Ég ætla að skella hérna ritgerð um stóra samsærið varðandi tunglferðina sem ég gerði fyrir skólann. Vinsamlegast kommentið :D:D

Tunglferðin á jörðinni

Eitt lítið skref fyrir manninn. Eitt stórt stökk fyrir mannkynið

Eftir seinni heimsstyrjöldina brutust út miklar deilur og átök milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og stóðu þær yfir alveg þangað til Sovétríkin liðu undir lok, oft var talað um kalda stríðið. Eitt af því sem stórveldin kepptust um í kalda stríðinu var geimkapphlaupið, þau kepptust um hvor yrði á undan út í geim með mannað geimfar. Sovétríkin unnu það kapphlaup árið 1961 með því að senda Yuri Gagarín, fyrsta manninn út fyrir ósonlagið. En geimkapphlaupið var langt frá því að vera búið því stuttu eftir að Sovétmenn sendu Gagarín út í geim lofaði John F. Kennedy, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna að senda mann til tunglsins fyrir lok sjöunda áratugsins. Mönnum fannst það full bjartsýnt en eftir níu ár og rúmlega 20 milljarða dollara var Apólló 11 skotið á loft þann 16.júlí árið 1969 frá Kennedy geimferðarmiðstöðinni með þrjá geimfara innanborðs. Þann 20. Júlí stigu svo þeir Neil Armstrong og Edwin „Buzz“ Aldrin fyrstir manna á tunglið. Á næstu árum eftir, eða til ársins 1972 sendu Bandaríkjamenn fimm geimför til viðbótar til tunglsins en enginn hefur stigið á tunglið síðan þá. En hefur maðurinn stigið fæti á tunglið? Var þetta kannski bara allt eitt samsæri Bandaríkjamanna til að sigra geimkapphlaupið?

Efasemdamenn og samsærissinnar halda því statt og stöðugt fram að tunglferðin hafi verið fölsuð af NASA. Þeir segja að tunglferðin hafi verið allt eitt samsæri til þess að halda andliti Bandaríkjamanna í kalda stríðinu. Sumir segja jafnvel að tunglferðin hafi verið tekin upp í myndveri á Svæði 51 (Area 51) í Nevada. Þegar talað er um tunglsamsærið dettur manni fyrst í hug myndirnar sem teknar voru á tunglinu, engar stjörnur, fáninn blaktir, ósamsíðir skuggar o.s.f.v. Hér verður farið yfir helstu samsæriskenningar sem vaknað hafa upp um tunglferðina.
Samsæriskenningar kunna að vakna þegar minnst er á myndir sem teknar voru á tunglinu, á flestum þeirra sjást engar stjörnur og segja samsærissinnar það vera skýrt dæmi þess að tungllendingin hafi verið lygi. En einföld skýring er á stjörnulausum himninum eins og stendur í grein í Lifandi vísindi „Þær stjörnur (…) sjást ekki vegna þess að myndirnar eru teknar með miklum lokunarhraða.“ Bæði sólin og jörðin lýsa upp yfirborð tunglsins og stjörnurnar eru ekki nógu ljóssterkar til að sjást. Þannig ef samsvarandi mynd hefði verið tekin á jörðu niðri hefðu heldur engar stjörnur sést.

Önnur samsæriskenning fjallar um það að hlutir á sumum ljósmyndum sem teknar voru á tunglinu hafa ósamsíða skugga (snúa ekki eins). Það á að þýða að myndirnar séu teknar í myndveri, en ekki á tunglinu, því eins og allir vita er bara einn ljósgjafi á tunglinu þ.e.a.s sólin. Geimfararnir virðast líka alltaf vera baðaðir í sólskini þó þeir standi í skugga. En báðar þessar kenningar er auðveldlega hægt að hrekja eins og sjá má í þessari tilvitnun úr Lifandi vísindum:
Skuggar á mynd liggja ekki samhliða ef sól er lágt á lofti og skín á hluti í mismunandi fjarlægð frá myndavélinni. Og hefðu verið fleiri en einn ljósgjafi „í myndverinu“ hefðu líka verið fleiri en einn skuggi af hverjum hlut! Ástæða þess að geimfararnir virðast alltaf baðaðir í sólskini, líka þegar þeir standa í skugga geimfarsins, er sú að ljóst rykið á yfirborði tunglsins endurkastar miklu af sólarljósinu á geimfarana. 

Eins og í tilvitnuni stendur, gæti þetta auðveldlega verið á tunglinu, en ekki í myndveri.

En hver tók myndina af Neil Armstrong þegar hann tók fyrstu skrefin á tunglinu? Ljósmyndarar í myndveri segja efasemdamenn, en ekki þarf sérstaklega greinda manneskju til þess að vita að auðveldlega væri hægt að festa myndavél utan á tunglferjuna, sem var einmitt gert.

Á einum fæti tunglferjunnar var myndavél sem beint var að stiganum þar sem geimfararnir gengu út og tóku fyrstu skrefin á tunglinu. Menn hjá NASA vissu að sú stund yrði ein sú merkasta í sögu mannkynsins og eitthvað sem allir vildu sjá. Þeir afréðu því að festa myndavél við fót geimferjunnar og ná þannig að mynda fyrstu skrefin á tunglinu. 

