Jæja þá erum við komin á mótssvæðið og ein nótt búin hérna. Ferðin hófst í Hraunbyrgi annan jóladag og var tekið flug frá Keflavík til Heathrow í London.

Frá London flugum við mjög skemmtilegt flug til Kuala Lumpur í Malasíu. Flugið tók “aðeins” tæpa 12 tíma en það var hægt að gera sér ýmislegt til dundurs. Í vélinni voru tölvuspil, mismunandi sjónvarpsrásir og slatti af utvarpsstöðvum.

Við gistum eina nótt á flugvallarhóteli í Kuala Lumpur og var það kærkominn svefn eftir að hafa verið meira og minna vakandi í rúman sólarhring. Klukkan 6 morguninn eftir vorum við svo vakin og brunuðum út á flugvöll til að ná flugi til Bangkok. Á flugvellinum gátum við farið smá í fríhöfnina þar og verslað. Verðið var nokkuð svipað og heima á flestum rafmagnstækjum og svoleiðis dóti.

Flugið til Bangkok tók 2 klukkutíma og þegar við komum í flugstöðina fengum við frábærar móttökur. Við fengum danssýningu og allir voru mjög vinsamlegir. Svo var tekin rúta á mótssvæðið og fengum við að sitja í henni í svona 3-4 klukkutíma.

Á mótssvæðinu var 30 stiga hiti og steikjandi sól. Lítill tími gafst til þess að éta þar sem við þurftum að drífa okkur á mótssetninguna. Setningarathöfnin hófst svo tveimur klukkustundum eftir að við komum á svæðið.

Eftir eina nótt á svæðinu get ég fullvissað ykkur um eitt. Að sofa í tjaldi í 20 stiga hita er ekkert grín. Það er alger viðbjóður að vakna sveittur eftir að hafa vaknað á hálftíma fresti og þurfa að fara út í svipaðan hita.

Í dag fórum við í “Community Service” þar sem við heimsóttum skóla víðsvegar um Bangkok og sáum um ýmis viðvik. Ég var sendur ásamt 8 öðrum í yfirstéttarskóla og við þurftum að leggja gangstétt fyrir þá. Það var töluvert púl en við þurftum samt bara að vinna í svona klukkutíma. Við slöppuðum svo af restina af deginum með skólakrökkunum og spiluðum meðal annars fótbolta og blak við þá.

Asíubúarnir eru alveg óðir í það að taka myndir af Íslendingum eða sér og Íslendingum svo lítill friður gefst þegar við löbbum um svæðið í hópum.

Ég reyni að komast inn á morgun og segja frá atburðum morgundagsins.

Með kveðju frá enda veraldar,
Arnar Ágústsson, Skjöldungum