Rafiðngreinar Hér á eftir ætla ég að stikla á stóru um nám í rafiðnaðargreinum á Íslandi.

Yfirlit:
• Grunnbraut rafiðna
• Rafvirkjun
• Rafvélavirkjun
• Rafveituvirkjun
• Rafeindavirkjun
• Símsmíði
• Kvikmyndasýningarstjórnun
• Meistaranám
• Rafiðnfræði

Í umfjöllun minni tek ég mið af námskránni í rafiðnaðargreinum sem kom út árið 2006 með þeim breytingum sem hafa orðið síðar.

—————————————–

Grunnbraut rafiðna

Þeir skólar sem að bjóða upp á grunnbraut rafiðna í skólum eru eftirfarandi:
• Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
• Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Sauðárkróki
• Fjölbrautaskóli Suðurlands, Selfossi
• Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Reykjanesbæ
• Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi
• Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum
• Iðnskólinn í Hafnarfirði
• Raftækniskóli Tækniskólans
• Verkmenntaskóli Austurlands, Neskaupstað
• Verkmenntaskólinn á Akureyri

Grunnbraut rafiðna er almennt skipulögð sem 80 eininga námbraut og tekur vanalega um 4 annir að ljúka henni. Hún samanstendur af 19 ein. í bóknámsfögum (ÍSL, STÆ, ENS, DAN, LKN), 4 ein. í íþróttum, 1 ein. í skyndihjálp og 56 ein. í rafiðnaðargreinum.

Þær rafiðnaðargreinar sem kenndar eru á grunnbrautinni eru:
Rafeindatækni og mælingar (RTM)
Raflagnir (RAL)
Rafmagnsfræði og mælingar (RAM)
Stýringar og rökrásir (STR)
Tölvur og nettækni (TNT)
Verktækni grunnnáms rafiðna (VGR)

Allar greinarnar eru kenndar á öllum 4 önnunum (að undanskyldri rafeindatækninni, sem hefst á annarri önn). Einingarnar í hverjum áfanga eru breytilegar á milli skóla eftir áherslum, en yfirleitt eru þó áfangarnir 2-3 einingar.
Í sumum skólum (t.a.m. VMA) hefur logsuða og málmsmíði verið felld inn í VGR, en nokkrir aðrir skólar bjóða upp á séráfanga í vali í málmsmíði rafiðna.

En þrátt fyrir að grunnbrautin sé skipulögð sem 4 anna námsbraut er þó einn skóli sem svarað hefur kalli þeirra sem lokið hafa stúdentsprófi og vilja frekar klára grunnnámið á skemmri tíma í stað þess að vera í 12-15 ein., en það er Tækniskólinn, sem hefur boðið upp á Grunnbraut rafiðna – hraðferð, sem er eingöngu samansett af verknámsáföngum, skipulögð sem 2 anna braut og eru þá teknar 28-30 ein. á hvorri önn. Áfangarnir á þeirri braut eru vanalega 4-6 eininga áfangar, t.d. er RAM106 á fyrri önninni í raun RAM103 og RAM203 á 1. og 2. önn á venjulegri grunnbraut rafiðna.

Grunnbraut rafiðna veitir eins og áðan var sagt aðgang að fjölbreyttu sérnámi í rafiðnaðargreinum, sem ég ætla núna að fjalla um eitt af öðru.

Rafvirkjun

Rafvirkjun er sennilega fjölmennasta greinin innan rafiðnaðargreinanna, til aðgreina þá betur frá hinum má segja að þetta sé hinn týpíski húsarafvirki, þrátt fyrir að þeir sinni mjög fjölbreyttum störfum innan rafiðnaðargeirans.

Nám í rafvirkjun er skipulagt sem 4 anna nám til sveinsprófs eftir grunnbraut, og er hægt að fara tvær leiðir til að ljúka henni:
RK8 (verknámsleið) er 60 ein. fullt 3 anna nám í skóla ásamt 24 vikna starfsþjálfun.
RK9 (samningsleið) er 35 ein. nám í skóla, ýmist tekið sem fullt nám á 2 önnum eða hlutanám á 3 önnum, ásamt 48 vikna námssamningi hjá rafvirkjameistara.

Námsgreinar í sérnámi í rafvirkjun (fyrir utan íþróttir):
• Forritanlegar raflagnir
• Lýsingartækni
• Raflagnateikning
• Raflagnir (eingöngu skylda fyrir þá sem eru á RK8)
• Rafmagnsfræði og mælingar
• Rafvélar (eingöngu skylda fyrir þá sem eru á RK8)
• Reglugerðir
• Smáspennuvirki
• Stýringar og rökrásir
• Valið lokaverkefni (eingöngu skylda fyrir þá sem eru á RK8)

Sérnámið í rafvirkjun er kennt í eftirfarandi skólum, í sviga aftan við sést hvaða leiðir hægt er að taka:
• Fjölbrautaskólinn í Breiðholti (báðar leiðir)
• Fjölbreytaskóli Suðurnesja, Reykjanesbæ (RK8)
• Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi (báðar leiðir)
• Iðnskólinn í Hafnarfirði (RK9)
• Raftækniskóli Tækniskólans (báðar leiðir)
• Verkmenntaskóli Austurlands (RK9 – háð þátttöku)
• Verkmenntaskólinn á Akureyri (báðar leiðir)

Sveinspróf í rafvirkjun eru haldin í Reykjavík í febrúar og júní ár hvert, og stundum á Akureyri einnig.

