Nú þegar að sumarið er komið fara á kreik óánægjuraddir um að búið sé að lengja skólaárið sem krefjast þess að þessi lenging verði tekin til baka. Ég er hins vegar alfarið á móti því að skólaárið verði stytt á ný, og helst væri ég til í að sjá það lengt enn meira.

Með því að lengja skólaárið þarf að sjálfsögðu líka að aðlaga námsskránna að lengra skólaári. Mér skilst að það sem gert er á þessum aukadögum sé ekki neitt, og þá er þessi lenging unnin fyrir gýg. Hins vegar ef að sumarfríið yrði stytt niður í tvo mánuði (eða jafnvel einn og hálfan) þá opnast möguleikar sem að fáir hafa minnst á. Þá gætu nemendur klárað stúdentsprófið 18 ára að aldri (en mér finnst að skólaskyldualdurinn eigi að vera átján ár) en ef þetta ætti að verða að möguleika yrði að auka kennsluna í yngri bekkjunum ólíkt því sem nú er. T.d. þegar að ég var í 1. bekk eyddum við nokkrum dögum í að læra litina og mörgum vikum í það að læra stafina (þetta kunni ég áður en ég fór í skólann). Einnig vorum við með bók þar sem að nöfn allra hlutanna í pennaveskinu voru kennd minnir mig. Á sama tíma og börn í Singapúr og Kína farin að leysa flóknar annars stigs jöfnur eru íslenskir jafnaldrar þeirra að læra að skrifa tölurnar og nöfnin á þeim. Með því að kenna meira í yngri bekkjunum (sem síðan skilar sér í efri bekkina) má því með góðu móti klára stúdentspróf 18 ára sem inniheldur sambærilegt nám og 20 ára stúdentsprófið.

En svo kemur það sem ég vildi helst minnast á í þessari grein. Með því að stytta sumarfríið eiga ungmennin að sjálfsögðu minni möguleika á því að fá vinnu sem getur veitt þeim þá fjármuni sem þau þurfa til að lifa veturinn af. En með því að fækka árunum sem þarf til að taka stúdentspróf sparar ríkið gríðarlega fjármuni. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að nota þá fjármuni sem sparast í að greiða nemendum 14 ára og eldri mánaðarlega einhver “laun” fyrir að vera í skóla gegn því að sumarfríið yrði stytt (launin mundu þá hækka með aldrinum) en þetta kerfi er við lýði í Danmörku.
Með þessu móti yrðu að ég tel allir sáttir, menntamálayfirvöld og nemendurnir.

Hvernig takið þið í þessar hugmyndir?