Jæja, í ljósi greinarátaks hérna á skólaáhugamálinu á huga ákvað ég að henda inn einni af minni leiðinlegri, en þó að sama skapi skemmtilegri minningum sem ég hef af skólagöngu minni í grunnskóla. Þetta átti sér þó ekki stað inní skólanum sjálfum eða á meðan á kennslustund stóð, en hún tengist þó grunnskólanum mínum (Lækjarskóla í Hafnarfirði) óneitanlega að stórum hluta. Einnig vil ég taka það fram að fyrirfram verður það að teljast óvíst að þið hafið nokkurt gaman af greininni (þótt maður viti náttúrulega aldrei), en allt skítkast er vinsamlegast afþakkað.

Þetta átti sér allt saman stað í frímínútum í 3. eða 4. bekk, þar sem við félagarnir vorum að leik úti á skólalóðinni. Venjan var að fara annað hvort í fótbolta á “stóra vellinum” eða handbolta á “litla vellinum”. Einnig var það vinsælt okkar á meðal að kasta snjóboltum í stelpurnar, en þar sem liðið var á vorið, og báðir vellirnir uppteknir, gátum við strikað út alla ofangreindra möguleika okkur til dægrastyttingar þar til haldið var inn í matartíma. Ekki man ég hvernig það atvikaðist, en þar sem ég var nú mikill prakkari þegar ég var ungur að árum (ótal, ótalmargar ferðir til skólastjórans standa því til vitnis), þá fannst mér það góð hugmynd að stríða einum félaga minna með því að hrifsa af honum eyrnabandið hans… og hlaupa! Auðvitað elti hann (auk þeirra hinna sem ekkert betra höfðu að gera) til þess að reyna að endurheimta eyrnaskjólið. Fyrst um sinn höfðu allir gaman að, en þegar líða fór á leikinn og stolt mitt yfir því að hafa enn yfirráð yfir eyrnabandinu, jókst, þá fór gamanið að kárna. Ég var þó ekkert á þeim buxunum að gefa undan svo auðveldlega svo ég sný mér við á hlaupunum (með áherslu á “á hlaupunum”) og öskra orðrétt að félögum mínum: “Þið náið mér aldrei!!!”. Ég hefði sennilegast átt að vita betur. Ég hafði varla sleppt orðinu og snúið mér við þegar ég geri mér grein fyrir því að skólinn minn, já, þetta gríðarstóra og miður fyrirferðalitla mannvirki, er beint fyrir framan mig. Skelfingin hjaðnaði síður en svo þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég var á of mikilli ferð til að nema staðar eða bregða fyrir mig höndum, svo ég klessi af fullu afli beint á skólann minn. Niðurstöður þessa atburðar: Gríðarstór skurður á ennið, 3 spor og stórlaskað stolt. Og já, þeir náðu mér. :( Ég sleppti jafnframt að mæta í skólann næstu 2 daga eftir atburðinn, enda það, að horfast í augu við bekkjarfélaga mína eftir þessi afhrök, meira en ég gat afborið. “Kapp er best með forsjá”, einhver? ;)

Vitaskuld var þetta síður en svo hressandi atburður þegar hann átti sér stað, en með árunum hefur maður lært að horfa á þetta frá spaugilegra sjónarhorni, og gott ef maður glottir ekki út í annað þegar talað er um “daginn sem Binni klessti á skólann”. Eru þeir ófáir sem vilja bendla atvik þetta við góðan námsárangur í skóla síðan þá (útskrifaðist með góða einkunn úr grunnskóla og dúxaði í framhaldsskóla), en hvort einhver vensl sé að finna þarna á milli skal ég þó látið ósagt um.