Skátamúrarar Sæl, Hér birtist grein sem var upphaflega á bloggsíðunni arnor.blog.com Þar má sjá greinina myndskreytta:

Umfjöllunarefnið að þessu sinni er eitt mitt stærsta áhugamál, skátar, en verið þó viðbúin nýju sjónarhorni á það efni, því í raun var það áhugi minn á sagnfræði og bókmenntum sem varð kveikjan að þessari grein, fremur en skátastarfið. Ég vil byrja á því að taka fram að ég er á engan hátt móðursjúkur, fullur af samsæriskenningum, né gefinn fyrir dulspeki og annað slíkt þvaður. Grein þessi fjallar einungis um umdeilt (líklega óþarflega umdeilt) félag sem heldur sinni starfsemi leyndri, annað félag sem er ekki svo leynilegt og áhugaverð tengsl þar á milli.

Nýlega las ég nýjustu bók Dan Brown, Týnda táknið (e. The Lost Symbol). Þar er á ferð ágætis spennusaga, sem ég mæli með fyrir alla spennufíkla og samsæriskenningasmiði. Líkt og allar bækur Dan Brown er hún sveipuð dulúð og óraunhæfum samsæriskenningum sem látnar eru líta raunverulega út en ber að taka með miklum fyrirvara. Tvennt í bókinni virtist þó óhugnalega raunverulegt og vakti forvitni mína og undrun. Í henni notar Dan Brown tvö tákn úr skátafræðum og tengir þau sterkum böndum við byggingarlist Washington borgar og Frímúrararegluna. Táknin eru Punkthringurinn og rósarkrossdulmálið:

Punkthringurinn er víðfrægt tákn í mannkynssögunni. Hann hefur meðal annars táknað gull í alkemistafræðum, sólina hjá fjölmörgum menningarheimum, auga guðs og jafnvægi góðs og ills(1). Í Týnda tákninu er hringurinn látinn vísa til gullgerðar.

Í Scouting for Boys bjó Baden-Powell til sporrakningarkerfi ætlað skátum. Í því kerfi lét hann punkthringinn tákna leiðarenda. Orðrétt táknaði hann: “I have gone home.”(4) Táknið var rist í legstein Baden-Powells sem tákn um það að nú væri hann loks kominn heim til guðs eftir langa veru að heiman hér á jörð. Margir skátar hafa apað efir honum og látið útbúa samskonar legstein.

Þegar kemur að frímúrarafræðum eru menn ekki á eitt sáttir um hvað punkthringurinn táknar. Þrjár heimildir mínar gefa allar mismunandi skýringar: a)Táknið á að minna frímúrarann á að hann stendur fastur inni í hring skyldna sinna(1). b) Frímúrar litu upp til gullgerðarmanna og hringurinn er tákn gulls(2). c) Frímúrarar eiga arfleifð frá sólardýrkendum og í slíkri trú er kynlíf heilagast allra helgiathafna; hringurinn táknar því reður og sköp í miðjum samförum(3). Öll vitum við að Frímúrarareglan er leynileg regla og mjög vinsælt er að semja samsæriskenningar um hana. Því verður seint sagt að fullyrðingar um merkingu táknsins geti talist áreiðanlegar. Um eitt virðast þó flestir vera sammála: Punkthringur hefur tengsl við frímúrara.

Rósarkrossdulmálið er sáraeinfalt dulmál sem litlum krökkum í skátunum er kennt sem hugarleikfimi. Þá er það kallað skátadulmálið og krökkunum sagt að einungis skátar skilji það. Það er því miður ekki svo einfalt. Elsta ritaða heimildin um dulmálið er rit um Rósarkrossregluna (annað leynifélag sem miklar samsæriskenningar eru til um, efni í margar bækur), en margir hafa haldið því fram að frímúrarar hafi tekið ástfóstri við dulmálið. Það er því oft nefnt frímúraradulmálið. Þjóðsagan segir að frímúrarar og rósarkrossriddarar hafi hætt að noa dulmálið því of einfalt reyndist að ráða það. Í Týnda tákninu er dulmálið notað til að benda á falinn frímúrarafjársjóð.

Dulmálið virkar þannig að fyrst er dreginn upp „mylla“ og kross. Þá er öllum bókstöfum stafrófsins raðað, tveim saman, í reiti táknanna og punktar settir yfir seinni stafina. Letrið fæst svo með því að teikna rammann utan um viðkomandi staf og setja í hann punkt ef við á. Til eru fjölmargar útfærslur á dulmálinu.

