Maður kemst ekki hjá öðru en að verða var við þennan endalausa ríg milli framhaldsskóla í Reykjavík. Ég bý ekki á höfuðborgarsvæðinu en ákvað að taka stefnuna á MH þegar ég lauk grunnskólanum. Þess vegna hef ég aldrei verið neitt mikið inni í þessari samkeppni milli skólanna og er frekar hlutlaus, ef svo má segja, þegar að svona málum kemur. Ég lít t.d. ekki á MH sem besta skólann landsins þó að ég stundi nám í honum. Engu að síður er þetta frábær skóli með frábæru fólki, bara til að koma því á hreint. Besta vinkona mín fór aftur á móti í Verzlunarskóla Íslands þegar hennar grunnskólagöngu lauk, enda gat hún varla annað gert þar sem mikil pressa var á henni að fara í tiltekinn skóla. Mér var svo sem alveg sama þá, enda eins og ég sagði – hafði ég ekki mikið álit á skólunum í Reykjvík þar sem ég hafði enga reynslu af þeim. Þó varð ég vonsvikin að vissu leyti þar sem að mér fannst hún eiga betra skilið enda hefur hún alltaf verið topp námsmaður, og ég heyrði það útundan mér á fólki að Verzló væri í dag meira svona fyrir krakka sem elskuðu félagslífið en ekki fyrir góða námsmenn sem vilja komast langt áfram í náminu. Auk þess heyrði ég einn fyrrverandi kennara minn úr grunnskólanum minnast á það hve gífurlegum vonbrigðum hann varð fyrir þegar hann komst að þessu, að vinkona mín ætlaði í Verzló, því hann bjóst við einhverju miklu meira af henni. Hér erum við samt ekki að tala um neina fordóma, því bæði ég og kennarinn vissum nánast ekkert um skólann fyrir utan tölfræði um námsárangur þar í samanburði við aðra skóla og frásagnir reyndari manna.

En nóg um það, hún fór í Verzló, hún er enn í Verzló og því verður ekki breytt. En þessi stelpa er ekki sú sterkasta í heiminum, og þá er ég að tala um andlega. Hún er frekar óörugg með sjálfa sig og hefur alltaf verið, bara frá því að hún var lítil. Hún segist hafa verið feit þegar hún var yngri en ég man aldrei eftir því (við vorum ekkert svakalega góðar vinkonur þegar við vorum litlar), það eina sem ég man eftir er að hún var smá bolla en algjör dúlla. Í dag hefur hún tekið sig alveg svakalega á og er alveg óaðfinnanleg í útliti. Maður sér það best þegar maður gengur með henni um fjölmenna staði, eins og Kringluna. Þá sést fyrst svart á hvítu hvor okkar það er sem er flottari. En það sem verra er að hún er enn föst í fortíðinni og lítur á sjálfa sig í speglinum og segir að hún sé feit. Ég er 10 kg þyngri en hún og mjög greinilega aðeins feitari, en samt lítur hún á mig og segir að ég sé með draumaútlitið hennar, að hún vilji vera eins og ég. Það sér hver heilvita maður að þetta er argasta viltleysa í henni.

Strax og hún byrjaði í Verzló fór hún að breytast svolítið. Ég tók ekki eftir því í fyrstu en svo fór ég að átta mig hægt og hægt á því að það var eitthvað breytt. Hún var orðin miki verri í sambandi við sjálfsálit sitt og það var orðið lægra sem aldrei fyrr. Í dag fer hún ekki úr úlpunni í skólanum því hún vill ekki sýna sig. Hún borðar aldrei nema ég skipi henni til þess að gera það með hótunum og öðru illu. Hún eyðir líka öllum sínum frítíma í skólanum í tölvuverunum, þar sem hún felur sig bakvið skjáinn á tölvunni og talar ekki við nokkurn mann. Ég hef aldrei náð því orðrétt út úr henni en ég veit að henni finnst mikil pressa á sér að standast allar kröfur þarna í skólanum. Henni finnst hún þurfa vera rosa flott og falleg til að geta gengið um gangana með fullni reisn og hún hefur sagt mér að henni finnst hún aldrei vera nógu fín í skólanum miðað við aðrar stelpur. Ég get samt alveg ábyrgst það að þetta er alls ekki rétt hjá henni. Hún er alveg nógu flott, falleg og fín til að vera í þessum skóla. Ég myndi heldur aldrei senda bestu vinkonu mína í skólann í einhverjum ljótum fötum því mér þykir bara of vænt um hana til þess að láta hana gera sig að fífli. Hins vegar er þessi pressa til staðar og hún heldur einfaldlega að hún sé ekki að standast hana.

En þetta sem lætur hana líða svona illa er alveg á rökum reist. Ég er sjálf alveg hrikalega veik andlega og með mjög lélegt sjálfsálit, og ég veit vel að því. Ég hef lent í ýmsu og hef mikla reynslu af þessu öllu. Ég finn það sjálf hvað mér líður hrikalega illa inni í Verzló. Ég get varla verið þarna inni því þá fara hugsanirnar í gang í huga mér og mér líður hræðilega. Þess vegna hef ég oft hugsað að það hlýtur einhver annar að vera í sömu sporum. Núna hef ég komist að því að vinkonu minni líður næstum því eins og það hljóta að vera aðrar stelpur sem eiga í sömu vandræðum. Og auðvitað strákar líka. Það er þessi ímynd sem að skólinn hefur, að allir séu svo fallegir og flottir, sem er að fara með alla. Það er auðvitað ósköp venjulegt fólk þarna inn á milli sem spáir jafn mikið í útlitinu og ég og þú, en svo koma þessar stelpur sem eru eins og klipptar út úr tískutímaritum. Í Guðs bænum, er nauðsynlegt að vera í háhæluðum skóm í skólanum? Auk þess að vera svona gríðarlega öfgakenndar í útliti þá eru þær mjög margar hræðilega vondar manneskjur og horfa á þá sem ekki eru nógu flottir fyrir skólann eins og fólkið sé einhverjar geimverur frá Mars. Þetta jaðar við andlegt ofbeldi og rosalega fer þetta í taugarnar á mér.

