Ágætu menntskælingar, í dag er góður dagur. Hinn fornfrægi hrafn, Muninn hefur sig nú á loft í 75. skipti. Sjötugasta og fimmta starfsár skólablaðsins er hafið. Jafnframt er nú hafið annað starfsár Munins.is. Blaðaútgáfa við Menntaskólann á Akureyri á sér langa og merka sögu sem rekja má aftur til gamla Möðruvallaskóla, þar sem blaðið Skólapilturinn var gefið út. Í októbermánuði árið 1927 kom svo út fyrsta tölublað Munins og hefur hann verið gefinn út síðan. Blaðið hefur alla tíð verið öflugur málsvari nemenda og að auki elft orðstýr skólans út á við. Á síðasta ári hófst svo útgáfa vefrits sem hefur gefið mjög góða raun. Hlutverki blaðsins sem vettvangs til skoðanaskipta er nú betur þjónað en nokkru sinni fyrr. Nemendum gefst nú á auðveldan hátt kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri.

Margt er framundan hjá skólablaðinu í vetur. Stefnt er að útgáfu tveggja blaða, annarsvegar komi út blað skömmu fyrir jól og síðan verði gefinn út veglegur afmælisárgangur næsta vor. Að auki mun haldið áfram því starfi sem hafið var seinasta vetur með vefútgáfu blaðsins. Undirbúningur að hinum nýja vef hófst um miðbik sumars og hafa margir síðan þá komið að þessu verki fram á þennan dag. Vil ég bera öllum þeim mínar bestu þakki fyrir vel unnið verk. Auk þess vil ég þakka stjórn og starfsfólki skólans fyrir þann mikla velvilja og vinsemd sem ég hef notið við þetta verk. Muninn breiðir út vænghaf sitt og hefur sig til flugs.

http://www.muninn.is