Ég eins og margir aðrir er búin að vera pirra mig yfir samræmdu prófi í framhaldsskólum og vegna þess að ekki gengur mótmæla listi í skólanum mínum ákvað ég að senda menntamálaráðherranum e-mail og spurja hvern fjandann þetta á að þýða (afsakið orðbragðið). Ég fékk eftirfarandi ræðu tilbaka, ég vona að einhver nenni að lesa þetta og segi hug sinn á þessu.

Ágæta ALS
Vegna fyrirspurna um samræmd stúdentspróf hafa verið teknar saman
upplýsingar sem vonandi verða þér að gagni.
Með kveðju frá menntamálaráðuneytinu
Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra
______________________
Upplýsingar um samræmd stúdentspróf
Nefnd um mótun menntastefnu var skipuð af menntamálaráðherra árið 1992.
Henni var falið að móta nýja menntastefnu og endurskoða gildandi lög um grunn- og framhaldsskóla og vann nefndin m.a. frumvörp til nýrra laga um þessi skólastig. Í tillögum nefndarinnar er lögð áhersla á að komið verði á samræmdu námsmati í íslensku skólakerfi til að unnt sé að leggja hlutlægt og sambærilegt mat á frammistöðu nemenda. Gildandi lög um framhaldsskóla voru samþykkt árið 1996 og er þar ákvæði um samræmd lokapróf úr
framhaldsskólum. Þar segir að stúdetspróf skuli vera samræmd í tilteknum greinum og að ákvæðið skuli koma til framkvæmda á skólaárinu 2003-2004.
Tilgangur samræmdra stúdetsprófa er m.a.
að veita nemendum og framhaldsskólum upplýsingar um námsárangur nemenda og námsstöðu í þeim námsgreinum þar sem haldin eru samræmd stúdentspróf að veita viðtökuskólum upplýsingar um námsstöðu einstakra nemenda að veita fræðsluyfirvöldum upplýsingar um námsstöðu einstakra nemenda.
Gagnrýnt hefur verið að einkunnir úr stúdentsprófi úr framhaldsskólum séu ekki sambærilegar og því er það í raun réttlætismál fyrir nemendur að fá að þreyta samræmd próf. Á þann hátt er mögulegt að leggja hlutlægt mat á frammistöðu þeirra auk þess sem prófin gefa fræðsluyfirvöldum mikilvægar upplýsingar um skólakerfið og almennan námsárangur nemenda. Prófin eru einnig tækifæri fyrir kennara og skóla að meta starf sitt samanborið við aðra og skipuleggja þannig starf sitt frekar. Að lokum skal taka fram að prófin auðvelda viðtökuskólum réttláta inntöku nemenda.
Við undirbúning reglugerðarinnar hafði menntamálaráðuneytið samráð við helstu hagsmunaðila.
Lokað málþing um samræmd stúdentspróf var haldið í maí 2001 þar sem helstu hagsmunaaðilum var boðið. Tekið var tillit til ýmissa athugasemda sem þar komu fram. Fleiri kynningarfundir hafa einnig verið haldnir fyrir skólastjórnendur.
Reglugerðardrög voru send til umsagnar í maí 2002 til KÍ, Félags
framhaldsskóla (skólameistarar og aðrir stjórnendur), samstarfsnefndar háskólastigsins, Félags framhaldsskólanema og Námsmatsstofnunar.
Umsagnir bárust frá öllum nema Félagi framhaldsskólanema og tók
ráðuneytið tillit til ýmissa athugasemda sem fram komu.
Bréf frá ráðuneytinu var sent öllum framhaldsskólum ásamt reglugerðinni í byrjun janúar 2003. Þar kom m.a. fram að prófdagur í íslensku árið 2004 yrði 8. janúar og óskað var eftir því að reglugerðin yrði kynnt nemendum og kennurum.
Námsmatsstofnun mun halda kynningarfundi um samræmdu prófin með öllum framhaldsskólum á landinu og hefjast þessir fundir strax nú á
vormisseri.
Með því að hafa einungis próf í íslensku á árinu 2004 er farið hægt af stað með framkvæmd reglugerðarinnar. Skólum og nemendum er þannig veittur aðlögunartími, auk þess sem reynslu er aflað. Þegar reglugerðin verður komin til fullra framkvæmda í janúar 2005 verða haldin 3 próf: í íslensku, ensku og stærðfræði en um er að ræða lykilgreinar fyrir nám á háskólastigi.
Nemendur velja þá tvær greinar til samræmds stúdentsprófs (en mega taka öll þrjú prófin). Má þannig gera ráð fyrir að nemendur kjósi almennt að þreyta þau tvö próf sem eru í kjarna þeirrar námsbrautar sem þeir stunda nám á. Í framhaldi af þessu má geta þess að nemendur sem útskrifast áður en reglugerðin kemur til fullrar framkvæmdar geta valið sig frá samræmda prófinu í íslensku í janúar 2004. Fyrirvari er í raun 2 ár þar sem nemendur sem ljúka stúdentsprófum vorið 2004 og haustið 2004 þurfa ekki að taka prófið í janúar 2004.
Samræmd stúdentspróf miðast við kjarna í íslensku, ensku og stærðfræði, skv. aðalnámskrá framhaldsskóla, þ.e. 15 eininga kjarna í íslensku á öllum námsbrautum til stúdentsprófs, 15 eininga kjarna í ensku á málabraut og félagsfræðibraut (kjarni í ensku á félagsfræðibraut verður aukinn úr 12 einingum í 15) og 15 eininga kjarna í stærðfræði á náttúrufræðibraut.
Tímasetning prófanna í janúar miðar að því að trufla sem minnst skólastarf þannig að árlegum kennsludögum fækki ekki og hefðbundinn prófatími truflist ekki.
Ráðuneytið hefur ákveðið að fella niður lágmarkseinkunn á samræmdu stúdentsprófi og verður ákvæðið um fall fellt burt.
Námsmatsstofnun mun ekki síðar en í ágúst á þessu ári senda skólum upplýsingar um námsþætti í íslenskuprófinu í janúar 2004 og jafnframt sýnispróf.
Bent er á upplýsingar um samræmd stúdentspróf á vef
menntamálaráðuneytisins: www.menntamalaraduneyti.is"

Eftir að hafa lagt það á mig að lesa þetta þá hef ég orðið minna á móti þessum samræmduprófum. Ef ég skil þetta rétt þá þarf maður bara að taka tvö próf og þá þau próf sem eru aðalfagið á þeirri braut sem maður er á og prófað verður bara úr því sem er grunneiningafjöldi í tilteknu fagi. Það er ekki hægt að falla á þeim, heldur er þetta til að Háskólar geti fengið réttari sjón af stöðu nemenda.
Endilega látið mig vita ef ég hef misskilið þetta.
Joey: Oh! Sorry… did I get you?