Menn muna væntanlega eftir baksíðupistlinum um Skjálfta í Fréttablaðinu, ég sendi eftirfarandi til Kristínar Helgu:

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Öðruvísi mér áður brá.

Las í morgun pistil þinn í Fréttablaðinu, yfirleitt finnst mér þeir nú í betri kantinum hjá þér en nú féllust mér hendur við lesturinn.

Þú vitnar í rannsóknir sem ekki eru til, margar rannsóknir hafa byrjað út frá útgangspunktinum að tengsl væru milli ofbeldis í tölvuleikjum og ofbeldishneigð þeirra sem þá stunda. ENGIN hefur getað sýnt fram á það með vísindalegum niðurstöðum að svo væri.

Stór rökvilla hjá þér er að bera saman ofbeldi í kvikmyndum og tölvuleikjum, af hverju var bókum ekki bætt við þessa upptalningu? Þetta eru nefnilega allt gjörólíkir miðlar, sjónvarpið miðlar í eina átt, bókin gerir það líka en gefur tækifæri til íhugunar, tölvuleikir aftur á móti eru gagnvirkir, það sem þú gerir hefur áhrif á atburðarrásina, þú þarft að sjá fyrir gjörðir annara og meta stöðuna, alveg eins og í íþróttum.

Sjálfur hef ég spilað misblóðuga tölvuleiki í tæp tuttugu ár núna. Ég á litla bræður og frændur sem að alast núna upp við það að spila misblóðuga tölvuleiki í undraheimum og soraheimum, með svakalegum blóðslettum eða ekki mannsmorði í nánd. Ég hef engar áhyggjur af því að þeir muni drepa mann og annan í raun og veru, þeir vita vel að þetta er annar heimur með öðruvísi reglum.

Samkvæmt vel rannsökuðum og almennt viðurkenndum kenningum Piagets gera krakkar yfir 6 ára aldri greinarmun á veruleika og ímyndun. Sjálfur myndi ég þó ekki láta börn mín spila *drápsleikina* fyrr en þau hafa náð 10 ára aldri eða svo, það er þó auðvitað einstaklingsbundið.

Leikurinn Counter-Strike er fyrirferðarmestur á þessum Skjálfamótum sem þú finnur greinilega talsvert til foráttu. Það vill svo til að þessi ungmenni sem þarna voru mætt voru í liðum, liðin þurfa að hafa skipulag og samvinnu til þess að ná árangri, markmiðið er ekki að drepa alla í hinu liðinu heldur að ná takmarki sínu (planta sprengju/aftengja sprengju, bjarga gíslum/halda gíslum) án þess að drepast sjálfur. Í taktíkinni getur falist að einn fórni sér fyrir heildina, sé notaður til að narra óvinina frá þeim stað þar sem félagar hans ætla að athafna sig. Þeir sem eru eigingjarnir læra fljótt að það er ekki vænlegt til árangurs. Vinnustaðir framtíðarinnar munu væntanlega fá talsverðan mannauðsbónus út úr kynslóð sem lærir þetta á unga aldri.

Enn fremur vill svo til að þeir sem spila tölvuleiki eru líklega með þeim síðustu sem myndu verða handrukkarar, þeir sem að eru framtíðarhandrukkarar sjá tölvuleiki fyrir sér sem fáránlegt athæfi, handrukkararnir hanga í sjoppum og láta sér leiðast, þeir eru að hræða gamla fólkið og ergja annað fólk.

Margir félagslega einangraðir krakkar hafa eignast vini í gegnum tölvuleikina, vini og félaga sem þeir myndu ekki kynnast ella. Þarna geta þau sýnt sínar bestu hliðar (hittin, góðir félagar, vandvirkir meðspilarar og fleira).

Sumir eru sneggri en aðrir, það má hins vegar vinna það upp með meiri þjálfun eða meiri kænsku. Svo ég taki Counter-Strike sem dæmi þá eru það sjaldnast liðin með bestu skytturnar sem vinna mótin, það eru liðin með besta skipulagið sem gera það.

Tölvuleikjasamfélagið er lifandi samfélag, ef þú ferð út af sporinu þá er þér gert það ljóst og gefið tækifæri, eftir ítrekuð brot áttu það á hættu að fá hvergi aðgang á íslenskum leikjaþjónum til að athafna þig þar, í raun settur í útlegð á erlenda leikjaþjóna. Þú hefur verið gerður útlægur fyrir sakir þínar (sem geta verið til að mynda áreiti, dónaskapur, hótanir, svindl og viðlíka). Yfir tölvuleikjasamfélaginu vaka margir eldri og reyndari leikmenn sem taka grislingana undir sinn verndarvæng og kenna þeim siði og venjur samfélagsins. Ég hef séð marga grislinga braggast vel undir þessari leiðsögn, fyrir suma unga drengi getur þetta oft á tíðum jafnvel verið einhvers konar ígildi föðurímyndar, nokkuð sem að mörg börn vantar. Í stað þess að fara með fullorðnu mönnunum að veiða vísunda eða elta rollur þá ferðu með fullorðnu mönnunum í leiðangur til að sigra annan hóp, þetta er upphefð og reynsla sem telur.

