Ég hef verið að fylgjast svolítið með umræðunni um framhaldsskóla á Íslandi hér á hugi.is. Þar sem ég er svo helvíti málglöð og hef alltaf eitthvað til málanna að leggja þá verð ég aðeins að létta af hjartanu á kostnað ykkar, lesendur góðir;)


Ég vil bara byrja á því að upplýsa ykkur, kært fólk, að maður dregur fólk ekki í dilka eftir því hvaða skóla það er í. Svo ég tali nú aðeins um sjálfa mig þá byrjaði ég á því að gera mistök í vali mínu á skóla og fór í skólann sem er næstur heimahögum mínum. Það gera mjög margir reyndar. Sem dæmi má nefna að fólk frá Akureyri fer flest í skólana á Akureyri, og svo framvegis. Ég er af Suðurnesjunum og fór í eina framhaldsskólann þar, Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Mig langaði aldrei í þennan skóla en var svo grunnsýn að sjá ekki neitt annað í stöðunni. Fyrsta önnin leið hægt og var leiðinlegasta tímabil sem ég hef upplifað. Öllum frítíma minn í skólanum eyddi ég í tölvunum að skoða aðra framhaldsskóla, aðallega í Reykjavík þá. Ég veit satt að segja ekki alveg af hverju mér leið svona hræðilega þarna. Það var bara eitthvað..við skólann? Ég hreinlega veit það ekki. Ég fékk bara hroll í hvert skipti sem ég þurfti að fara í skólann eða bara hugsaði um hann, og fæ hann enn. Fólkið þar var svo óspennandi, byggingin sjálf var óaðlaðandi fyrir minn smekk og svona gæti ég lengi talið. Ég vissi það eiginlega fyrirfram að ég væri ekki að fara “að fíla” mig þarna. Ég er svakalegur námshestur, læri kannski ekki mikið, eins lítið og ég þarf reyndar, en sætti mig aldrei við lægra en helst 9 í prófum. Ég veit - nörd, en ég þarf lítið að hafa fyrir þessu svo af hverju ekki að setja mér ásættanleg markmið? Í FS var fólk alls ekki í skólanum til að læra. Þvert á móti, meirihlutinn af fólkinu var þarna af því að það nennti bara ekki að fara að vinna. Hugsiði ykkur, samansafn af öllum krökkum á Suðurnesjum (flest öllum, ákveðið hlutfall fer auðvitað til náms í aðra bæi) og þá erum við að tala um Keflavík, Njarðvík, Garðinn, Sandgerði, Grindavík og Vogana. Þetta er svolítið mikið og það er bara einn skóli. Sem sagt, ef að nemandi ákveður að sækja ekki skóla í öðrum bæ, þá fer hann í þennan skóla. Sama hversu góður námslega nemandinn er. Og það er einmitt vandamálið við FS að mínu mati, þetta er bara einskonar tossa - skóli. Ég er engan veginn að alhæfa, þarna var og er enn auðvitað fullt af fólki sem er að sýna frábæran námsárangur, en það virðist týnast á milli tossanna. Það pirraði mig rosalega því ég vildi fá sem mest út úr skólanum. Ég naut mín ekki, sitjandi í sófa í frímínútum og horfandi upp á strákana úr gamla bekknum mínum úr grunnskóla í pizzukasti. Tossarnir eru hugsanlega í miklum minnihluta í skólanum, ég hef í raun ekki hugmynd. En þeir eru bara meira áberandi, í raun alltof áberandi, sem veldur því að allt “venjulega” fólkið týnist. En þetta er bara mitt álit, ég er svona eins og ég er – örugglega snobbuð á minn eigin hátt eins og við erum öll. Mér fannst ég bara aldrei passa þarna inn í að þessu leiti.


Fólk í FS hefur þetta orð á sér, að vera bara tossar sem reykja og drekka eins og það fái borgað fyrir það og að það kunni ekki að læra. Er ekkert athugavert við það? Ójú, það held ég nú. Af því að einhver hluti fólks í skólanum er svona, tossar eins og við köllum það oftast – fólk sem í flestum tilfellum fer í skólann af því að það nennir bara ekki að vinna og námsáhugi ekki mikill – þá hafa allir nemendur hans fengið þennan “stimpil” á sig. Ég held að ég hafi tekið það skýrt fram að það eru ekki ALLIR í þessum skóla svona, þó það séu margir. Tossarnir eru bara mest áberandi, þó þeir séu ef til vill ekki í meirihluta. Fólk tekur auðvitað betur eftir strákum í pizzukasti heldur en fólki inni á bókasafni að læra. Ekki satt?


