Þessi grein verður í lengra laginu og kannski eilítið hlutdræg (enda er ég kennari og ætla að fjalla aðeins um komandi verkfall og kjarabaráttuna frá sjónarhóli kennara)

Nokkur söguleg atriði sem þarf að athuga:
- Þegar skólarnir voru einsettir þá fengu kennarar þau skilaboð að það væri ekki hægt að hækka laun þeirra vegna þess að allur peningurinn þyrfti að fara í að borga einsetninguna. Þegar einsetningu skólanna lauk fóru peniningarnir eitthvert annað… allavega ekki í launapott kennara = vaðið á skítugum skóm yfir kennarastéttina
- Síðustu samningar voru hærri laun fyrir lengri vinnutíma = ENGIN kjarabót
- Kennarar greiða í verkfallssjóð EFTIR að hafa greitt skatt af þeim peningum… peningarnir sem við fáum svo úr verkfallssjóði eru svo aftur skattskyldir.
- Kennarar eru EKKI með lengra frí en aðrir. Kennarar vinna 42,8 (eða svo) stunda vinnuviku til þess að fá borgað þennan “auka” mánuð sem við erum í “fríi”… við erum semsagt búin að vinna fyrir þessum mánuði.

Athugið samt með þetta “frí” og aukatímana sem við vinnum. EF við myndum segja sem svo að þennan mánuð EKKI greiddan (launalaust frí), en myndum aftur á móti fá 2,8 klukkutíma í yfirvinnu greidda á viku (jafnvel fleiri klukkutíma þar sem verið er að semja um styttri vinnuviku hjá öðrum verkalýðsfélögum) þá væri sá peningur meiri en þessi mánaðarlaun…

Næsta glæsilega mál eru auðvitað skattarnir okkar. Við borgum öll skatta og útsvar til ríkis og sveitafélaga. Sveitafélög nota hluta útsvars til þess að greiða fyrir menntun einstaklinga í viðkomandi sveitafélagi. Á meðan verkfallinu stendur greiðum við enn þessa sömu skatta.

Leggjum þessa skatta sem sveitafélögin fá nú auka við þann tíma sem kennarar hafa verið samningslausir (síðan um miðjan mars á þessu ári) og reiknum út hversu mikið sveitafélögin eru að græða á kennurum með því að hafa þá samningslausa… og hversu mikið þau græða á því að reka ekki menntakerfið sem þeim er skyld samkvæmt lögum að veita.

Smá um þessa skyldu sveitafélaga. Fólkið í þessu landi kýs flokka á þing sem mynda ríkisstjórn og stjórna menntamálaráðuneyti. Menntamálaráðuneytið semur aðalnámskrá sem er viðmiðunarnámskrá fyrir menntakerfið í landinu (það sem á að kenna að lágmarki í skyldukerfinu - takið eftir LÁGMARK)

Sveitafélögin taka svo við þessarri skyldu frá ríkinu að reka menntakerfi í viðkomandi sveitafélagi sem á að ná þeim markmiðum (að minnsta kosti) sem sett eru í aðalnámskrá. Sveitafélagið ræður til sín skólastjóra og aðra stjórnendur til þess að reka skólann og sjá til þess að þessum markmiðum sé náð.

Hvers vegna er þá launanefnd sveitafélagana (ALLRA) að semja um vinnuramma kennara? Hvers vegna er það ekki skólanna að sjá bara um það? Eru sveitafélögin ekki að ráða til sín skólastjórnendur sem þau treysta til þess að ná þessum lögbundnu markmiðum???

þess má geta í framhjáhlaupi að það eru í raun ekki skólar og kennarar sem setja nemendum fyrir efni að læra, heldur er það ríkisstjórnin (menntamálaráðuneytið).

Verkfallsréttur kennara er að vissu leyti undarlegur, því samkvæmt lögum eru sveitafélög skylduð til þess að mennta, það ásamt þeirri staðreynd að við hættum ekki að borga þá skatta sem fara til menntamála gerir þetta allt voðalega skrítið. Möguleiki gæti verið að setja þessi mál í kjaradóm og fella niður verkfallsrétt kennara.

Allavega, þannig er það ekki núna. Kennarar eru á leiðinni í verkfall ef samningar nást ekki.
Hvað gerist? Eina vogarafl kennara eru nemendur og foreldrar. Og hvað er að gerast? Bankar (af öllum) eru að bjóða upp á gæslu og mögulega kennslu (sem væri þá verkfallsbrot) til þess að létta undir með fullorðna fólkinu. Siðlaust… því það fjarlægir að hluta það vogarafl sem kennarar hafa með því að vera í verkfalli.

Venjulega er fyrirtæki að tapa á því að starfsfólk þess er í verkfalli. Sjómenn valda það miklu tapi með því að vera í verkfalli að ríkisstjórnin grípur inn í með lögum. Sveitafélög (launagreiðendur kennara) græða hins vegar á verkfallinu okkar (peningalega séð).

Ég spái því að verkfallið verði í um 6-8 vikur (um það bil sá tími sem verkfallssjóður dugir). Eftir 6 vikur kemur launanefnd sveitafélagana með tilboð (eftir að hafa komið með nokkur sem ekki er hægt að samþykkja) sem kjaranefnd kennara verður að íhuga og leggja til atkvæðagreiðslu. Kennarar munu því miður koma til með að segja já við því tilboði vegna:
1. sveltis
2. allt of mörgum er alveg sama, vilja bara fara að vinna aftur.

…þannig verður það.

e.s. Kennarar eru ekki lengur æviráðnir…

Björn Leví