NASA vildu að almenningur gæti séð þennan merka atburð, ekki hefði verið skemmtilegt fyrir heiminn að hlusta á geimfarana lenda, því var myndavélinni komið upp á tunglferjuna.

Sumir halda því jafnvel fram að ferð til tunglsins hefði ekki verið tæknilega geranleg á þeim tíma. Þeir segja að eldflaugin hefði ekki nægilegt eldsneyti til að komast til tunglsins og vísa til útreikninga Von Braun sem var einn helsti verkfræðingurinn á bakvið Satúrnus eldflaugarnar sem komu Bandaríkjamönnum til tunglsins. En í þeim var sagt að eldflaug þyrfti að vera 800.000 tonn til að komast til tunglsins en Satúrnus var í raun 3.000 tonn. Þetta reyndist vera gömul skýrsla og algjörlega marklaus og hafa vísindamenn NASA ritskoðað þetta burt úr bókum.

Þar að auki telja sumir að ekki hefði verið fræðilegur möguleiki að lenda tunglferjunni á tunglinu. Þannig var að tunglferjan hafði verið svo illa hönnuð að erfitt var að stýra henni, því á æfingu á tunglferjunni rúmu ári fyrir tungllendinguna hafði Neil Armstrong misst stjórn á ferjunni og rétt náð að skjóta sér út áður en hún brotlenti til jarðar. Þetta er léleg kenning fyrir því að maðurinn hafi ekki stigið á tunglið því margoft var búið að gera tilraunir og æfingar á henni og var þetta eina æfingin sem eitthvað fór úrskeiðis.

Samsærissinnar benda einnig á það að geislun utan úr geimnum hefði auðveldlega getað drepið tunglfarana. Þá benda þeir aðallega á Van Allen-beltin sem eru tvö og liggja umhverfis jörðina, annað er í 2.000 – 7.000 km hæð og hitt er í 15.000 – 20.000 km hæð. Af þeim stafar mjög sterk geislun og geta verið hættuleg fyrir menn en það á þó aðeins við þegar mikil virkni er í sólinni t.d. sólgos. Þegar tunglferðirnar voru farnar var virkni sólarinnar í lágmarki og því engin alvarleg hætta á ferð en þó vissulega var allur vari á og geimfararnir klæddir í mörg lög af vörnum.

Eins og sjá má á myndum sem tunglfararnir tóku á tunglinu myndaðist enginn gígur fyrir neðan tunglferjuna, en samsærissinnar halda því fram að risastór gígur ætti að hafa myndast þegar tunglferjan lenti. Efsta lag tunglsins er duft og þá ætti ekki að þurfa mikið til að gígur myndist. En rauninn er önnur eins og í grein segir „Á tunglinu er ekkert loft sem dreifir rykinu og eina dreifingin átti sér stað vegna þrýstings frá gasinu í eldflaug tunglferjunnar sem var ekki ýkja mikill.“ En mestallt það ryk sem þyrlaðist upp settist svo aftur þar sem tunglferjan lenti.

Þá er þekktasta samsæriskenning efasemdasinna eflaust sú að fáninn sýnist blakta á tunglinu. Vissulega er ekkert andrúmsloft á tunglinu og því ætti fáninn ekki að blakta, en ef horft er á myndband frá þessum atburði sést greinilega að fáninn blaktir ekki heldur sveiflast til líkt og pendúll. Þetta stafar af því að geimfararnir voru nýbúnir að stinga honum niður í jarðveginn á tunglinu og eftir að þeir slepptu honum sveiflaðist fáninn nokkra stund eftir á en stöðvaðist síðan. Einnig virðist fáninn blakta á myndum en í raun þá strekktu geimfararnir, sem létu fánann upp, ekki nægilega mikið svo hann virðist blakta, en er í raun bara krumpaður og krumpurnar fóru seint úr því það var ekkert andrúmsloft þar.

En af hverju ættu NASA að hafa sviðsett tungllendinguna ? Til þess að halda andliti Bandaríkjanna í Kalda stríðinu segja sumir, aðrir segja að ómögulegt hefði verið að komast til tunglsins fyrir lok áratugsins og vildu Bandaríkjamenn ekki viðurkenna það. En sterkasta sönnunin fyrir því að maðurinn hafi stigið fæti á tunglið eru eflaust þau hundruðu kíló af grjóti og jarðvegi sem tunglfararnir komu með frá Apólló leiðangrinum.
Ef ekki hefði verið fyrir kalda stríðið er ekki víst hvort maðurinn hefði verið búinn að stíga á tunglið enn í dag eða jafnvel fara út í geim yfir höfuð. Það má þá segja að ákveðin þróun hafi orðið í kalda stríðinu sem geisaði á seinni hluta 20. aldar. En þrátt fyrir allar sannanir um að maðurinn hafi stigið á tunglið verður víst aldrei hægt að sannfæra samsærissinna og efasemdamenn, þrátt fyrir að allar samsæriskenningar sem menn hafa þróað í gegnum tíðina eigi sér einfaldar skýringar og allar þær sannanir sem eru fyrir því að maðurinn hafi farið til tunglsins.

Ég læt þetta hér því þetta á alls ekkert heima inn á geimvísindi…
Man United, Flight of the Conchords, Family guy