Áramótagleði Þá er áramótagleðin búin, bæði í gærkvöldi og klukkan 7 í morgun (miðnætti heima). Ég hef alltaf upplifað áramótin í fjölskylduboðum svo mér fannst nokkuð skrítið að telja niður með 35 þúsund öðrum skátum hérna.

Áramótagleðin hófst strax um miðjan daginn hjá okkur þegar við röltum um svæðið okkar og smökkuðum þjóðarrétti annarra þjóða á torginu okkar. Við buðum upp á íslenska Toro kjötsúpu, harðfisk, Góu karamellur og Opal brjóstsykur.

Eftir smökkunina var svo haldið fótboltamót á torginu okkar og lentu íslensku víkingarnir í þriðja sæti eftir tap gegn heyrnarlausum Tælendingum. En það er í lagi því þetta mót var aðeins til að hafa gaman af. Íslenski hópurinn smitaði mjög út frá sér með leikgleði og öflugum stuðningshóp.

Áramótagleðin hélt svo áfram á torginu fram eftir degi þar sem nokkrar þjóðir sýndu þjóðdansa frá sínum heimahögum. Svo sátu allir á torginu saman og átu flugvélamat.

Í dag er frídagur og hefur hann verið mjög rólegur. Við fórum á ströndina klukkan 7 í morgun til þess að fagna áramótunum heima á Fróni. Eftir 9 fór hópurinn að tínast inn í tjaldbúð og þeir síðustu komu aftur um 12 leytið.

Núna er ekkert að gerast, fólk ýmist slappar af í tjaldbúðinnu, ofurmarkaðnum eða röltir um markaðinn hérna sem er fáránlega ódýr. =)

Ég óska ykkur skátum sem og landsmönnum öllum farsældar á komandi ári um leið og ég þakka fyrir það liðna.

Hvernig var skaupið?

Með kveðju frá Tælandi,
Arnar Ágústsson