Sælir… Ég vil byrja á að benda á það að þessi grein var skrifuð fyrir blog síðu en mér fannst hún hæfa betur hér. Orðalagið er ef til vill blog-kennt, en það verður að hafa það. Njótið vel

Ég er nýkominn heim frá Viðey, en þar var haldið skátamót núna um helgina sem bar nafnið Landnemamót í Viðey. Mótið var frá fimmtudegi til sunnudags en ég var bara í eina nótt. Ástæðurnar fyrir því að ég mætti vöru meðal annars til þess að hitta Evrusulturnar mínar, lyfta mér upp og komast burt frá dagsins amstri. Ég mætti á kvöldvöku og eftir það var haldið hið árlega bryggjuball. Á bryggjuballi er spiluð lifandi harmonikkutónlist og skipulagðir dansar undir því. Eftir það er svo haldið almennilegt ball með tilheyandi tónlist og fíflalátum. Eftir bryggjuballið var haldinn næturleikur og haft mjög gaman að, enda lenti ég í fráberum hóp. Því næst var farið á kaffihús og notið lífsins í góðra vina hópi fram undir rauða dögun undir ærslafullum söng og gítarleik. Upphaflega var hugmyndin sú að ég myndi koma á bryggjuballið og taka svo ferjuna heim aftur, en einhvern veginn atvikaðist það að ég varð eftir á eynni án aukafata, svefnpoka, svefnaðstöðu, matar né nokkurs annars. Þetta reddaðist þó þar sem ég fékk að gista í tjaldinu hjá Kalla og Gunna í heiðabúum. Ég og Rósanna vorum einu svanirnir á mótinu (ef frá eru taldir þeir sem komu við í gærkvöld en fóru strax) og framkoma okkar var eftir því. Um nóttina náði ég samt ekki að sofa nema í hálftíma, því að ég var sárlemstraður (sjá næstu efnisgrein), þannig að nú er ég að deyja úr þreytu en þarf samt að fara að vinna eftir hálftíma. Í dag var svo haldið heim eftir miður skemmtilega vakningu, sem fór þannig fram að Rósanna öskraði og barðist á meðan ég vaknaði með einhverja ókunnuga, granna og bera stúlkuleggi í andlitinu. Þegar ég vaknaði loks almennilega komst ég að því að fæturna átti hún Rebekka í Kópum. Þess má geta að á mótinu voru örfáir danir sem virtust ekkert skilja í látalátum íslendinganna. Það er alltaf gaman að fara á skátamót, stór sem smá. Í raun get ég með fullri vissu sagt að ekkert í þessum heimi sé skemmtilegra en skátamót. Hitta vini allstaðar að, dvelja í óspilltri náttúru, kynnast fullt af nýju fólki, upplifa ævintýralega dagskrá og einfaldlega að upplifa andann sem svífur í loftinu

Ég er ekki lukkunnar pamfíll og því þurfti ég auðvitað að lenda í hrakföllum. Ballið byrjaði þannig að ég reif upp brunasár með tilheyrandi sársauka og viðbjóðslegum líkamsvessum. Eftir að hafa fengið aðhlynningu í sjúkratjaldinu hljóp ég aftur niður á bryggju en sneri á mér fótinn í leiðinni svo ég tognaði. Aftur í sjúkratjaldið með mig. Daginn eftir lenti ég í þriðja slysinu; ég stakk í ógáti skærum í lófann. Já ég er klaufi.

Mér fannst þessi stutti tími sem ég var á mótinu hreint út sagt ómótstæðilegur. Ég er strax byrjaður að hlakka til næsta Viðeyjarmóts.

Þangað til næst…
Takk fyrir mig.