Oooooooonei, ekki komumst við áfram í þetta skiptið. Greinilegt að dómarar
Skrekks séu orðnir leiðir á okkur Hagskælingum.

Ég mætti ásamt hópnum niðrí skóla kl. 12:45 til að hafa mig til áður en við færum
í rútuna nokkrum klukkutímum eftir. Þar skemmtum við okkur með allskonar
fíflalátum og öðru skemmtilegu þar til við þurftum að taka rútu í Borgarleikhúsið.
Það myndaðist skemmtileg stemning. Tekinn var upp kassagítar og sungum við
klassísk sveitalög á borð við Hit me baby one more time sem Britney spears gerði
frægt, og Stubbalagið. Þegar lengra leið á daginn fórum við að syngja nokkur vel
valin KFUM og K lög eins og “Daginn í dag gerði drottinn Guð” og “Ég þekki
Jésú…” í bland við nokkur skemmtileg rokklög.

Farið var útí Kringlu og gæddum við okkur á subway samlokum í boði Hagaskóla.
Ég og nokkrir aðrir fengum okkur Boozt þar sem stelpurnar vildu ekki að neinn
drykki gos. Það var í eina skiptið sem við fórum útúr Borgarleikhúsinu.

Rennslið tókst ágætlega upp hjá okkur, þó voru vankantar, aðallega þegar kom að
tónlistinni. Málið er að vér hljóðfæraleikarar þurfum að spila eftir tónlist á
geisladiski. Við vorum margoft búin að tala við sviðsmenn um að hækka í
monitorunum svo við gætum heyrt eitthvað í því sem við vorum að spila svo
okkur mistækist síður. Hvorki þá né þegar við kepptum var ósk okkar uppfyllt. Í
bæði skiptin ruglaðist takturinn.

Spennan sem myndaðist þegar við þurftum að sýna þetta í kepnninni sjálfri var
ólýsanleg. Streitan var farin að sækja í okkur sem héldum að við hefðum þetta allt
á hreinu. Ég var í þeim hópi. Þetta hvarf þó þegar við byrjuðum atriðið. Ég hafði
svo gaman að þessu að ég held að ég geti litið aftur til þessa dags og sagt að ef
ekki hefði verið útaf Skrekk, þá ætti ég erfiðara með að sýna listir mínar á sviði.
Fagnaðaröskrin frá skólafélögum okkar yfirgnæfðu allt saman. Enginn annar skóli
gat verið hálfdrættingur þeirra varðandi öll ópin.

Eftir að við vorum búin að sýna atriðið tók við gamla góða stemningin. Krristilegu
sumarbúðalögin voru sungin, Britney Spears var stæluð og snillingarnir Bob Dylan
og Megas hafðir í heiðri. Ekki leið þó á löngu þar til við fengum þær fregnir að
áður en úrslitin yrðu kveðin upp yrðum við að hópa okkur saman eftir skólum og
mynda stóran sveig uppi á sviðinu, þar sem við áttum að syngja saman lagið
“Draumur um Nínu”. Ég og Ari Bragi [trompetleikari hópsins] tókum upp á því að
helga þessu lagi eins dansarans sem ber nafnið Eggert og fjallaði þessi
betrumbætta úgáfa um allar þær leiðir sem við gætum drepið hann. Allt auðvitað
sagt í saklausu gríni.

Úrslitin voru kveðin upp.

Viðeigandi grátur frá stelpum okkar hóps glumdu í rútunni á leiðinni í skólann.
Samsæriskenningar voru mallandi og komust þær að mismunandi niðurstöðum:
Hagaskóli var búinn að vinna svo oft að við mættum ekki vinna meira í bili, mútur,
dómararnir hötuðu okkur, kynnirinn hafi lesið vitlaust á miðann…………ekkert var
langsótt fyrir þeim.

Það sem stóð mest uppúr (ef frá er talin sú upplifun að spila á sviði þar sem allir
fagna líkt og eftir stríðslok) var mórallinn eftir úrslitin. Ekki endilega hjá okkur,
við höguðum okkur ágætlega. En hinir hóparnir voru skammarlega barnalegir,
sumir þeirra. Ég heyrði frasa eins og:

“Yay, við unnum! Og það sem betra er, Hagaskóli vann ekki!!!”

“Við rústuðum Hagaskóla”

Er fólk alveg hætt að hugsa útí það að þetta gengur ekki út á þetta? Var enginn að
skemmta sér við að sýna sitt atriði? Skiptir meira máli að komast lengra en
eitthvert atriði sem manni finnst innst inni betra en sitt eigið (ég er ekki að
alhæfa, ég vil bara benda á að sumir gætu hugsað svona)?

Annars þá er ég sáttur, Ég vil óska Engjaskóla og Ölduselsskóla til hamingju með
árangurinn.