17.júní 2009 Gleðilega hátíð gott fólk.

Þar sem ég stóð heiðursvörð á Austurvelli og starði út í bláinn áðan, eins og ég geri á um það bil 365 daga fresti, fékk ég hugmynd. Í stað þess að öskra eureka og trufla hátíðardagskrána hélt ég bara áfram að standa og halda í fánann minn. Hugmyndin var sú að veita fólkinu sem sat fyrir framan mig (þingmenn, sendiherrar og álíka pakk) verðlaun í ýmsum flokkum sem ég lét mér detta í hug. Flokkarnir og sigurvegarar voru eftirfarandi;

Ljótasta bindið
1.sæti- Össur Skarphéðinsson, fyrir einstaklega ófrítt svart og rautt bindi.
2.sæti- Steingrímur J. Sigfússon, fyrir næstum því jafn slæmt bindi.
3.sæti- Kjartan Magnússon, formaður þjóðhátíðarnefndar.

Mesti Kjánahrollurinn
1.sæti- Anarkistarnir, fyrir að rembast á móti þjóðrembingi og annan almennan kjánaskap.
2.sæti- Lögreglan, fyrir það að geta ekki staðið heiðursvörð án þess að einhver lögga öskri skipanir að þeim.
3.sæti- Dagur B. Eggertsson, fyrir að vera Dagur B. Eggertsson.

Besta staran
1.sæti- Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, fyrir stuttar og einlægar störur sem beindust gjarnan í átt að þeim sem voru að halda ræðu.
2.sæti- Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, fyrir einstaklega langa, djúpa og óhugnarlega störu út í loftið.
3.sæti- Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, fyrir störur sem sýndu einstakt áhugaleysi.

Mesta jarðarfarar lúkkið
1.sæti- Vilhjálmur Jens Árnason, eiginmaður borgarstjóra, fyrir svartan alklæðnað sinn.
2. sæti- Séra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sem mætti í múnderingunni og hefði alveg geta skellt sér beint í smá “frá jörðu ertu kominn…”
3.sæti- Dagur B. Eggertsson, fyrir ágætis jarðarfarar lúkk og frábært hár.

Heiðursverðlaun í flokki fyrirmanna
Össur Skarphéðinsson hlýtur þessi verðlaun fyrir að vita ekki hvað hann átti að gera við frakkann sinn þegar hann settist, hressilegustu snítingar sem Austurvöllur hefur upplifað og síðast en ekki síst fyrir að gefa Steingrími J. Sigfússyni sessunaut sínum með sér af neftóbakinu sínu.

Heiðursverðlaun í flokki fyrirkvenna
Þessi verðlaun hlýtur Dorrit Moussaieff fyrir ósamstæðan klæðnað og almennan frábærleika.

Heiðursverðlaun í flokki almennra borgara
Hlýtur gaurinn í karlakórnum sem leit út alveg eins og Ómar Ragnarsson.


Vonandi varð þetta ykkur til gagns eða a.m.k. einhvers gamans.
Kveðja, Domhildur.