Menningamót, ströndin og tiltekt Í gær hófst dagurinn á póstum tengdum mismunandi menningaheimum. Ég fékk þemað tungumál. Ég byrjaði á því að læra smá kínverskt letur og meðal annars að skrifa 1-10, kona, tré, skógur og nafnið mitt. Það var ágætt en svo gat ég ekki komist í tælensku og þýsku af ákveðnum ástæðum.

Eftir hádegi fórum við á ströndina í dagskrárliðinn “Face the waves”. Ég byrjaði á því að fara út á 16 manna árabát sem kallast festival boat. Mjög langur bátur með miklu skrauti framan og aftan.

Eftir bátana fórum við svo í flekagerð. Nafnið er samt villandi þar sem við gerðum engan fleka. Við fengum fleka og þurftum að sigla ákveðið langt út á honum. Við vorum fyrstir að komast að þessu marki og sigldum svo í land.

Í gærkvöldi buðu Tælendingarnir á torginu öllum í matarveislu. Þeir lofuðu að hafa matinn mildan en stóðu ekki alveg við það samt. Maturinn var bragðgóður en frekar sterkur, kannski of sterkur fyrir mig.

Eftir matinn fór ég á röltið um svæðið og spjallaði við nokkra Ítali, fékk breskt te (sem var vont), spjallaði við Belga og komst að því að svissneskt súkkulaði er betra en belgískt.

Í dag er svo bara tiltekt og chill. Klukkan er 11 núna og ég þarf að taka dótið mitt til og svo höfum við strandartíma eftir hádegi. Í kvöld verða svo slitin og klukkan 3 í nótt er okkar brottfarartími.

Ég veit ekki hvernig aðstaðan á hótelinu verður í sambandi við netið en ég mun reyna að skrifa eitthvað inn dagana sem við verðum í Bangkok.

Ef ég kemst ekkert á netið í Bangkok vil ég bara þakka ykkur fyrir lesturinn. Það er gaman að vita að fólk les greinarnar mínar og hefur áhuga á því sem við erum að gera hérna.

Takk fyrir,
Arnar Ágústsson