Rafvélavirkjun

Sérhæfing rafvélavirkja felst helst í því að sinna viðgerðum og viðhaldi á rafvélum og stýringum þeim tengdum, en sinna auk þess ýmsum öðrum almennum rafvirkjastörfum, m.a. við raflagnir.

Nám í rafvélavirkjun er skipulagt sem 4 anna nám til sveinsprófs eftir grunnbraut, og er hægt að fara tvær leiðir til að ljúka henni:
RV8 (verknámsleið) er 60 ein. fullt 3 anna nám í skóla ásamt 24 vikna starfsþjálfun.
RV9 (samningsleið) er 35 ein. nám í skóla, ýmist tekið sem fullt nám á 2 önnum eða hlutanám á 3 önnum, ásamt 48 vikna námsamningi hjá rafvélavirkjameistara.

Nám í rafvélavirkjun er keimlík námi í rafvirkjun, og eru innan við 12 ein. sem munar á náminu í þessum greinum, eftir því hvaða leiðir eru valdar, og er þar af leiðandi auðvelt að ljúka þessum greinum saman.

Annars eru námsgreinar í rafvélavirkjun þessar, fyrir utan íþróttir:
• Forritanleg raflagnakerfi
• Lýsingartækni
• Raflagnateikning
• Raflagnir (aðeins skylda fyrir RK8)
• Rafvélafræði
• Rafvélar (aðeins skylda fyrir RK8)
• Rafvélastýringar
• Rafvélavindingar
• Reglugerðir
• Smáspennuvirki
• Stýringar og rökrásir
• Valið lokaverkefni (aðeins skylda fyrir RK8)

Aðeins 1 skóli býður upp á nám í rafvélavirkjun (báðar leiðir); Tækniskólinn.

Sveinspróf í rafvélavirkjun eru haldin í Reykjavík eftir þátttöku, í febrúar eða júní.

Rafveituvirkjun

Rafveituvirkjar eru oftast nær starfsmenn rafveitna og fást við háspenntar raflagnir, t.a.m. raflagnir í götum, spennistöðvum og aðveitustöðvum, og háspennulínur.

Nám í rafveituvirkjun er skipulagt sem 4 anna nám, þ.e. sem 35 ein. nám í skóla (fullt nám í 2 annir) ásamt 48 vikna námssamningi hjá rafveituvirkjameistara.

Námi í rafveituvirkjun er mjög auðvelt að ljúka ef menn hafa lokið námi í rafvirkjun eða rafvélavirkjun, og þarf þá í raun aðeins að bæta við 11 ein. aukalega.

Nám í rafveituvirkjun er aðeins í boði í Tækniskólanum.

Námsgreinar í rafveituvirkjun fyrir utan íþróttir:
• Burðarþolsfræði
• Forritanleg raflagnakerfi
• Háspennutækni
• Lýsingartækni
• Orkudreifikerfi
• Raflagnateikning
• Rafmagnsfræði og mælingar
• Reglugerðir
• Smáspennuvirki
• Stýringar og rökrásir
• Umhverfisfræði

Sveinspróf í rafveituvirkjun eru haldin í Reykjavík eftir þátttöku.

Rafeindavirkjun

Hlutverk rafeindavirkja er að sinna viðgerðum, viðhaldi og smíði á ýmsum rafmagns- og rafeindatækjum, sem og að sinna uppsetningu, viðhaldi og viðgerðum á fjarskipta- og dreifikerfum.

Nám í rafeindavirkjun er skipulagt sem 4 anna nám eftir grunnbraut, þ.e. sem 60 ein. fullt 3 anna nám í skóla ásamt 24 vikna starfsþjálfun.

Nám í sterkstraumsgreinum (rafvirkjun, rafvélavirkjun og rafveituvirkjun) á fátt sameiginlegt með námi í rafeindavirkjun hvað sérnámið varðar, og því er mjög tímafrekt að ljúka rafeindavirkjun saman við hinar rafiðngreinarnar.

Nám í rafeindavirkjun er aðeins í boði í Tækniskólanum.

Helstu námsgreinar í sérnámi rafeindavirkjunar, fyrir utan íþróttir:
• Fjarskiptatækni
• Fagteikning
• Mechatronic
• Net og miðlun
• Rafeindabúnaður
• Smíði og hönnun rafeindarása
• Stafræn tækni og sjálfvirkni
• 1 valáfangi (í stýringum og rökrásum eða fjarskiptatækni eða upptökutækni eða smíði og hönnun rafeindarása)

Sveinspróf í rafeindavirkjun eru haldin í Reykjavík í febrúar og júní eftir þátttöku.

Símsmíði

Hlutverk símsmiða er nýlagning, viðhald og viðgerðir á símalögnum og kapalkerfum, jafnt innanhúss sem utan.

