Dagur í lífi nýstúdents Útskriftardagurinn minn

,,Allt vaknar er vorar að,
sem veröldin fegurst ól.
Og ljúft er að leggja af stað
við ljómann af rísandi sól.
Þá höldum við saman mót sumrinu bjarta
með söng á vörum og blóm við hjarta
og kveðjum byggðir og ból.

Það gleymist að gatan var þröng.
Við göngum með vorinu í dans
og förum með sólglaðan söng
um sál hverrar konu og manns.
Við vitum frá æskunnar arni skal rísa
sá eldur, sem þjóðunum veginn má lýsa
til fegurra framtíðarlands.

Og hvert sem um heiminn oss ber
og hversu margt sem oss brást,
að æskan í för með oss er
skal allsstaðar munað og sjást.
Vor söngur skal berast sem boð frá þeim degi
er bjartast skein sól yfir æskunnar vegi
og bundin var bræðranna ást.

Hver kynslóð er örstund ung
og aftu til grafar ber,
en eilífðaraldan þung
lyftir annarri á brjósti sér.
Þá kveðjumst við öll, voru kvöldi hallar –
en kynslóð nýja til starfa kallar
sá dagur, sem órisinn er.”

Svona hljómar Stúdentasöngur Tómasar Guðmundssonar.Þann 21. maí 2005 náði ég þeim góða áfanga að brautskrást sem stúdent frá skólanum mínum. Hér á eftir ætla ég aðeins að lýsa helginni eins og hún kom mér fyrir sjónir.

Föstudagskvöldið

Á föstudagskvöldinu (kvöldinu fyrir útskrift) var farið í gegnum rennslið fyrir útskriftina daginn eftir.
Þarna höfðum við loks safnast saman allur útskriftarhópurinn, en við hittumst síðast þegar við dimmiteruðum eins og asnar 3 vikum fyrr.
Rennslið gekk vel, og allt klárt fyrir morgundaginn.
Síðan ók ég bara mína leið inneftir í sumarbústaðinn sem foreldrar mínir tóku á leigu.
Stressið var byrjað að byrgjast upp í manni fyrir þennan stóra dag.

Útskriftarmorguninn

Undantekning við mig þennan dag frá mörgum öðrum var sú að ég átti afmæli daginn sem ég útskrifaðist, þannig að útskriftarmorguninn byrjaði ég á því að opna þær afmælisgjafir sem fyrir lágu.
Ég vann jafnt og þétt að því að afstressa mig, ef að ekki komu sms á 2 sekúndna fresti með afmælisóskum.

Kl. 9 var síðan komið að því að keyra út í Egilsstaði, en nú var komið að myndatökunni. Ég þurfti að klæða mig upp í fullt dress fyrir myndatökuna, með nellikku upp úr vasanum og alles.
Ljósmyndarinn smellti af mér um 10 myndum, og stressið minnkaði ekkert við það að hafa prófað að setja húfuna á kollinn.

Útskriftarathöfnin!

Þegar við komum úr myndatökunni þótti þegar ljóst að ekki yrði framkvæmd hópmyndataka úti eins og áætlað var, það var skítkalt úti og slydda / él.

13:25 mætti ég prúðbúinn í Íþróttamiðstöðina, en þar skyldi athöfnin fara fram.
Eitt af öðru mættum við og söfnuðumst öll saman í búningsklefanum.
Við vorum öll í frekar furðulegu skapi; öll frekar stressuð en vorum samt að deyja úr spenningi. Síðast þegar við sáumst öll saman vorum við í dimmission búningunum! Og núna vorum við uppáklædd í okkar fínasta púss. Frekar skrítið.
Og nú fyrst fann maður fyrir því að stressið var að ná yfirhöndinni.

14:00 stilltum við okkur upp á ganginum og marséruðum eiginlega inn í íþróttasalinn undir forystu skólameistarans. Þar komum við okkur síðan fyrir í sætum sem búið var að raða upp andspænis salnum og við hliðina á ræðupallinum. Raðað var í sætin eftir stafrófsröð.
Áfangastjórinn var kynnir á athöfninni og flutti upphafsorð athafnarinnar.
Síðan flutti skólameistari skólaslitaræðuna, þar sem hann gerði starfi skólans yfir veturinn nokkur ýtarleg skil.