Þessi tvö atriði fengu mig til að íhuga hvort einhver frekari tengsl eða líkindi gætu verið milli skátahreyfingarinnar og Frímúrarareglunnar. Niðurstöður mínar eru nokkuð áhugaverðar. Í ljós kom að skátar og frímúrarar eiga ýmislegt sameiginlegt þó svo að lítil raunveruleg tengsl séu milli þessa tveggja. Það skal tekið fram að stofnandi skátahreyfingarinnar og höfundur Scouting for boys, Robert Baden-Powell var ekki frímúrari, né heldur nokkur í hans fjölskyldu. Honum bauðst oft að gerast frímúrari en sagði að enginn sem bæri nafn hans gæti gerst frímúrari, því það gæti tengt skátahreyfinguna um of við umdeilda menn.(9)

Í fyrsta lagi ber að athuga grundvallarhugmynd beggja samtaka. Frímúrarareglan er alþjóðlegt „bræðralag“ karlmanna með það markmið að gera reglubræður að betri, siðsamlegri og nýtari samfélagsþegnum(2). Skátahreyfingin er ætluð drengjum og karlmönnum um allan heim (þó stúlkur hafi nú bæst í hópinn). Samkvæmt Scouting for boys, lögum Bandalags íslenskra skáta (BÍS) og lögum World Organization of the Scout Movement (WOSM) er það markmið skáta að verða betri, siðsamlegri og nýtari samfélagsþegnar. Að auki hefur alltaf verið lögð áhersla á „bræðralagið“ skáta á milli, en í skátaritum er sífellt minnst á „Our worldwide brotherhood“ og í upphaflegu skátalögunum frá 1908 segir „A Scout is a Friend to All and a Brother to every Other Scout, no Matter to What Social Class the Other Belongs.“ (4)

Í Scouting for Boys segir B-P frá riddurum miðalda, sem sóru þess eið að heita guði og konungi sínum hollustu. Riddararnir settu sér reglur, sem áttu að hjálpa þeim til þess að verða betri menn. Í upphaflega skátaheitinu var svarinn eiður við konunginn og enn í dag er svarinn eiður við guð. Skátaheitið líkist því eið riddaranna. Skátalögin sem B-P samdi eru þar að auki byggð á reglum riddaranna og líkjast þeim töluvert(4). Samkvæmt þjóðsögum eiga frímúrarar rætur sínar að rekja til musterisriddaranna eða riddara hringborðsins. Slíkar þjóðsögur eru taldar óraunhæfar og betri skýringar á uppruna frímúrara eru til. Þó er þetta lífseig þjóðsaga og má skýra með því að frímúrarar vinna „frímúraraheitið“ og þurfa að fylgja ákveðnum lífsreglum eða „frímúraralögum.“(2) Skátar, frímúrarar og riddarar miðalda eiga það allir sameinginlegt að heita guði hollustu sína. Skátar og frímúrarar eiga það þó enn fremur sameiginlegt að skilgreina guð á mjög sérstakan hátt. Til þess að gerast frímúrari eða skáti þarf nefnilega ekki að trúa á einhvern ákveðinn guð (t.d. Jehóva, guð kristinna manna) heldur einfaldlega að trúa á æðri sköpunarmátt (en svo segir í (2) og lögum WOSM). Ein tenging til viðbótar er á milli frímúrara, riddara og skáta. Í bókinni 27 Years with B-P er Baden-Powell sagður vera „Riddari Heilags Jóhannesar í Jerúsalem.“(9) Enn er umdeilt hvað þarna er átt við en Heilagur Jóhannes og Jerúsalem tengjast sögum af krossferðariddurum og þar með þjóðsögum um frímúrara.

Bandarískir skátar eru þeir skátar sem mest tengsl hafa við frímúrara. Við upphaf 20. Aldar (áður en skátar urðu til) voru til ungliðahreyfingar á vegum frímúrara í Bandaríkjunu, m.a. Dætur Jobs, Regla DeMolays, Dætur regnbogans og Samfélag sona Daníels. Hinni síðastnefndu stjórnaði virtur frímúrari að nafni Daniel Carter Beard.(6) Þegar hugmyndin um skátastarf barst til Ameríku breytti Daniel nafninu á hreyfingu sinni í The Boy Pioneers og tók upp nokkrar hugmyndir Baden-Powells. Nokkrum árum seinna gerðust The Boy Pioneers stofnmeðlimir í Landsamtökum bandarískra skáta (BSA). Úr því að Pioneers höfðu rík tengsl við frímúrara og hlutu árlega styrki frá þeim, hélst sú hefð áfram og enn í dag fá bandarískir skátar styrki frá frímúrurum(6). En tengsl frímúrara við bandaríska skáta felast ekki bara í fjárframlögum. Frímúrarastúkur í Bandaríkjunum veita reglulega verðlaun sem nefnast Daniel-Carter-Beard hnúturinn. Verðlaunin eru veitt frímúrurum sem hafa verið virkir skátaforingjar, stofnað skátasveitir á vegum frímúrara eða styrkt böndin milli frímúrara og skáta.(7)

Alls staðar í heiminum hafa skátar búið sér til hefðir og vígsluathafnir sem líkja mætti við sértrúarsöfnuði. Ein ákveðin hefð bandarískra skáta er þó sláandi lík þjóðsögum af athöfnum frímúrara. Það er The Arrow of Light Ritual en um hana má lesa hér. Í henni er skátanum „fórnað“ í eldi, hann látinn sverja hollustueið, gefin mikilvæg verkefni og talað um forna spádóma. Slíkar skátaathafnir eru aðeins upp á gamanið, eiga sér enga stoð í raunverulegum trúmálum og eru einungis táknrænar, en þó eru sláandi líkindi milli þessarar tilteknu athafnar og þjóðsagna af frímúrurum

