Hugleiðingar mínar um framhaldsskólaárin Ég eins og þó nokkrir „Hugarar“ hafa stigið skref í framhaldsskóla og sumir jafnvel alla leið í átt að stúdentsprófinu. Ég sjálfur lauk stúdentsprófi vorið 2005, þá 19 ára gamall, enn ungur að árum, en reynslunni ríkari eftir að hafa tekið þátt í félagsstörfum innan skólans.

Árið 2002 var ég 16 ára, semsé á svipuðum aldri og margir notendur /skoli eru í dag. Ég var mjög óákveðinn varðandi skóla og ekki laust við smá kvíðahnút líka. Ég var uppalinn í litlu fiskiþorpi austur á landi, var mikið strítt og á tímabili lagður í einelti, og að því leyti hlakkaði ég mikið til þess að komast í áfangaskóla þar sem ég gæti einfaldlega horfið í mannfjöldann.

Til þess að hefja nám í framhaldsskóla þurfti ég að velja skóla í öðru sveitarfélagi, því ekki var framhaldsskóli í nánasta nágrenni við heimabyggðina mína. Ég fór í framhaldsskóla með heimavist; það var ómetanleg reynsla að umgangast hundruð annarra framhaldsskólanema allan sólarhringinn liggur við, frá morgni til kvölds, það efldi félagsvitundina manns, en gat stundum komið niður á heimanáminu líka ef maður passaði sig ekki.

Þegar ég hóf nám í skólanum einsetti ég mér það markmið að halda mig fyrst og allra fremst að náminu, en strax í október breyttist það þegar ég tók þátt í inntökuprófi Gettu betur, og við tók 3 vetra skemmtilegur félagsskapur þar sem kapp og „nördaskapur“ fór mjög vel saman.

Gettu betur var fráleitt það eina sem ég tók þátt í, ég kom að því að vera á bak við tjöldin við gerð fyrstu kvikmyndar sem myndbandaklúbbur skólans framleiddi fyrr og síðar, sem endaði á hvíta tjaldinu og á stuttmyndahátíð í Reykjavík.

Seinni helminginn af tímanum mínum í skólanum tók ég eins og mjög margir nemendur þátt í leikfélagi skólans, sem er líklega dýrmætasta reynsla sem að nemendum getur hlotnast, að standa á sviði og þylja út úr sér réttu orðin á réttum stað á réttum tíma án þess að kikna undan álaginu, slíkt kemur vel að notum síðar á lífsleiðinni, sér í lagi þegar komið er í háskólann með öllum sýnum fyrirlestrum og kynningum.

Þrátt fyrir að hafa farið út af upphaflegri áætlun að hafa aðeins ætlað að haldast að náminu fyrst og fremst, þá var þátttakan í félagsstörfum sennilega það markverðasta sem ég gerði sérstaklega á framhaldsskólaárunum. Í framhaldsskólanum kynntist ég mörgum góðum krökkum sem enn í dag eru góðir kunningjar mínir og sumir jafnvel bestu vinir mínir.

Eitt sé ég þó alla tíð eftir að hafa gert. Ég tók mikið nám á 2. vetrinum mínum í menntaskóla, rúml. 65 einingar, sem að oft á tíðum fór afar illa saman við námið en hafðist þó fínt, og áður en ég vissi af þá átti ég innan við 18 einingar eftir þegar komið var á 6. önnina í framhaldsskóla. Sú ákvörðun sem ég tók þá var að klára stúdentinn um vorið (smáræðis námsleiði var farinn að gera vart við sig), á 3 árum. Á þeim 5 árum sem eru að verða liðin frá því ég setti upp stúdentshúfuna hef ég alla tíð séð eftir því að hafa ekki verið þennan venjulega tíma sem fólk er vanalega í skóla, þ.e. 4 ár, því ég hefði gjarnan viljað taka meiri þátt í félagslífinu og þroska mig enn betur á þann hátt. Heilræði mitt til þeirra sem eru á báðum áttum um það hvort þeir eigi að klára námið á styttri tíma á kostnað félagslífs, eða á lengri tíma á kostnað þess að klára fyrr, þá mæli ég fremur með seinni kostinum, sé maður ekki búinn að harðákveða sig varðandi háskólanám í framhaldinu.

