Ég á tvö áhugamál, bílar og skátar, og mér datt í hug að skrifa svolítið um það hvering þessir tveir hlutir tengjast, og hvernig það er best að þeir komi saman. En það verður auðvitað mín skoðun, sem byggir reyndar á áralangri reynslu, sérfræðikunnáttu á þessu sviði, og almennum myndarskap mínum.

Bílar og skátar verða að tengjast, ef ekki þá væri maður óþarflega lengi á Úlfljótsvatn, og ég myndi sennilega aldrei mæta á tækniskátafundi, þar sem þeir eru uppí Grafarvogi. En hvering bílar eru bestir í skátastarfi? Við skulum svara þessari spurningu, en fyrst þarf að skilgreina nokkur hugtök

x bakpoka bíll = bíll sem getur tekið x marga bakpoka í farangursrými sitt, og skal miðast við 60 lítra poka fulltroðinn með gönguskó hangandi utan á.
x skáta bíll = bíll sem getur tekið x marga skáta í sæti með öryggisbeltum
skátamiðstöðvarbíll = bíll sem er ekki hægt að treysta í lengra og torfærara ferðalag en upp í skátamiðstöð (td Huyndai allar gerðir)
Úlfljótsvatnsbíll = bíll sem kemst á Úlfljótsvatn, en þó ekki alla leið upp að Lækjarbotnum. (td. toyota celica)
Skátaskálabíll = bíll sem kemst að flestum skátaskálum Íslands, en þó ekki þeim sem eru uppá fjöllum. (td. Toyota corolla)
fjallaskátabíll = bíll sem kemst að öllum skátaskálum að sumri til (td. Toyota Rav4, óbreyttur Toyota Hilux)
vetrarskátabíll = bíll sem kemmst að öllum skátaskálum allan ársins hring. (td. breyttur Toyota Hilux)

Útfrá þessum skilgreiningum er nokkuð ljóst að bestu skátabílarnir eru upphækkaðir jeppar með margra bakpoka skott. Ekki er almennt mælt með því að skátar eigi sportbíla, bæði eru þeir sjaldan meira en skátamiðstöðvarbílar (alveg í mesta lagi Úlfljótsvatnsbílar) og oftar en ekki eru þeir færri bakpokabílar en skáta. En það er alger krafa um skátabíl að þeir séu í það minnsta jafnmargra bakpokabíla og þeir eru skáta. En til að vera öruggur er oft gott að geta haft eins og einn bakpoka aukalega.

Þess vegna mæli ég með því að ungir skátar sem eru að fara að kaupa sinn fyrsta skátabíl reyni að fá sér skutbíl og helst fjórhjóladrifinn, og ef þeir eru efnaðir þá mæli ég með upphækkuðum jeppum, sér í lagi yfirbyggðum pallbílum.

En niðurstaðan er sem sagt að smábílar og sportbílar eru ekki góðir skátabílar en góðir jeppar eru þeir bestu. Oft hefur verið talað um dieselknúna Toyota Hilux jeppa sem bestu skátabílanna, en ég er ekki frá því að það sé nokkuð nærri lagi. En ég lét fylgja með mynd af einum slíkum, en hann heitir Finnur.

hálúxus kveðjur (e. hilux greetings)
Baldur skáti
Baldur Skáti