Þjálfunarkerfi skáta og gráður frímúrara eru nokkuð svipaðar.(2)(4)(8) Í upphaflegri útgáfu Scouting for Boys er þjálfunarferlinu lýst svo: Þér er veitt innganga í skátaflokk og færð titilinn sárfætlingur (Tenderfoot), eftir mikla þjálfun verðurðu annars flokks skáti og seinna fyrsta flokks skáti (Second class, First class). Frímúarar ganga í gegnum svipað ferli: Þér er veitt innganga og ert þá talinn í fyrstu gráðu, eftir mikla þjálfun ferðu á aðra gráðu og loks á þriðju gráðu. Skátar „klífa“ (e.trail) leiðina að fyrsta flokk, frímúrarar „ferðast“ (e.travel) að þriðju gráðu. Í upphaflegu skátakerfi var gert ráð fyrir að þegar fyrsta flokki væri náð gæti skátinn hafið störf við ýmis „sérpróf“ (e. Merit Badges). Í skosku deild Frímúrarareglunnar geta meðlimir unnið sér inn ýmsa sértitla eftir að þriðju gráðu er náð. Sértitlarnir í skosku deildinni eru 33 talsins og upphaflega voru sérpróf skáta 33 talsins. Frímúrarar sem ná þessum 33 áföngum eru sæmdir orðu með tvíhöfða erni eða tvíhöfða fönixi (heimildum greinir á). Í Bandarísku skátunum er sérprófakerfið enn við lýði og þar hljóta skátar, sem ljúka visst mörgum verkefnum, orðu með erni á. Líkindin eru óneitanlega mikil.

Til eru mörg heimssamtök skáta, önnur en WOSM. Eitt þeirra (hið elsta) er Order of World Scouts (OWS). Mörg líkindi eru með þeim samtökum og frímúrurum. Til dæmis er æðsti frímúrari hverrar stúku kallaður grandmaster, en skátahöfðingjar OWS eru einnig kallaðir því nafni. OWS leggur ríkari áherslu á „bræðralagið“ en nokkur önnur skátasamtök og í þeirra skátafræðum eru skátar nefndir „hinir ungu musterisriddarar.“ Orðið „order“ eða regla, þykir einnig benda til einhvers konar leynifélags, líkt og frímúrarareglan er. Á heimasíðu OWS er þó ýtarlega gert grein fyrir því að samtökin séu á engan hátt tengd frímúrurum.

Sterkasta tenging skáta við frímúrara er þó ekkert af ofantöldu. Á Alheimsmóti skáta 1929 komu saman rúmlega hundrað skátaforingjar sem einnig voru frímúrarar og ákváðu að stofna frímúrarastúku sem einungis væri opin skátum(10). Fyrsta slíka stúkan var stofnuð árið 1930 og innan fárra ára voru sprottnar upp nokkrar skáta-frímúrarastúkur víðs vegar í hinum enskumælandi heimi. Á fundum sínum klæðast þeir ýmist hefðbundnum frímúrarafatnaði eða skátabúningum og auk hefðbundinnnar frímúrunnar stunda þeir líka skátastarf. Í dag eru nokkrir tugir slíkra stúkna starfandi um allan heim og utan á húsnæði þeirra eru, auk venjulegra frímúraratákna, merki fjögurra flokka Baden-Powells. Allar heita stúkurnar í höfuðið á B-P.

Og að lokum eitt sem skiptir engu máli en er þó áhugavert. Þegar Hitler hóf áróður gegn gyðingum í Þýskalandi var það eitt af hans fyrstu verkum að leysa upp félög sem hann taldi hættuleg hinum aríska kynstofni. Fyrstu tvö félögin voru Verband Deutsche Pfadfinder (Þýska skátahreyfingin)(5) og Die Freimaurerei (Þýska frímúrarastúkan)(2). Ástæðan var sú að Hitler þótti þessi tvö samtök helst ýta undir umburðarlyndi gagnvart gyðingum, og taldi bæði skáta og frímúrara búa yfir duldri speki sem hættuleg væri ríkinu. Vitaskuld er þar einungis um ofsóknaræði að ræða, enda hafa skátar ekkert dulspekilegt að fela, þó þeir séu vissulega umburðarlyndir gagnvart gyðingum, rétt eins og öllu öðru mannfólki. Sömu sögu er líklegast að segja um frímúrara.

Heimildir:
1)Wikipedia
2)Secrets of the Freemasons, Pat Morgan, 2006, Gramercy Books, NY
3)www.watch.pair.com
4)Scouting for boys, Robert Baden-Powell, stuðst var við fyrstu útgáfu 1908, tíundu útgáfu 1922, 35. útgáfu 2002 og íslenska þýðingu frá 1946.
5)An Official History of Scouting, 2006, The Scout Association, London
6)www.timboucher.com
7)www.freemason.com
8 )www.usscouts.org
9)www.pinetreeweb.com
10)www.themasonictrowel.com