Símsmíði var kennd í Iðnskólanum í Reykjavík (nú Tækniskólanum), en virðist nú hafa verið sett í pásu í bili. Hún var síðast kennd eftir námskrá frá árinu 1993. Þó er hugsanlegt að verið sé að endurskoða námskrána og hefja nám í símsmíði að nýju.

Kvikmyndasýningarstjórnun

Eftir grunnbraut rafiðna er hægt að komast beint í starfsþjálfun sem sýningarmaður við íslenskt kvikmyndahús, og er miðað við að neminn ljúki a.m.k. 300 sýningartímum á um 6 mánaða tímabili.

—————————————–

Nám eftir grunnbraut / sveinspróf

Meistaranám
Ákveði sá sem er með sveinspróf í einhverri rafiðnaðargrein að fara í meistaranám í sínu fagi opnast honum ýmsar dyr, en þó helst á þann hátt að hann getur stofnað og rekið eigið fyrirtæki, tekið rafiðnaðarnema á samning og geta einnig gerst rafverktakar hafi þeir öðlast löggildingu frá Löggildingarstofu.
Hægt er að ljúka bóklegum fögum í meistaranámi við marga framhaldsskóla sem voru taldir upp hérna að framan, en faglega hlutanum er aðeins hægt að ljúka hjá Rafiðnaðarskóla RSÍ.

Rafiðnfræði
Háskólinn í Reykjavík býður upp á diplómanám í rafiðnfræði í fjarnámi. Rafiðnfræði er 90 ECTS einingar (eða 45 gamlar háskólaeiningar), og getur nemandi svolítið ráðið sínum námshraða sjálfur, en algengast er að námið sé tekið á 3 árum meðfram vinnu, ef teknar eru 12-18 ECTS einingar á hverri önn. Með fullu námi er þó hægt að ljúka rafiðnfræði á 3 misserum (1,5 ári). Skilyrði fyrir inngöngu í rafiðnfræðina er að hafa lokið sveinsprófi eða vera á lokastigum með það, auk þess er mælst til þess að hafa lokið 12 ein. samtals í raungreinum (stærðfræði / eðlisfræði / efnafræði) og 12 ein. í tungumálum. Þó er ekki skylda að vera búinn með þessar einingar í tungumálum og raungreinum, og er þá hægt að taka grunnnámskeið í þessum fögum meðfram fögunum í rafiðnfræðinni. Ef maður hefur þegar lokið stúdentsprófi eða meistararéttindum, þá þarf maður ekki frekari undirbúning.
Rafiðnfræðingurinn starfar oftast sem starfsmaður á tækni- og verkfræðistofum eða sem sjálfstæður rafverktaki. Á tækni- og verkfræðistofum starfar hann við hönnun, teiknun, áætlanagerð, við ráðgjöf og eftirlit, og er oft tengiliður við rafverktaka.
Sá sem lokið hefur námi í rafiðnfræði getur sótt um meistarabréf að námi loknu sem gefur honum réttindi sem meistari í sinni sveinsprófsgrein.

Einnig veitir rafiðnaðarmenntun, ásamt námi í stærðfræði og raungreinum, góðan undirbúning fyrir rafmagns- og tölvugreinar í háskóla, eins og t.d. í rafmagnstæknifræði (HR), rafmagns- og tölvuverkfræði (HÍ), hugbúnaðarverkfræði (HÍ/HR), tölvunarfræði (HÍ/HR), hátækniverkfræði (HR), svo fátt eitt sé nefnt.

—————————————–

Helstu heimildir, og heimasíður skóla sem kenna rafiðngreinar:

Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins – http://www.rafis.is/fsr

Iðan fræðslusetur – nám og störf – http://www.idan.is/nam-og-storf

Nám að loknum grunnskóla 2009 – Menntamálaráðuneytið – http://framhaldsskolar.menntagatt.is/

Rafiðnaðarsamband Íslands – http://www.rafis.is

Rafiðnaðarskólinn – http://www.raf.is

Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði – http://www.sart.is/

Starfslýsingar – færnikröfur starfa – Háskóli Íslands – http://www2.hi.is/page/Jobs

Framhaldsskólar:

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti – http://www.fb.is

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Sauðárkróki – http://www.fnv.is

Fjölbrautaskóli Suðurlands, Selfossi – http://www.fsu.is

Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Reykjanesbæ – http://www.fss.is

Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi – http://www.fva.is

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum – http://www.fiv.is

Iðnskólinn í Hafnarfirði – http://www.idnskolinn.is

Raftækniskóli Tækniskólans – http://www.tskoli.is/skolar/raftaekniskolinn/frettir/

Verkmenntaskóli Austurlands, Neskaupstað – http://www.va.is

Verkmenntaskólinn á Akureyri – http://www.vma.is

Íslenskir háskólar:

Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík – http://www.hr.is/deildir/taekni–og-verkfraedideild/

Verkfræði- og raunvísindasvið Háskóla Íslands – http://www.hi.is/is/verkfraedi_og_natturuvisindasvid/forsida_verkfraedi_og_natturuvisindasvids