Eftirfarandi atburðir áttu sér virkilega stað. Ég lofa.

8.ágúst var búinn að vera sólríkur og góður dagur hér í Danaveld, í mínum huga að minnsta kosti. Góðverk dagsins (þau voru reyndar fleiri en eitt) var stórkostlegt. Kettlingur frænku minnar festi sig uppi í tré og ég, skátinn sem ég jú er, fékk stiga lánaðan hjá nágrannanum og bjargaði grey dýrinu niður. En eitt virtist ætla að skyggja á þennan nánast fullkomna dag.

Ég vissi að heima á Íslands farsældar Fróni ætluðu nokkrir vaskir skátar í miðnæturgöngu. Ég harma það mjög að hafa ekki getað farið samferða þeim í þeirra miklu svaðilför en þar sem ég sat í rólunni undir eplatrénu fékk ég hugdettu. Ég mundi framkvæma áætlun skátasystkina minna um miðnæturgöngu og svefn undir berum himni, hér á Jótlandi!

Þetta lofaði allt saman góðu þangað til um fimmleitið síðdegis þegar að fyrsta þruman drundi í fjarskanum og rigningarskýin fóru að láta sjá sig. Yðar einlæg lét þó ekki svo léttvæg smáatriði á sig fá og eftir ánægjulega kvöldstund með gestgjöfum mínum bauð ég góða nótt og fór út í gestahúsið. Þar klæddi ég mig einni flíspeysu og tveimur sokkum of vel, tók hatt minn og staf og gekk út. Þá strax mætti ég mínu fyrsta vandamáli, að komast út úr garðinum. Þetta virðist kannski ofur einfalt verkefni en þar sem ég var ekki viss um að frænka mín væri sátt við þennan spássitúr að næturlagi þá vildi ég helst komast burt án þess að nokkur tæki eftir mér. Mölin í innkeyrlunni gaf frá sér ógurleg óhljóð í hverju skrefi og ef ég fór pallinn hinumegin við húsið þá kviknaði ljós. Ég íhugaði að klifra yfir girðinguna en það vill svo til að báðir nágrannarnir eiga hunda, stóra hunda. Á endanum fór ég í gegnum trén innst í garðinum og hrökklaðist á milli bakgarða hjá fólki þar til gangstéttin fannst.

Nú var stefnan tekin í humátt að skógi sem ég er alveg nokkuð viss um að hafi verið í þá átt sem ég stefndi. Þegar hér er komið við sögu var ég orðin heldur smeik og afskaplega blaut í fæturna. En einmitt þegar niðurbæld hræðsla mín við myrkur ætlaði að yfirtaka mig þá sendi móðir mín mér smáskilaboð. Ég snéri við og gekk til baka dimman stíginn og svaraði móður minni. Þegar ég var komin aftur að umferðargötunni varð mér litið á tölvuúrið í horninu á upplýstu símtólinu í hendi mér og ég varð meira en lítið hissa, klukkan var 23:23 (21:23 að íslenskum tíma). Ég hafði lagt af stað klukkustund of snemma.

Rigningin ágerðist en ég var staðráðin í að ganga lengur. Ég kom fljótlega auga á hól sem mér fannst verðugur áfangastaður. Það var hann ekki. Það tók mig í mesta lagi fimm mínútur að komast upp á helvítis hólinn (þar með talið gangan yfir akurinn sem var á milli mín og hólsins). Ég var við það að fá nóg en ákvað að skoða mig um í þessu eina þorpi á norðurlöndum sem ekki inniheldur kirkju, þar búa hinsvegar 20 íslensk hross og 2 íslenskar kerlingar. Á ferð minni um þorpið sá ég krá, póstkassa, hundaskít, strætisvagnastoppustöð og fótboltavöll. Þegar ég var orðin blaut inn að beini snéri ég aftur heim og inn. Þá var klukkan 23:42.