Á Þjóðarbókhlöðunni Jæja, í enn eitt skiptið er tími prófa runninn upp og fjöldi fólks mættur á Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn (eða Þjóðarbókhlöðuna) til lesturs. En að sjálfsögðu er miklu skemmtilegra að yrkja kvæði en að lesa námsbækur! Þessi er afrakstur dagsins í dag:

Hér ver ég gjarnan góðum tíma,
glaður í bragði lífinu ann.
Og þegar ég ekki er að ríma,
ég opna stundum doðrant þann
sem inniheldur heimsins fræði
er heimspekinagar færðu í orð.
Já, hér er ró og hér er næði.
Hér ég sit við einangrað borð.

En að mér steðjar stundum leiði,
þá stend ég upp og fer á kreik.
Ef sólin skín í sinni heiði
ég sæll fer út og bregð á leik.
Annaðhvort ég eitthvert labba
eða skelli mér í sund.
Þar er gott að þvæla og rabba
um þjóðarhag og liðna stund.

En senn er mál að arka aftur
upp á Hlöðu að lesa bók
og finna hvernig fræðakraftur
fangar þar hvern kima og krók.
Það getur stundum tekið tíma
að telja í sig nennu og kjark.
Þegar hér er háð sú glíma
hitinn nálgast bræðslumark.

Fyrr en varir að lokun líður
þá læðast menn í burtu strax.
Og enginn er sá sem ekki bíður
í ofvæni næsta Hlöðudags.
Hér tækifæri gullin gefast
hér glímt er hart við lestrarpuð.
Enginn þarf um það að efast,
að á Þjóðarbókhlöðunni er stuð.