Sem betur fer losnaði ég fljótt úr FS og fór í MH. Þar finnst mér eins og ég sé heima hjá mér og “fitta” miki betur inn heldur en ég gerði nokkurn tímann í FS. Kannski var þetta mál með að ég “fittaði” ekki inn í FS bara í hausnum á mér, mér leið bara þannig. Hvor ástæðan sem það var þá ákvað ég að fylgja þessari líðan eftir því auðvitað á manni að líða sem best, hvað sem maður gerir. Hér er að minnsta kosti mjög lítið um fólk sem er ekki á þeim forsendum að klára skólann með stakri prýði og þá líður mér vel.


En mig langar bara að vekja athygli á því að ég valdi MH á námslegum forsendum, ekki út af þessari ímynd sem að nemendur hafa á sér í skólanum. Ég hafði þó heyrt að fólk væri frekar frjálslega klætt þarna og eintómir hasshausar en ég tók ekki mikið mark á því enda veit ég að fólk er uppfullt af fordómum sem eru oftar enn ekki einungis byggðir á fljótfærni og/eða grunnsýni.

Ég er nokkuð viss um hvað það er sem ég vil læra og er mjög viss í minni sök þegar kemur að því hvaða hlunnindi þau eru sem að skólinn þarf að veita mér. Þegar ég ákvað að yfirgefa FS var stefnan strax sett á Reykjavíkina, allt annað var óákveðið. Eftir mikla athugun þá gat ég útilokað nokkra skóla sem buðu ekki upp á námið sem ég sóttist eftir. Þessir skólar voru meðal annars Iðnskólarnir og Verzlunarskóli Íslands. Eftir talsverða umhugsun gat ég útilokað alla skóla með bekkjarkerfi sem eru þá helst MR, Kvennó og aftur Verzlunarskóli Íslands. Ég er mjög sjálfstæð og vil geta ráðið minni ferð sjálf. Ég hef engan áhuga á að hanga of lengi í skólanum ef ég þarf þess ekki. Eftir enn meiri umhugsun þá útilokaði ég alla skóla sem enn voru á listanum - athugið að ég spáði ekki í neinu nema náminu - sem voru ekki á þeirri leið sem að bíllinn sem ég fæ far með á hverjum degi til Reykjavíkur fer. Þá gat ég útilokað sem dæmi má nefna FB og alla aðra skóla sem eru nokkuð út úr. Þá voru ekki margir eftir, þeir tveir sem stóðu hæst upp úr voru Borgarholtsskóli og MH. Ég athugaði enn og aftur málin betur, enda vildi ég ekki gera nein mistök í þetta skipti, og komst að því að ég vildi helst ekki fara í Borgarholtsskóla. Ég sá að ég gæti alveg eins bara haldið mér í FS því að þessir skólar eru mjög líkir. Þá er ég svona aðallega að tala um námsárangur og viðmið sem að nemendur þar hafa. Vissi ekkert um ímyndina. Þegar hér er komið við sögu var eiginlega bara MH eftir. Ég fór á stúfana, heimsótti skólann og leist bara mjög vel á allt. Námið þar virtist vera krefjandi og margir mjög góðir kennarar.


Þannig að ég sótti um í MH. Og komst inn. Þegar að fyrsta skóladeginum kom hafði ég í raun ekki hugmynd um hvað ég væri að leggja út í, fyrir utan námið því ég hafði það auðvitað allt á hreinu. Eftir nokkra daga í skólanum komst ég að því að fólkið þar er eins mismunandi og það er margt. Þetta skiptist aðallega í nokkra hópa. Fólk sem aðhyllist einhverjar Manson stefnur eða hvað þetta nú heitir allt. Svo eru þessir svokölluðu hasshausar, sem að klæðast sjúskuðum fötum og eru allt í allt frekar sjúskaðir bara – en reykja ekki næstum allir og hvað þá hass! Þeir bara minna fólk á hasshausa við fyrstu sýn held ég, eða svo fannst mér allavega. Svo eru Verzló týpurnar svokölluðu, ef ég má taka svona til orða. Þið vitið það kannski ekki, en MH er fullur af Verzló týpum. Fólk, aðallega stelpur, sem að eru rosalega uppteknar af útlitinu og pæla meira í tískublöðum heldur en námsbókum. Það má í raun lengi telja svona. Ég held að fólk í MH klæði sig bara eins og það vill. Það er kolrangt að segja að það séu eintómir hasshausar þarna. Reyndar þá eru þeir, af minni reynslu, í miklum minnihluta þarna en eru, líkt og tossarnir í FS, mest áberandi. Sýna sig mest..eða hvað er hægt að kalla þetta? Og líkt og glansfólkið í Verzló, það er mest áberandi. Það vekur auðvitað meiri athygli en “venjulega” fólkið, ekkert spennandi við það. En það er engin ástæða til að alhæfa svona og setja upp einhverjar glórulausar ímyndir, og satt að segja hélt ég að við lifðum á tíma þar sem að fólk getur litið út eins og það vill.


