Jæja ágæta framhaldsskólafólk, nú er tími til að vakna. Menntamálaráðuneytið er búið að ákveða að nú skuli allir þeir sem ætla að útskrifast úr menntaskóla taka samræmd próf. Upphaflega var áætlað að leggja þau fyrir nemendur sem útskrifast 2006, en svo var sú ákvörðun tekin að byrja strax á næsta ári og prófa nemendur í íslensku. Auk þess verður boðið upp á val árið 2005: Stærðfræði eða ensku. Við höldum að þetta muni hafa slæm áhrif bæði á okkur sem erum í áfangakerfi og eins þá sem eru í bekkjarkerfi. Hér eru nokkrar ástæður:

Menntamálaráðuneytið er enn ekki búið að ákveða nákvæmlega hvað verður til prófs. Samt sem áður er fyrsti prófdagur ákveðinn: 8. janúar 2004. Skólameistarar vita lítið um fyrirkomulagið, og kennarar enn minna. Flestir þeirra nemenda sem við höfum talað við og þurfa að taka umrætt próf höfðu ekkert heyrt af því. Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Þessi stöðlun prófa gæti valdið því að menntaskólarnir verða keimlíkari, sem skerðir í raun valfrelsi þeirra sem í þá fara. Viljum við að menntaskólarnir fari sömu leið og gagnfræðaskólarnir gömlu? Er betra að hafa þá alla eins? Ef allir verða að læra nákvæmlega það sama í íslensku, ensku og stærðfræði, því þá að velja braut? Því þá að velja skóla? Menntaskólar gætu smám saman misst sérstöðu sína. Að velja framhaldsskóla myndi ekki snúast lengur um nám og hvernig það hentar einstaklingnum og framtíðaráformum hans. Það gæti farið að snúast enn meir um félagslíf, vinina og hvaða skóli er næstur heimilinu. Menntamálaráðuneytið gæti alveg eins sett á hverfaskiptingu því einn skóli væri ekkert hentugri þörfum einstaklingsins en annar.
Það er ekki hægt að steypa alla í sama mót. Það sem hentar mér hentar þér kannski alls ekki. Þess vegna bjóðum við upp á mismunandi námsleiðir og mismundandi brautir. Þess vegna eru skólarnir okkar eins ólíkir og þeir eru.

Annar galli á þessu er próftíminn. Prófað verður í janúar. Þeir nemendur sem af einhverjum ástæðum eiga eftir að taka íslensku (eða hin fögin þegar að þeim kemur) á síðustu önninni sinni (t.d. MR-ingar) eru því í raun prófuð í ólesnu námsefni. Fjölbrautarnemar sem vilja útskrifast um jól taka þá prófið í janúar tveim önnum fyrir útskrift. Eitthvað er bogið við þetta.

Skyndiákvörðunin að leggja próf fyrir á næsta ári kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir okkur sem erum búin að vera í amk. 2 ár í menntó. Okkur var ekki gefið tækifæri til þess að haga námi okkar eftir þessu (tæknilega séð vitum við ekkert af þessu ennþá). Fjölbrautarfólk er löngu búið að selja bækunar og týna glósunum síðan í íslensku 103.

Nú vil ég hvertja fólk í öðrum menntaskólum til að búa til undirskriftalista, skrifa menntamálaráðuneytinu, halda umræðufundi, í stuttu máli GERA EITTHVAÐ. Við getum ekki bara tekið þessu þegjandi og hljóðalaust. Við viljum upplýsingar, við viljum undirbúning, og við viljum að tekið sé tillit til okkar. Nú þegar eru komnar 280 undirskriftir hér í MH og söfnunin heldur áfram.