Í framhaldsskóla eru margir óákveðnir um námið sem þeir stunda og gerist það hjá mjög mörgum að þeir skipti um braut eða hreinlega hætti í skóla. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að fólk geti verið 100% visst um að það hafi tekið hárrétta ákvörðun varðandi námið sem það valdi sér eftir grunnskóla, í raun kemur mjög á óvart ef að námið sem maður valdi sér sé nákvæmlega í takt við það sem maður bjóst við í upphafi. En það er líka ástæða fyrir því af hverju framhaldsskóli er ekki skylda, fólk getur skipt um braut til þess að finna sína réttu „námshillu“, eða hætt ef að það hefur yfir höfuð engan áhuga á neinu sem er í boði, eða á skóla yfir höfuð. Sjálfsagt er mismikill þrýstingur frá kennurum manns í grunnskóla og eins foreldrum um hvað maður á að velja, en þegar öllu er á botninn hvolft er þetta í manns eigin höndum og maður stendur og fellur með sínum ákvörðunum, en umfram allt er öll reynsla og þekking dýrmæt, hversu stutt sem hún varir og sama hversu vel hún heppnaðist, þá hugsar maður sinn gang og veltir fyrir sér hvað taka eigi sér næst fyrir hendur.

Í mörgum grunnskólum leggja sumir grunnskólakennarar mikla pressu á það að nemendur klári bóknám, klári háskóla og verði jafnvel helst doktorar í einhverju faginu. Ég tel í mörgum tilfellum að grunnskólakennarar gleymi algjörlega að fræða nemendur um hinar greinarnar sem máli skipta í íslensku samfélagi: iðn- og starfsnámið (amk er það reynsla mín og margra annarra sem voru samferða mér í menntaskóla). Þó svo að margir grunnskólakennarar, bóknámskennarar í framhaldsskólum og jafnvel foreldrar horfi hornauga á það að vel gefnir nemendur fari í iðnnám eftir grunnskóla, þá er það hins vegar staðreynd að vel gefnir og verklagnir nemendur blómstra alls ekkert síður í iðnnáminu heldur en að eyða öllum tímanum bak við bókina, í raun blómstra margir við það að sjá vinnuna manns lifna við fyrir framan augun á manni og að maður sjái árangur erfiðisins jafnóðum. Þrátt fyrir að niðursláttur sé í dag vegna kreppunnar í mörgum iðngreinum þá er þrátt fyrir það stöðug endurnýjun í þessum greinum, og fyrr eða síðar mun aukast eftirspurn eftir iðn- og starfsmenntuðu fólki, og er þörf fyrir gott fólk þar. Þið sem eruð á báðum áttum varðandi framhaldsskólanám, ef ykkur langar t.d. fremur að gera eitthvað í höndunum og kannski teikna og reikna með af og til, heldur en að eyða öllum deginum kannski í bókum og sjá ekki alltaf tilganginn með því sem maður er að læra, þá er alls ekkert síðra að skoða iðn- og starfsnám heldur en eingöngu stúdentsprófið. Einnig er alveg til í dæminu að fólk (eins og ég er að gera núna t.d.) klári stúdentsprófið frá, og skelli sér síðan í iðnnám, búið með allar almennu greinarnar og geta einbeitt sér þar að verklegu greinunum allan tímann. Ykkar er valið!

Fyrst og fremst óska ég þó handa þeim nemendum sem eru að fara að hefja nám í framhaldsskóla, og eða eru þegar í framhaldsskóla, að huga að því að það er fleira í framhaldsskólum en eingöngu bækurnar, það er öllum hollt að rækta félagshliðina á sér með einhverjum hætti (leiklist, kór, Gettu betur, Morfís, nemendafélagsstörf, tónlist, eða eitthvað í þá áttina), því að eftir þann tíma er ekki endilega svo auðvelt að hefjast handa við það allt í einu, þó svo til séu undantekningar frá því. Til að mynda er mjög erfitt að fara að byrja allt í einu á því að rækta félagshliðina sína þegar komið er í háskóla, þar sem að maður er á kafi í náminu nánast alla vikuna, og kannski helgarnar líka.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að ná þokkalegum og helst sem bestum einkunnum upp á framhaldið að gera, ég vil alls ekki draga úr því, en ég þori að fullyrða það að rækta félagshliðina er alls ekkert síðra heldur en að ná þokkalegum einkunnum, þar sem að sú reynsla fylgir manni langt fram í lífið, og hjálpar jafnvel feimnustu nemendum að blómstra við réttar aðstæður. Ef ég væri spurður í dag hver væru mikilvægustu árin til að þroska félagshliðina á sjálfum sér, þá eru það árin sem maður er í framhaldsskóla.