Ég hef ekkert út neina skóla á landinu að setja. Fólkið þar er svo mismunandi að mér finnst ekki hægt að kalla alla sama nafninu af því að nokkrir gætu hugsanlega flokkast undir þetta sama nafn. Samanber hasshausana enn og aftur. Það er ekki hægt að kalla alla hasshausa sem eru í MH. Ég vona að sem flestir séu sammála mér því hvert erum við annars að fara? Fullt af fólki í Borgarholtsskóla passar ef til vill ekki þar inn í, ætti frekar að skella sér í Verzló. En þetta fólk fór kannski í Borgarholtsskóla af því að hann var næstur þeirra heimahögum. Fullt af fólki passar ekki inn í Verzló..af hverju er það þar?

Í raun þá er ekki hægt að “passa ekki inn í” af því að í alvöru talað þá er ENGINN eins í NEINUM skóla og þar af leiðandi ættu ekki að vera neinar ruglaðar ímyndir. Margir geta ef til vill verið líkir, gengið í svipuðum fötum meðal annars, en það er ekki það sama og að vera eins. Ef að það er hægt að segja að það séu bara hasshausar í MH, glansfólk í Verzló og svo framvegis, þá er hægt að segja með sanni að enginn passi inn í neins staðar. Flókið kannski, en það eru alls ekki allir hasshausar í MH þannig að það fólk sem flokkast ekki undir hasshausa passar ekki inn í þann skóla. En það fólk ER hins vegar í skólanum sem gerir það að verkum að hasshausarnir passa ekki lengur inn í. Frekar langsótt, ég veit, en þetta er bara álíka gáfuleg pæling og það að draga fólk í dilka eftir skólum.

Ég var stödd út í Kringlu um daginn og á leið minni út fékk á mig sárt skot. Kallað var á mig af Verzlingi: Hvað ert þú að gera HÉR, MH-DRUSLAN þín?!?! Ég veit alveg að 50% af þessu var pottþétt djók, en öllu gamni fylgir einhver alvara. Athugið að ég þekki þann sem kallaði. Viðkomanda fannst greinilega asnalegt að MH-ingur léti sjá sig úti í Kringlu. Ímyndið ykkur hasshaus að versla? Hljómar ekki vel. En þetta sýnir okkur bara að viðkomandi er uppfullur af fordómum. Honum finnst greinilega ekki vera hægt að MH – ingur sé eitthvað annað en hasshaus!

Ég svaraði honum auðvitað á móti og ég varð öskuill. Ég valdi ekki skólann út af einhverri ímynd sem hann hefur! Ég valdi mér ekki skóla á þeim forsendum að ég myndi passa sem best inn í hann, eins og þessi viðkomandi gerði. Í raun, þá var það síðast á check-listanum mínum, að passa inn í skólann. Ég passa alveg inn í MH því þar eru allir bara eins og þeir vilja vera. Þessi Verzlingur myndi hæglega líka passa inn í hann. Ef ég hefði ætlað mér að velja skóla af einhverri ímynd sem að hann hefur svo að ég myndi passa sem best inn í hann, þá hefði ég trúlega valið Verzló. Ég hugsaði um það um stundarsakir, en komst svo að því að ég vildi ekki vera að læra eitthvað sem ég vildi alls ekki læra bara til þess að passa inn í ímynd skólans. Ég læt enga asnalega ímynd koma í veg fyrir að ég læri það sem að mig langar til að læra. Ef ég hefði viljað fara í rafgreinar eða eitthvað þannig þá hefði ég gert það, þrátt fyrir að það nám hafi á sér þá ímynd að aðeins strákar geti lært það.

Það að ég sé MH – ingur segir ekkert til um persónuleika minn, eins og margir halda. Ég er ekki fríkuð týpa í röndóttum sokkabuxum! Ímynd skólans og byggingin sjálf gefur fólki enga innsýn inn í líf mitt.

Ef það eru til einhverjar réttlætanlegar ímyndir í sambandi við skóla þá er það varðandi námsárangurinn. Í því máli er hægt að styðjast við örugga tölfræði og þá er hægt að segja að MH sé kannski fullur af eintómum tossum, þar sem að námsárangur þar er lélegur. Það er aftur á móti engin tölfræði yfir hasshausa til. En með þessu erum við reyndar að draga fólk í dilka aftur. Þó að meirihluti MH séu ef til vill tossar, sem ég er alls ekki að segja þar sem þetta er bara dæmi, þá hljóta að vera góðir námsmenn inn á milli. Niðurstaða: Hættum með ímyndirnar! Þær eru rangar!

Hættum þessum fordómum og losum okkur við ímyndirnar. Við erum öll jöfn í lífinu en erum þó öll mjög misjöfn þegar að kemur að útliti og persónuleika.

Kv, Jessalyn