynnast krökkunum, þá breyttist allt. Skólinn varð svo skemmtilegur, frímínútur og matarhlé hættu að vera vandræðaleg og hópverkefni hættu að vera martraðir. Síðasta árið í MA var frábært og ég sé svo eftir því að hafa eytt 3 árum í feimni og einmanaleika.

Í fyrravor útskrifaðist ég svo, ári fyrr en jafnaldrar mínir. Margir hafa spurt mig hvers vegna ég hafi verið að þessu, hvað mér hafi legið á. Ég var ekki að flýta mér, það var ekki ástæðan fyrir því að fara fyrr í framhaldsskóla. Ég var búin að vera í grunnskóla í 9 ár án þess að fá verkefni við mitt hæfi. Ég var yfirleitt alltaf langt á undan bekkjarsystkinum mínum og þar sem ég hef mjög gaman af áskorunum, var námið sjálft ekki mjög skemmtilegt í grunnskóla.
Núna er ég á fyrsta ári í háskóla og félagar mínir úr grunnskóla eru að útskrifast í vor, þeir sem enn eru í námi. Í dag er ég mjög ánægð með það að hafa stytt mér leið í gegnum stúdentinn og sé alls ekki eftir því.

Að fara fyrr í framhaldsskóla er eitthvað sem ég get mælt með. Það er bara eitt sem þarf að passa sig á, það er að einangra sig ekki. Námið er eitthvað sem var í raun engin áskorun, þeir sem komast í svona hópa eru ekki að fara að eiga í vandræðum með námið. Félagslífið er meiri áskorun og það sem þarf að passa sig að gera er nákvæmlega andstæðan við það sem ég gerði. Eitt ár skiptir engu á þessum aldri, það fann enginn fyrir neinum aldursmuni nema ég sjálf.

Á fyrstu árunum í MA hugsaði ég oft með mér “hvað er eiginlega að fólki, það segja allir að framhaldsskólaárin séu besti tími lífsins…þau sökka!” En ég komst að því að þau geta svo sannarlega verið frábær :) Maður þaf bara að ákveða það og gera þau skemmtileg! Þrátt fyrir leiðinleg fyrstu ár þá verð ég að segja að ég sakna nú gamla skólans. Þetta voru góð ár og góð ákvörðun að byrja árinu fyrr :)

Vona að þetta hafi hjálpað einhverjum sem á í álíka valkvíða og ég glímdi við fyrir 5 árum :P
Hello, is there anybody in there?