Landnemamótið 2007 verður haldið dagana 21. - 24. júní n.k.
Þótt undirbúningur haf hafist upp úr s.l. áramótum, er enn ekki komið að því að dagskrá mótsins sé fullmótuð og til birtingar. Mótið byggir á hefðbundum gildum Landnemamóta, en nýjum þáttum bætt við. Þannig verður nýr og athyglisverður dagskrárliður á föstudagskvöldi sem enn er ekki tímabært að greina betur frá.

Landnemar leggja áherslu á, að til mótsins eru allir skátar á Íslandi velkomnir. Ekki síður skátar utan af landi. Við Reykjavíkurskátar óskum meira félagsskapar við þá.

Skátahreyfingin er 100 ára í ár, en afmælið er jafnan miðað við útileguna á Brownsea eyju 1907. Í tilefni þess hðfum við tekið saman eftirtalda punkta um þessa frægu útilegu.

Við segjum í tilefni Landnemamótsins að SPORIN FRÁ BROWNSEA EYJU LIGGI TIL VIÐEYJAR.

Sporin frá Brownsea…

Við hverfum 100 ár aftur í tímann.
Árið er 1907. Staðurinn er Brownsea eyja.
Eyjan er lítil, en falleg og gróðurvaxin, skammt undan suðurströnd Englands. 20 enskir drengir úr ólíkum stéttum samfélagsins safnast hér saman og dvelja í eina viku í tjaldbúð að frumkvæði og undir stjórn bresks fyrrverandi hermanns og stríðshetju, Roberts Stephenson Smith Baden Powell, sem þá var fimmtugur að aldri. Baden Powell eða BP eins og við þekkjum hann, þekkti þessa litlu og fögru eyju, en hann hafði komið þangað sem ungur drengur. Á Brownsea eyju vildi BP sannreyna hugmyndir sínar og kenningar um uppeldislegt og félagslegt gildi bræðralags, útiveru og náttúruskoðunar fyrir æskuna og einkum þá sem bjuggu jafnvel við þröngan kost borgarsamfélagsins. Hann skynjaði forvarnargildi góðs félagsskapar og útilífs. Dagarnir 1. - 8. ágúst voru miklir hamingjudagar fyrir þessa ólíku drengi. Þeir unnu saman frá því snemma að morgni fram á síðkvöld að margvíslegum verkefnum í flokkum eftir ákveðnu kerfi, nutu til fullnustu vandlega undirbúinnar útilífsdagskrár og upplifðu vináttuna og spenninginn.

Tilraun BP á Brownsea eyju heppnaðist fullkomlega. Stórkostlegt ævintýri var hafið, - við þekkjum framhaldið. Árið eftir skrifaði BP bókina Scouting for boys eða Skátahreyfingin en hún leiddi til stofnunar skátahreyfingarinnar og útbreiðslu hennar á örstuttum tíma um allan heim.

Dagana 1. - 8. ágúst 1907 á Brownsea eyju teljum við til upphafs skátahreyfingarinnar. Við fögnum 100 ára afmæli hreyfingarinnar á margan hátt, sporin frá Brownsea eyju 1907 liggja víða, - meðal annars til Viðeyjar 2007.

Fögnum og höfum það skemmtilegt!
- Velkomin í Viðey


Viðey í Kollafirði er rétt við Reykjavík, örskammt frá Sundahöfn. Ósnortin náttúruperla, alveg eins og við viljum hafa hana, -tilvalin til útilífs og skátastarfs.
Hér verður Landnemamótið. Hefst á fimmtudagskvöldi, lýkur á sunnudegi.
Öflugt tjaldbúðalíf og lifandi dagskrá allan tímann.

Hingað til Viðeyjar liggja sporin frá Brownsea eyju. Fjörugir skátar koma allstaðar frá; - úr Reykjavíkurfélögunum, nágrannafélögunum auk skáta utan af landi.
Umfram allt njótum við skátastarfsins, samverunnar og útilífsins.

Öll þekkjum við eldvígsluorðin dásamlegu;
“Í kulnuðum glóðum býr fortíðin, í óbrunnu eldsneyti framtíðin, en í leiftrandi logum bálsins lifir nútíðin og hennar skulum við nú njóta…”

Við tengjum þessi orð við Brownsea ævintýrið og njótum nútíðarinnar. Það er einmitt þannig sem við skulum hafa það í Viðey; - njótum nútíðarinnar, njótum þess að vera úti í náttúrunni, njótum þess að vera saman, njótum þess að vera til.

Fylgist með á http://www.landnemi.is
Baldur Skáti