Rétt eins og í grein domhildar áttu eftirfarandi atburðir sér virkilega stað. Ég lofa.

8.ágúst var búinn að vera ógeðslega heitur og þurr dagur hér í Ottómanveldi (þ.e. Tyrklandi), en 45°C telst eðlilegt þar um slóðir. Líkt og Domhildur hafði ég unnið góðverk þann dag sem einnig tengdist kettlingum. Í Tyrklandi er nefnilega mikið af flækingsköttum og þegar ég sá þrjá soltna kettlinga í vegkanti gat ég ekki annað en útvegað þeim vatn og túnfisk. Það var stórkostlegt. En það sama skyggði á minn dag og hjá Domhildi.

Ég vissi að heima á Eldgömlu Ísafold ætluðu nokkrir vaskir skátar í miðnæturgöngu. Mér þykir mjög leitt að hafa ekki getað farið samferða þeim í þeirra mikla ævintýr, en þar sem ég sat inni á hótelherbergi í fartölvu nokkurri birtist mér Laufey á stafrænu formi. Hún sagði mér að ég skyldi gang téða miðnæturgöngu í Tyrklandi, líkt og hún ætlaði sér að gera í Danmörku! Virkilega góð hugmynd.

Allt lofaði góðu þar til um sjöleitið um kvöld þegar skyndilega skall á svartamyrkur ólíkt því sem gengur og gerist á Íslandi, og þar að auki er Tyrkland ekki vel upplýst. Alls ekki. Yðar einlægur lét þó ekki svo léttvæg smáatriði á sig fá og eftir ánægjulega kvöldstund með herbergisfélögum mínum rölti ég út í Migros og keypti mér lugt. Þar klæddi ég mig úr flestu nema stuttbuxum (því Tyrkland var djöfulli heitt), tók hatt minn og staf og gekk út. Ólíkt Domhildi var ekkert mál að komast út, ég einfaldlega gekk út um lobby-ið, stökk upp í Dolmushinn (rónastrætó í Tyrklandi) og allir voru sáttir.

Fyrr um daginn hafði ég séð stórt skilti með áletruninni “Marmaris national park” og hljómaði það eins og kjörstaður fyrir fjallgöngu. Nú var stefnan tekin þangað. Þegar hér er komið við sögu var ég orðin heldur hræddur um að vera rænt og orðinn afskaplega sveittur. Þegar ég var loks komin að Marmaris national park varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Það var þá sem ég komst að því að national park þýðir greinilega fátækrahverfi á Tyrknesku, því í þessum þjóðgarði var ekki að finna merk náttúru- eða menningarfyrirbæri heldur sovéskar blokkir, pappakassahús og betlara. Nú var klukkan orðin 23:47 (20:47 að íslenskum tíma).

Hitinn var óbærilegur og svekkelsið gríðarlegt en ég var staðráðinn í að fara í fjallgöngu. Ég fór aftur upp á hótel og kom þá auga á myndarlegt fjall á bakvið hótelið mitt. Mikið hafði ég þá leitað langt yfir skammt. Það fannst mér verðugur áfangastaður. Það var hann ekki. Ég hafði gengið í tíu mínútur þegar ég var kominn hálfa leið upp á hið svokallaða fjall. Ég hafði ekki fengið nóg og varð að halda áfram. Skyndilega dó fína lugtin sem ég hafði keypt og ég heyrði ægilegt ýlfur. Hálfnakinn stóð ég uppi á fjalli í Tyrklandi í kolniðamyrkri, að deyja úr hita, hlustandi á ýlfur úr hundum sem virtust ætla að borða mig. Þegar ég var við það að fá nóg stekkur kolsvartur hundur út úr nálægum evkalyptusrunna og ræðst á mig, glefsar og urrar. Ég hljóp eins og eldibrandur til baka á hótelið og ákvað að skoða mig ekki frekar um í því íslendingabæli sem Marmaris er. Þegar ég kom á hótelið var klukkan 00:32.

Ég naut þessarar göngu ekki.