Gettu betur 2007 - Undanúrslitin ráðin Þá er undanúrslitum Gettu betur 2007 lokið!

Fimmtudagskvöldið 22. mars mættust erkifjendurnir Menntaskólinn í Reykjavík og Verzlunarskóli Íslands. Fram til þessa hafði MR lagt að velli Menntaskólann við Sund og Kvennaskólann í Reykjavík, og Versló sigraði Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Ísafirði. Búist var við harðri baráttu um sætið í úrslitunum. Hins vegar gerðu útkljáðu MRingar viðureignina nokkuð snemma, en Verzlunarskólinn náði aldrei yfirhöndinni, og drógust aftur úr í vísbendingaspurningunum. Endaði viðureignin með 37 stigum MR á móti 27 stigum Versló, og eru því MR komnir sterkir áfram í úrslit. Mikill rígur var sýnilegur í keppninni, sem endurspeglaðist í viðtali Sigmars við nemendaráðsformenn beggja skóla. Dæmi hver fyrir sig.

Föstudagskvöldið 23. mars
mættust síðan Menntaskólinn við Hamrahlíð og Menntaskólinn í Kópavogi. Á leið sinni í úrslit hafði MH sigrað Menntaskólann á Egilsstöðum, Borgarholtsskóla og búfræðibraut Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, en MK hafði sigrað Fjölbrautaskólann í Garðabæ, Menntaskólann Hraðbraut og Fjölbrautaskóla Norðurlands-vestra á Sauðárkróki. Nokkrir spáðu í síðustu grein minni að MH ynni sigur á MK. Þó fóru hlutirnir á annan veg. MH leiddi keppnina eftir hraðaspurningar, 22:21, en liðin voru orðin jöfn með 24 stig eftir vísbendingaspurningar. MH tók síðan forystu á ný í bjölluspurningunum, og hélst sú forysta í 2-4 stigum. Í stöðunni 31:28 eftir bjölluspurningarnar þóttu MHingar nokkuð vísir til sigurs. Hvorugt liðið náði þó stigi í vísbendingaspurningunum. En heldur betur dró til tíðinda í þríþrautinni, en MK svaraði henni rétt og náði því að jafna í 31:31 á seinustu stundu, og keppnin yrði því útkljáð í bráðabana. Liðin höfðu ekki 1. spurningu rétt. MK náði hins vegar að svara 2. spurningu rétt, staðan 32:31 fyrir MK. Og aftur náði MK að svara rétt í 3. spurningu, og þar með varð ljóst að MK var komið í úrslit, með 33 stigum gegn 31 stigum MH. Afar spennandi keppni, ein mest spennandi keppni þessa árs í Gettu betur.

Þar með er ljóst að Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn í Kópavogi munu mætast föstudaginn 30. mars. Báðir skólar hafa sigrað áður í Gettu betur, MR 12 sinnum og MK 1 sinni árið 1989. Er þetta í fyrsta sinn sem MK er í hópi 4 efstu liða síðan þá.



Í framhjáhlaupi vil ég benda á skemmtilegt atvik úr viðureign MH og MK, sem vakti mikla lukku hjá þeim sem horfðu og hlustuðu.

Sigmar spyrill:
8. bjölluspurning; Vestræn tónlist er ýmist í dúr eða moll, orðin tvö eru notuð til að lýsa tvennu ólíku tónmáli, þau lýsa eðli þess býsna vel því þau eru dregin af latnesku lýsingarorðunum mollis og durus. Hvað merkja þau?

MH tekur bjölluna

Snorri, MH:
Við segjum bara að mollis þýðir sorg og durus gleði?

Ekki var það rétt svar, svo MK fær svarréttinn

Eiríkur, MK:
Bara hástemmt og lágstemmt.

Sem var ekki rétt heldur

Davíð Þór:
Nei, mollis þýðir mjúkur og durus þýðir harður. Og svo má fólk velta því fyrir sér hvernig orðið Durex er tilkomið.