Í dag var var opnaður af menntamálaráðherra, Birni Bjarnasyni með
hátíðlegri athöfn vefurinn www.mbl.is/utskolar. Á vefnum má finna
fréttir frá þróunarskólunum sex, Árbæjarskóla, Barnaskólanum á
Eyrarbakka og Stokkseyri, Varmalandsskóla í Borgarfirði,
Fjölbrautarskólanum Ármúla, Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi
og Menntaskólanum á Akureyri.

Athöfnin fór fram í Árbæjarskóla að viðstöddum menntamálaráðherra,
fulltrúum frá menntamálaráðuneytinu og Morgunblaðinu og gestum frá
hinum þróunarskólunum. Opnunin gekk mjög vel en að því loknu var
öllum gestum, og þeim nemendum skólans er viðstaddir voru, boðið
meðal annars upp á girnilegar rjómabollur sem nemendur Árbæjarskóla
sáu um að baka.

Vefurinn, sem hýstur er af Morgunblaðinu, er fréttavefur nemenda í
skólunum. Þar verða fréttir frá skólastarfi þróunarskólanna.
Fréttirnar verða samdar af nemendum og er stefnan sú að skólarnir
skiptist á að senda inn eina nýja frétt á dag. Auk þess að hýsa
vefinn hefur Morgunblaðið gert samning við skólana um aðgang þeirra
að gagnasafni sínu út skólaárið. Tengiliður verkefnisins við
Morgunblaðið er Ingvar Hjálmarson.

Mjög góð aðstaða er til tölvukennslu í Árbæjarskóla. Nemendur
skólans eru um það bil 830 og í skólanum eru milli 80 og 90 tölvur,
þar af eitt fartölvuver með 15 fartölvum og tvö tölvuver í
kennslustofum. Meðan á athöfninni stóð var einnig hægt að sjá
nemendur vinna að ýmsum verkefnum í fartölvuverinu.