Febrúar og mars voru nokkuð líflegir í umræðu um greinina „Skátastarf – væntingar og langþreyta“ og margt athyglisvert kom upp á yfirborðið. Það sem greip mig helst var umræða foringja um að þeir væru of ungir til þess að hafa þá lífsreynslu sem þarf til að hafa full tök á foringjahlutverkinu. Slík áttun og afstaða finnst mér lýsa ákveðnum persónuþroska en eftir stendur að skátum finnst að þeim hafi verið ýtt í foringjastöðuna of ungum og hafi þess vegna ekki fengið tækifæri til þess að stunda skátastarf á eigin forsendum. Það er áhyggjuefni þegar ungir foringjar skátahreyfingarinnar upplifa það að þeir standi einir og óstuddir og eru farnir að vísa til skjólstæðinga sinna (skátanna í skátasveitinni þeirra) á helst til niðrandi nótum en slíkt er að öllum líkindum birtingarmynd þreytu og pirrings þess að foringjar eru ekki að fá nægilegan stuðning. Hvað vilja foringar að sé gert? Styður skátafélagið ykkar við bakið á ykkur? Er hægt að tala við forystu skátafélagsins og er hlustað á ykkur? Hvað með aðra foringja skátafélagasins, líður þeim eins? Eða hafið þið kannski aldrei viðrað áhyggjur ykkar nema hér? Orð eru til alls fyrst og er ekki kominn tími til að opin umræða fari fram innan skátafélaganna. Útprentun á umræðunni sem um spannst um „Skátastarf – væntingar og langþreyta“ gæti verið góður útgangspunktur.

Skátastarf er skemmtilegt! Upphrópun og slagorð sem glymur í eyrum okkar en þegar við höfum ekki þessa upplifun þá fylgja vonbrigðin óhjákvæmilega. Það er lofað öllu fögru en efndir eru litlar. Þetta er trúlega upplifun margra en hvað getum VIÐ gert til breyta þessu ástandi hjá okkur sjálfum. Margir lýstu því í umræðunni að það væri skemmtilegt og gefandi að vera foringi, MafuZa lýsti sjálfum sér sem eylandi sem er afar slæm upplifun í skátastarfi. Til þess að geta gefið af sér sem foringi þá verður maður að hafa tækifæri til þess að rækta sjálfan sig, hlaða batteríin, gera eitthvað skemmtilegt án barnanna. Ameza lagði til að foringjar á öllum aldri skátafélags færu í útilegur saman án litlu skátanna því það væri svo hressandi og væri meðal hennar við leiða.

Greinileg væntumþykkja ykkar um skátastarf ætti að vera hvati til þess að safnast saman, Rekkaskátar og Róverskátar, og gera skemmtilega hluti saman. Hvar? spyr einhver. Það er ekki til eitt svar við því en Ottó Ingi lagði til í svari sínu að skátar hittust eða væru hluti af Rekka- eða Róversveit í öðru skátafélagi. Er þetta alveg galið? Kannski þarf einhver að taka af skarið og hóa hópnum saman? Er sá aðili þú? Skátaútópían er til en er ekki staður á korti heldur viðhorf.

Hrósa umræðunni í hástert sem fer fram hér á Huga. Ekki láta umræðuna deyja hér og vera jafn vonsvikinn og langþreytt og áður. Færið umræðuna einnig inn í félögin og leitið leiða til að búa til gott starf fyrir ykkur, hvort heldur sem þið eruð foringjar eður ei. Ég lofað ykkur því að tilraunir til þess að búa gott starf saman munu ekki allar slá í gegn en eru sannarlega þess virði því að hver og ein tilraun mun vera upplifun og gefa tækifæri til að læra af.