Ég auglýsi eftir fólki sem hefur fengið inngöngu í háskóla Íslands án þess að hafa lokið meira en 100 einingum í menntaskóla. Málið er að í reglum fyrir umsækjendur um nám í háskóla Íslands kemur fram að sækja megi um undanþágu frá stúdentsprófi til náms í skólanum sé maður kominn yfir 25 ára aldur.

Ég fór og hitti námsráðgjafa uppi í háskóla fyrir um 2 mánuðum og þar spurði ég út í þetta og gerði grein fyrir minni stöðu. Ég hef aðeins lokið um helmingi stúdentsprófs en er kominn yfir 25 ára aldur. Ég fékk þær upplýsingar að ég gæti sótt um undanþáguna sem ég og gerði enda sérstakur frestur til þess. Mér var hins vegar ekki tjáð hjá ráðgjafa að ég þyrfti að hafa fleira í huga sem gæti haft áhrif á umsókn mína um nám í þeirri deild sem ég hyggst sækja um í og í dag fékk ég svo loks svar frá skólanum varðandi undanþágu-umsóknina.

Háskólinn hafnaði umsókninni á þeim grundvelli að ég hefði ekki nægilega undirbúningsmenntun. Í bréfinu segir að “í umsögn deildarinnar um umsókn mína komi fram að deildin mæli alla jafna ekki með undanþágu frá stúdentsprófi nema að loknu u.þ.b. 3 ára námi að loknum grunnskóla eða 100 einingum og þar af sé stúdentsprófi lokið í íslensku, ensku og stærðfræði.”

Þetta hef ég aldrei heyrt minnst á áður og ekki var mér gerð grein fyrir þessu þegar ég falaðist eftir upplýsingunum frá námsrágjöf skólans á fyrrgreindum tíma. Þar að auki hef ég margoft heyrt dæmi þess að fólk hafi farið inn á þeim forsendum sem ég sækist eftir. Í bréfinu er mér gefinn kostur á að kæra þessa ákvörðun til háskólaráðs sem er einmitt næsta skref mitt því ég vil einfaldlega fá að sitja við sama borð og aðrir og njóta sömu réttinda.

Ef ég get lagt fram örfá nöfn fólks sem hefur fengið inngöngu í háskólann á þessum forsendum sem skólinn er að synja mér um í dag yrði ég strax bjartsýnari á að fá þessum úrskurði hnekkt og yrði mjög þakklátur ef einhver sem hefur staðið í þessum sporum hefði samband við mig eða gæti a.m.k. ráðlagt mér með næsta skref í málinu. Netfangið er hanssteinar@yahoo.com