Andrúmsloftið sem ríkir þarna í skólanum er hræðilegt. Það lítur allt út fyrir að vera svo flott og frábært í Verzló en þegar betur er að gáð þá er þetta bara svona. Og við erum að tala um að ég var ekki með neina fordóma fyrirfram um skólann, þetta er einungis mitt álit eftir að hafa kynnst því hvernig þessi skóli er í raun og veru. Ég hata þennan skóla fyrir að gera vinkonu minni þetta. Ég geri allt sem ég get til að hjálpa henni en hún fer auðvitað á hverjum degi í skólann og verður verri og verri út af því, svo að mér miðar lítið áfram. Eins og ég sagði þá er hún hætt að borða og er orðin hættulega mjó. Frændi hennar sem er anorexíusjúklingur er meira að segja byrjaður að hafa áhyggjur af henni því að hún er komin með öll einkennin sem að stelpur fá þegar þær fá anorexíu. Hann getur samt sjálfum sér um kennt að vissu leyti þar sem að það var hann sem setti þennan svakalega þrýsting á hana að koma í Verzló, en hann stundar einmitt nám þar. Er eitthvað samband hér á milli, Verzló og anorexía? Og er einhver tilviljun að það er alltaf lang erfiðast að fá ræstingarfólk í þennan skóla af öllum skólum á landinu þar sem að það er svo mikið ælt á klósettunum þarna? Er einhver tilviljun að Verzunarskóli Íslands er skipaður rosalegu góðu teymi af námsráðgjöfum sem eru alltaf fullbókaðir því eftirsóknin eftir hjálp við vandamálum er svo mikil meðal nemenda? Er einhver tilviljun að Verzunarskóli Íslands hafi rosalega góð sambönd við Barna- og unglingageðdeild Landspítalans? Árlega sendir skólinn alltof stóran hluta af nemendum sínum í viðtöl eða innlagningu þangað. Þetta eru engar tilviljanir!

Ég vil einnig koma aðeins inn á það að ég þekki aðeins fleira fólk þarna í Verzló heldur en bara þessa vinkonu mína. Það sem mér finnst einkenna nemendur þarna er hroki og svokallaður egóismi. Það er ekki inni í myndinni hjá þeim að viðurkenna að einhver annar skóli gæti hugsanlega verið betri en þeirra eigin. Þó ég myndi skella tölfræði um námsárangur á borð fyrir framan Verzling þá myndi hann frekar tuða um að það sé verið að reyna að láta Verzló líta illa út í staðinn fyrir að viðurkenna að skólinn er ekki bestur. Svo vil ég líka benda á að á nemendafélagssíðunni þeirra þá er auðvitað vart talað um annað en að Verzló hafi unnið þetta og Verzló sé svo þvílíkt töff og Verzlingar séu bestir, og er svo sem ekkert að því. Ég meina, hvaða skóli gerir það ekki? En það sem að Verzló gerir EKKI sem að aðrir skólar gera í flestum tilvikum, er að þeir minnast aldrei á það á þessari blessuðu síðu sinni þegar að Verzló tapar einhverju, t.d. eins og í Gettu Betur. Það er aldrei talað um það. Þögnin er nóg. Það vita allir Verzlingar það þegar að skólinn tapar í einhverri keppni og þá þarf ekkert að tala um það. Er það nú tapsárni. MH tapaði fyrir MR í Gettu Betur, og hvað með það? Auðvitað hefði ég viljað sjá minn skóla taka MR-ingana en ég verð að viðurkenna að þeir eru betri en MH-ingar í þessum leik og eiginlega bara bestir af öllum skólum. Þetta er list sem að Verzlingar ættu að læra, að viðurkenna töp sín og mistök.

En með þessu vil ég bara fræða umheiminn um hvernig Verzló í raun og veru er og ég vona að ég hafi gefið ykkur nýtt sjónarhorn á skólann. Og af einskærri góðmennsku minni vil ég vara þá við sem hafa hug á að stunda nám í Verzló. Ekki fara þangað nema þið séuð viss á því að þið séuð virkilega nógu sterkar manneskjur andlega til að höndla pressuna sem ég er búin að vera að tala um. Sumir Verzlingar gætu núna brugðist við og sagt að þeir hafi ekki hugmynd um hvað ég er að tala um. Til hamingju þið Verzlingar sem vitið það ekki, það þýðir einfaldlega að þið eruð nógu sterk andlega til að finna ekki fyrir þessu sem að veikari manneskjur gera.

Ég kenni Verzló að mestu leiti um allt það hvernig ástatt er fyrir vinkonu minni núna og ég fæ ekkert samviskubit við það. Takk fyrir að skemma þessi svokölluðu bestu ár lífs manns fyrir henni! Ég hata Verzló! Ég hata fokkins Verzló!