Opið bréf til menntamálaráðherra Í framhaldi af þessum þræði hérna ákváðum við Tyggigummi í sameiningu að skrifa bréf sem yrði svo sent á alla helstu aðila í menntamálum á Íslandi.
Niðurstaðan hljómar einhvernveginn svona.


Opið bréf til menntamálaráðherra

Með breytingum á innritunarreglum nýnema í framhaldsskóla virðist augljóst að Menntamálaráðuneytinu er alveg sama um hag og vilja nemenda sem eru að ljúka grunnskólaprófi. Breytingarnar hafa í hnotskurn aðeins neikvæð áhrif, jafnt fyrir nemendur sem skólana sjálfa. Það að gera framhaldskólana aftur að hverfisskólum er gríðarleg afturför í skólamálum á Íslandi: forgangur íbúa hverfanna að vinsælum skólum mun auka á brottfall, hóparnir sem koma úr grunnskólunum haldast saman og enginn kynnist nýju fólki. Nemendum af landsbyggðinni hefur verið gert nánast ómögulegt að sækja nám fyrir sunnan.

Samræmdu prófin voru kvöl og pína – en þau voru algerlega nauðsynleg. Ekkert samræmi er í dag á einkunnagjöf skólanna: Einkunnin 7 í einum skóla gæti þýtt 9 í þeim næsta. Það er óskiljanlegt hvers vegna talið var nauðsynlegt að fikta í þessu, kerfið gekk algerlega upp eins og það var. Hvaða fullorðni einstaklingur sem er ætti að sjá það að samræmi í einkunnagjöfum er nauðsynlegt. Það er ótrúlegt að hægt sé að afnema samræmdu prófin sisvona og gefa þar með hverjum og einum grunnskóla fullkomið vald yfir framtíð nemenda sinna. Það er augljóst að skólar sem ekki hafa samræmt einkunnakerfi sín á milli og ólíka meðaleinkunn í ofanálag hafa ekki forsendur til að meta nemendur sína inn í framhaldsskólana ef engin eru prófin á landsvísu.

Samræmdu könnunarprófin sem framkvæmd voru seinasta haust voru eitt heljarinnar klúður frá upphafi til enda. Ekki er nóg með að skólarnir hafi ekki fengið neinar upplýsingar um hvaða atriði myndu vega mest á prófinu heldur voru nemendur látnir taka prófin nánast um leið og þeir komu úr sumarfríi. Algjörlega óundirbúnir. Skólarnir lögðu mismikla áherslu á að undirbúa nemendur fyrir könnunarprófin og nú er rætt um að nemendur geti valið um hvort þeir sýni niðurstöður sínar úr þeim til að styrkja stöðu sína. Engan veginn er loku fyrir það skotið að metnaðarfyllstu og hæfustu nemendurnir hafi stundað nám í skólum sem ekki tóku prófin jafn alvarlega og aðrir skólar – og bar enda ekki skylda til.

Við vitum að tíminn er naumur – en það er mögulegt að taka upp samræmd lokapróf núna fyrir 1994 árganginn sem er að útskrifast. Ekki gera þessi mistök!

Höfundar eru tveir drengir sem munu útskrifast úr grunnskóla í vor.


Tyggigummi
Pondus

Ath! Hugi ruglaði öllum fínu greinaskilunum sem prýddu bréfið og að sjálfsögðu verða notenda nöfnin okkar ekki með.
If writers wrote as carelessly as some people talk, then adhasdh asdglaseuyt[bn[ pasdlgkhasdfasdf.