Þá hófst afhending skírteina. Byrjað var á að kalla upp þá sem voru að útskrifast af skrifstofubrautinni og fengu þau sínar viðurkenningar.

En síðan kom röðin að okkur stúdentsefnunum. Við vorum lesin upp í stafrófsröð, og þar af leiðandi var ég tiltölulega aftarlega í hópnum.
Svo kom að mér, lesið var upp nafnið mitt, hvaðan ég kæmi, af hvaða braut ég útskrifaðist og með hve margar einingar. Síðan gekk ég upp á pallinn og heilsaði áfangastjóra og skólameistara með handarbandi og tók við skírteininu frá þeim síðarnefnda.

Að þessu loknu rann stóra stundin upp, en þá stóðum við upp öllsömul og settum á okkur stúdentshúfurnar, og hlutum við það mikið lófaklapp.

Síðan fluttu nokkrir nýstúdentar tónlistaratriði; tvær hæfileikaríkar stelpur sungu, og 2 strákar spiluðu undir, annar á gítar og hinn á óbó. Lagið hét When stars og blue með The Corrs.

Því næst var komið að því að afhenda viðurkenningar til nemenda sem þóttu skara fram úr á sínu sviði, en veitt voru verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ákveðnum greinum, fyrir mætingu og/eða fyrir félagsstörf.
Ég fékk minn skerf af því en ætla ekki að tjá mig frekar um það hér.

Eftir verðlaunaafhendinguna flutti einn af nýstúdentunum ræðu og þakkaði fyrir viðveru sína í skólanum fyrir okkar hönd.
Á eftir honum flutti ræðu gamall stúdent frá skólanum sem hafði útskrifast 20 árum áður, og hafði sérstaklega að orði hve lítið hefði í raun breyst í huga ungs fólks sem stæði á þeim tímamótum sem við stóðum á á þessum degi.

Síðan var flutt annað tónlistaratriði af þeim sömu og síðast, nema í stað óbó var komið píanó. Flutt var lagið Ást eftir Magnús Þór Sigmundsson, sem hafði orðið frægt í flutningi Ragnheiðar Gröndal.

Eftir tónlistaratriðið steig gamli sálfræðikennarinn okkar upp í pontu fyrir hönd kennara skólans og flutti ræðu. Lýsti hann fyrir okkur hvernig það væri fyrir kennara skólans að horfa á allan þann fjölda af árgöngum sem færu í gegnum skólann á starfsævi þeirra.

En þá var athöfninni síðan lokið þegar að skólameistarinn lýsti yfir skólaslitum, og endaði athöfnin á fjöldasöng við Ísland ögrum skorið.

Eftir fjöldasönginn marséruðum við aftur fyrir áhorfendur, og gafst okkur þá tækifæri að taka við heillaóskum frá viðstöddum.
Síðan var stillt upp í hina formlegu myndatöku, og smellt fyrir myndatöku á vegum skólans og á vegum Morgunblaðsins, auk þess sem að margir laumuðust til að taka myndir af hópnum við þetta tækifæri.

Eftir athöfnina var kaffisamsæti í hátíðarsal og mötuneyti skólans, og voru þar margvíslegar veitingar á borðum. Annars stoppaði ofanritaður ansi stutt þar þannig að frekari lýsingar hef ég ekki.

Um kvöldið var haldin smáveisla með fjölskyldu og maka í sumarbústaðnum sem við tókum á leigu. Innifalið í henni var hálfgert Eurovision-partý, en það hitti víst svo skemmtilega á að keppnin var haldin þennan sama dag.

Haldið var ball fyrir útskriftarnema á skemmtistað bæjarins, en þar sem ég var gjörsamlega búinn á því, þá var mér nokkuð sama þó ég myndi missa af því, ég hafði fengið það sem ég vildi :).

Svona var dagur í lífi nýstúdents!

Með von um að þið höfðuð gaman að lestri þessarar greinar,
Ultravox