Þar sem ákafur skortur hefur verið á greinum ákvað ég að skella hérna inn stuttri lýsingu af hefð sem hefur skapast á Ísafirði um áramót.

Því miður eru sum smáatriði óljós en heildarmyndin kemur engu að síður vel fram.

Sú hefð hefur skapast á Ísafirði að hópur eldri skáta og foringja ganga upp í fjall með kyndla og tendra í ártali sem segir hvaða ár var að líða og hvaða ár tekur við. Hefur þetta ártal hlotið hylli almennings en öllum þeim sem geta séð það finnst það ómissandi partur af áramótunum.

Því miður er það óvitað hversu langt aftur má rekja þessa hefð en hins vegar er það vitað að þær grindur sem nú eru notaðar til að mynda ártalið eru rúmlega tíu ára gamlar og eru átta talsins til að geta myndað tvö ártöl í senn.
Það ár sem þær voru fyrst notaðar þurfti flokkur vaskra skáta að klífa með þær upp í fjall og koma þeim fyrir svo þær gnæfðu yfir bæinn og væru vel sjáanlegar frá flestum húsum.
Um tíu leytið á Gamlárskvöldi þurfti svo að fara upp að grindunum með kyndla sem raða þarf í sérstök göt á grindunum til að mynda ártalið. Eftir að búið var að raða kyndlunum í grindurnar þurftu skátarnir bara að bíða þess að tími væri kominn til þess að kveikja á kyndlunum, fyrst þurftu skátarnir reyndar að raða sér tveir og tveir, ein(n) stór og ein(n) smá(r) aftan við fyrra ártalið með kyndla til að kveikja í kyndlunum í grindinni.
Þegar stundin var runnin upp kveiktu þeir stóru í kyndlunum sem voru ofarlega en þeir litlu í þeim sem voru neðarlega og þurftu svo allir að fara yfir að seinna ártalinu án þess að fara fyrir það og leika þar sama leik.
Strax að því loknu þurfti að fara að fyrra ártalinu og taka úr því kyndlana og safna þeim saman í sérstakar safnholur sem voru mokaðar fyrir tilefnið en þá gafst eilítill tími til fagnaðar og hátíðarhalda áður en það þurfti að gera það sama á seinna ártalinu. Að þessu loknu drifu skátarnir sig niður í bæ og kvöddust þar að skátasið.
Nokkrum dögum seinna fóru skátarnir svo upp aftur og gengu frá grindunum í snyrtilegum bunka.
Enn er þessi tækni notuð við þetta og krefst það því talsverðs undirbúnings að „kveikja á ártalinu“ eins og það hefur jafnan verið kallað.
Það þarf að huga að því hversu marga kyndla þarf að nota í viðkomandi ártal og útvega timbur og hamp í þá og svo þarf að sjálfsögðu að vefja þá. Venjulega er efnið í kyndlana útvegað í lok nóvember eða byrjun desember og þeir svo vafnir á milli jóla og nýárs.
Svo á gamlársdag um hádegisbilið fer fjöldi skáta upp í fjall með skóflur og nesti til þess að koma grindunum fyrir svo þær gnæfi yfir bæinn og sjáist almennilega neðan úr bænum eins og skrifuð í stílabók. Á meðan það er gert er að sjálfsögðu etið, spjallað, leikið, unnið og fleira tilheyrandi en flestir taka þátt í að setja grindurnar upp þó sumir komi með sem andleg aðstoð, enda aldrei nóg af henni. Þegar búið er svo að koma grindunum fyrir fara allir niðureftir og beint í áramótakaffi, sem venjulega á sér stað heima hjá einum skátanum, og hittast að því loknu ekki aftur fyrr en um tíu leytið um kvöldið þegar gengið er uppeftir með kyndlana og gjarnan gallaða flugelda úr flugeldasölu Björgunarfélagsins sem sprengdir eru á meðan beðið er.

Á þessum rúmu tíu árum hafa grindurnar beðið nokkurs tjóns og eru flestallar eitthvað laskaðar og þarf skátafélagið að bera skaðann af því. Núna síðasta vetur bognaði ein svo illilega að það þurfti að flytja hana niður í bæ til aðhlynningar, einnig töpuðust 5/6 úr einni grind svo smíða þurfti nýja.

Þessi áramót mun þetta verða endurtekið og mun ég að öllum líkindum senda inn ferðasögu frá því.

Einnig vil ég benda á það að ef ykkur finnst erfitt að lesa þetta og allt í belg og biðu þá getið þið c/p þetta yfir í word og breytt því þar eftir hentugleikum.

Að lokum verð ég að bæta því við að greinaskil eru ekki endilega þar sem þau eiga að vera heldur þar sem mér fannst þurfa til að textinn yrði ekki of ólæsilegur.

Með skátakveðju að vestan
Grímur Snorrason, Einherjum
Lélegur frasi…