Nú er sá tími kominn enn og aftur að 10. bekkingar í grunnskólum eru að klára og hafa fengið einkunnirnar úr samræmdu prófunum í hendurnar. Þá tekur við sá erfiði hluti að velja sér menntaskóla til að halda náminu áfram. Margir eru í miklum vandræðum um hvað á velja og fara því að spyrja alls kyns fólk í kringum sig en geta þá átt í þeirri hættu að lenda í alls kyns hópþrýstingi.
Hér koma nokkur ráð fyrir ykkur 10.bekkinga sem eruð í einhverjum vandræðum:

1) EKKI EKKI EKKI velja skóla eftir því sem vinir ykkar velja! það er eitthvað sem þið gætuð séð eftir á endanum. það góða við að fara í menntaskóla er einmitt að þú átt mikla möguleika á að kynnast nýju fólki og eignast fullt af nýjum vinum.

2) Veldu skóla sem þér finnst henta ÞÉR og engum öðrum. Ef þú ert t.d. feiminn og átt erfitt með að kynnast fólki þá eru mestar líkur á að skóli með bekkjarkerfi henti þér betur. Það er þitt að vega og meta og undir engum kringumstæðum áttu að láta aðra hafa áhrif á val þitt.

3) Ekki velja skóla útfrá félagslífinu. Veldu skóla út frá náminu, en það er einmitt það sem þú átt eftir að vera að stunda að mestu næstu ár. Enginn skóli er með betra félagslíf heldur en einhver annar skóli, sú tilfinning er afskaplega persónubundin. Þér gæti til dæmis fundist alveg frábært að vera í einhverjum skóla á meðan einhverjum öðrum gæti liðið alveg hörmulega eða þveröfugt.

4) Ef þú ert að fá ráð hjá einhverjum passaðu þá að sá aðili gæti verið frekar hlutdrægur. Ég hef til dæmis séð mikið af því á korkunum hér að fólk er að mæla eindregið með sínum skóla og fullyrðandi að það sé bara allra besti skóli í heimi.
Sjálf er ég Verzlingur, en mér dettur ekki í hug að fara segja að Verzló sé fullkominn skóli fyrir ALLA! því að verzlunarnám hentar kannski ekki öllum, eins og áfangakerfi hentar mér til dæmis bara alls ekki. Iðnaðarnám hentar sumum vel, öðrum ekki. Sumir hafa mikinn áhuga á tungumálum en hata stærðfræði, þá hentar málabraut einstaklinginum mun betur en til dæmis náttúrufræðibraut.
Hvernig nám vilt þú stunda og hvað hentar þér?

5) þú þarft ekki endilega að fara í þann skóla sem er næstur heimili þínu. það er ekki svo erfitt að fara með strætó á morgnanna, en að sjálfsögðu er þetta þitt val….

6) Ef þú ert í einhverjum vandræðum kynntu þér heimasíður skólanna, farðu í opið hús í skólunum, talaðu við námsráðgjafa…


Ég gekk í gegnum erfitt val í fyrra. Í 10.bekk kynnti ég mér skólana vel og var í raun alltaf að skipta um skoðun. þegar ég svo kláraði grunnskólann voru tveir skólar sem stóðu upp úr hjá mér, Verzló og MR. Að lokum valdi ég Verzló og er fegin að ég gerði það, því að eftir á hef ég séð að MR hentar mér ekki. Vinkona mín fór í MR og sá skóli hentar henni fullkomlega, en hún hefði t.d. ekki plummað sig eins vel í Verzló.
Munið samt, ekki elta vini ykkar í einhvern skóla. Ég þekki fólk sem hefur farið mjög illa út úr því en eins og ég hef sagt áður, þá er þetta allt mjög persónubundið.

Veljið það sem ykkur finnst henta YKKUR, ekki vini ykkar eða mömmu ykkar. Veljið skóla sem ykkur líst vel á, námslega og félagslega (fyrri kosturinn hefur meira vægi).
Gangi ykkur vel og góða skemmtun í nýja skólanum. ;)