Í gærkvöldi lauk Ræðukeppni skóla í Breiðholti með æsispennandi keppni milli Seljaskóla og Ölduselsskóla.

Staðan fyrir keppnina var spennandi:

Seljaskóli 4,4 stig
Ölduselsskóli 2,4 stig
Fellaskóli 2,2 stig
Breiðholtsskóli 2,0 stig

Fyrir kommuna er stig fyrir sigra liðsins, 2 fyrir hvern sigur, eftir kommuna er stig sem fást fyrir að hafa ræðumann kvöldsins í sínu liði, þau gilda sumsé ef liðin eru jöfn að stigum…

Svona höfðu keppnirnar farið:

Seljaskóli vann Breiðholtsskóla og Fellaskóla.

Ölduselsskóli vann Fellaskóla en tapaði fyrir Breiðholtsskóla þrátt fyrir að hafa haft ræðumann kvöldsins.

Fellaskóli vann Breiðholtsskóla.

Keppni gærkvöldsins var merkileg fyrir mig þar sem ég var að þjálfa lið Ölduselsskóla í fyrsta skipti og þjálfari Seljaskóla var einnig þjálfari minn í Morfís liði FB í ár.

Umræðuefnið var Sælla er að gefa en að þiggja, rök Seljaskóla voru í grófum dráttum þau að þetta væri staðreynd sem lægi fyrir, til þess að vera á móti henni þá þyrftu Ölduselsskóli að sýna fram á að hún ætti aldrei við.

Rök Ölduselsskóla voru í stuttu máli þau að Seljaskóli væri að varpa fram fullyrðingu sem gengi aldrei upp þar sem þetta væri háð aðstæðum, manngerð og persónulegum skoðunum fólks. Og hegðun fólks er frekar þannig að það sé sælla að þiggja þar sem fólk sækist meira í það.

Meðal þess sem mátti sjá í keppninni var geðsjúklingur með samsæriskenningu, ógeðfelldur tjokkó, undirspil Celine Dion My heart will go on í magnþrungnum endi, ræða sem var bara svör og svo mætti Jóakim Aðalönd í fullum skrúða aðeins til að láta Hexíu de Trix ræna af sér happapeningnum í enda ræðu sinnar..

Þegar oddadómari keppninnar (Kári Hólmar Ragnarsson MH) tilkynnti um úrslit var öllum ljóst að til þess að Ölduselsskóli ætti að standa uppi sem sigurvegari þyrftu þau að vinna keppnina og hafa ræðumann kvöldsins í sínu liði. Munurinn var aðeins 21 stig af u.þ.b 5300 sem er ótrúlega lítið og Kári hafði orð á því að þetta væri ein allra besta grunnskólakeppni sem hann hafði séð. Hann tók sér sinn tíma og hélt keppendum og áhorfum lengur við efnið en ég hef nokkurn tíman orðið vitni að.. og þá er mikið sagt.

Þegar fólk var farið að hóta að lemja hann tilkynnti hann að Ölduselsskóli hefði unnið keppnina.

Þá var ljóst að sigurvegarar úr ræðukeppni skóla í Breiðholti yrðu þeir sem hefðu ræðumann kvöldsins úr sínu liði. Það var nokkuð ljóst að það yrði annaðhvort Anna úr Seljaskóla eða Kári úr Ölduselsskóla en þau höfðu bæði orðið ræðumenn kvöldsins í öllum sínum keppnum og voru mjög góð þetta kvöld.

Þá kom í ljós að Anna úr Seljaskóla var ræðumaður kvöldsins, 21 stigi á undan Kára en það þýddi að Seljaskóli vann heildarkeppnina þrátt fyrir að hafa tapað þarna. Anna varð að sama skapi ræðumaður Breiðholts.

Framkvæmd þessarar keppni var góð og gaman að gefa nemendum einhverja grunnskóla færi á þessu. Það væri skemmtilegt ef keppni yrði með stærra sniði næst, kannski fá eitthvað annað hverfi inn í þetta og hafa tvo riðla þar sem sigurlið riðlanna eigast svo við í hreinni úrslitakeppni.

Allir ræðumenn kvöldsins eru á leiðinni í framhaldsskóla að ári og verður gaman að sjá hvort einhverjir þeirra láta að sér kveða í Morfís í framtíðinni. En það væri gaman ef grunnskólaræðukeppnir yrðu aftur að þeirri hefð sem þær voru orðnar.