Þessir eldri leikmenn eru sjálfir ekki argandi barnaperrar eins og áhyggjufullar húsmæður í Vesturbæ gætu talið. Þetta eru menn sem hafa gaman af því að spreyta sig á móti félögum og ókunnugum með miðli sem gerir ekki þær kröfur til þeirra að þeir séu 2 metra menn (eins og í körfubolta), snöggir (frjálsar), 120 kíló af vöðvum (lyftingar) og svo framvegis og framvegis. Það sem þú hefur þér til framdráttar ert þú. Þessir menn eru á aldur við mig sjálfan, menn um þrítugt sem að upplifðu fyrstu tölvubyltinguna á heimilinum, við áttum Sinclair Spectrum, Commodore, Amstrad, Apple IIe og allar hinar sem vekja upp jafn angurværar minningar meðal okkar og leggur og skel gera hjá eldra fólki. Líkingin við legg og skel er ekki tilviljun, fátt var um leiki á mörgum þeirra og við pattarnir skrifuðum okkar fyrstu forrit á þessum litlu greyjum sem myndu ekki nægja til að keyra eitt einasta forrit í dag sem flestir nota. Forritin voru einföld (spurningaleikir voru vinsælir) en kröfðust hugmyndaauðgi og úrræðasemi.

Sjálfur hef ég verið í hlutverki svona eldri spilara, við vinnufélagarnir lékum um árabil útgáfu af Half-Life (Counter-Strike tilheyrir Half-Life) sem heitir Team Fortress. Við stofnuðum okkar klan (félagslið), við æfðum saman og við lékum við önnur klön, innlend sem erlend. Við tókum þátt í viðamiklum keppnum við evrópsk og amerísk lið, allt frá okkar eigin sætum. Við þurftum ekki flugvél undir rassinn til að geta att kappi við bestu leikmenn Evrópu og Ameríku. Við tókum við yngri leikmönnum í lið okkar, við sáum þá þroskast og dafna og teljum að föðurlegar / stóra-bróðurlegar ráðleggingar okkar hafi haft eitthvað þar um að segja. Við útskýrðum fyrir þeim að þó að maður tapi þýði það ekki að allt sé ónýtt og það eigi að hætta, eða að það eigi að kenna öðrum í liðinu um. Við sýndum þeim hvernig þetta virkar, álíka og lífið sjálft oft. Þú getur átt þinn besta leik og samt getur liðið þitt tapað, þú getur gert stórfelld mistök en samt vinnur liðið því að aðrir náðu að vega þig upp.

Litlir strákar sem rifu kjaft við allt og alla urðu að leikmönnum sem virtu reglur og voru kurteisir, í Team Fortress var nefnilega mikil áhersla á kurteisi (mun meiri en hefur sést í flestum öðrum skotleikjum) og leikmönnum var gerð grein fyrir því að brot á reglunum varðaði við brottvísun.

Svo ég komi að enn einum punkti sem að stakk mig í grein þinni þá þýðir það að spila tölvuleiki ekki að allt annað sé gefið á bátinn. Margir góðir leikmenn iðka íþróttir, hátt hlutfall þeirra eru góðir námsmenn, þarna má finna skáta og forseta nemendafélaga sem og þá sem skólakerfið hefur ekki náð til. Tölvuleikirnir eru enn eitt áhugamálið, ekki eina áhugamálið. Vissulega eru til einstaklingar sem að verða nærri því fíklar, en nóg er til af fólki með bíladellu, fugladellu og fleiru. Frekar vildi ég sjá barn í tölvuleik en æðandi um á skellinöðru.

Erlendis eru komnar fram tölvuleikjastjörnur sem margir telja engu síðri en fótboltahetjur eða körfuboltahetjur. Þetta eru menn sem hafa það að atvinnu að spila tölvuleiki, beinar útsendingar eru frá atburðunum (Suður-Kóreumenn eru gríðarlega öflugir með beinar útsendingar frá bæði skotleikjum og öðrum leikjum) og tilþrifin hrífa flesta. Þetta er engu minni íþrótt en flestar aðrar.

Kannski veitir þessi litli pistlingur minn þér einhverja innsýn í heim sem þú veist ekkert um miðað við pistilinn í dag, ef þú lest þetta með lokuðum huga þá get ég því miður ekki hjálpað þér við að sjá nýja heima í réttu ljósi, annars býð ég þig velkominn í undraheim engu minni en kom úr penna Tolkien og Rowling.
Summum ius summa inuria