Hér kemur yfirlit yfir hornstrandar ferðina ;)

Dagur 1. fimmtudagur

Við lögðum á stað eitthvað í kringum 8 og keyrðum út í Norðurfjörð með tilheyrandi sjoppustoppum á leiðinni. Á Norðurfirði fórum við í sund og svo dúndruðum við upp tjaldi á tjaldsvæði ferðafélagsins og fórum að sofa enda var klukkan orðin margt.

Dagur 2. föstudagur

Nú tók erfiðið við, við vöknuðum um kl. 9 og fórum út á bryggju þar sem hann Reimar skipstjóri beið okkar ásamt aðstoðarmanni sínum sem enginn man hvað heitir. Reimar var ekkert að slóra við hlutina, við komum farangrinum fyrir og svo var bara allt sett í botn og við tók 2-3 klst. sigling þar sem við hoppuðum, skoppuðum og (Eva) ældi út um allt í bátnum hans Reimars.
Upphaflega planið var að hópurinn myndi fara í land í Smiðjuvík og labba yfir í Hornvík á meðan Reimar færi með farangurinn sjóleiðina yfir í Hornvík. Þar sem flestir voru orðnir frekar sjóveikir og Reimar ekki viss um hvort að hann gæti sett okkur í land í Smiðjuvík var hætt við það. Við fórum bara alla leið í Hornvík með bátnum.
Í Hornvík fundum við okkur ágætis tjaldstæði þar sem við tjölduðum stóru Vango tjaldi sem við höfðum með okkur og síðan var bara að skella sér í gönguskóna og byrja að ganga. Þar sem bátsferðin hafði tekið sinn tíma og klukkan orðin heldur margt þá ákváðum við að taka stutta gönguferð í átt að Hælavíkurbjargi. Þar átti að vera sprangsvæði en við fórum nú aldrei alla leið að því og þegar klukkan var að líða fimm ákvað meirihluti hópsins að snúa við og ég og Óskar stóðum einir eftir með það val að halda áfram að sprangsvæðinu eða finna okkur flottan klett til þess að síga í. Við vorum með allar græjur með okkur til þess að síga, 20m siglínu og þrjú sigbelti. Þar sem klukkan var orðin heldur margt tókum við seinni kostin og fundum okkur góðan klett og vorum fram eftir kvöldi að síga.
Þegar ég og Óskar komum upp í tjald aftur tók dýrindiskvöldverður við, pasta og pulsur. Eftir það var bara að finna sér eitthvað að gera og ég bauð mig fram til þess að skokka út í neyðarskýli sem leit út eins og appelsínugult geimskip sem hafði brotlent þarna í víkinni og ná í handspil og síðan spiluðum við forseta og skítakall fram eftir nóttu og skemmtum okkur konunglega.

Dagur 3. laugardagur

Nú tók fyrsti alvöru göngudagurinn við, við vöknuðum nokkuð snemma og gerðum okkur tilbúin til þess að labba uppá Hornbjarg. Veðrið var mjög gott og gangan gekk vel þar til að við komum að á sem þurfti að vaða yfir, yfirleitt á þetta ekki að vera neitt mál, bara fara úr skónum og bretta upp buxurnar. það var ekki alveg nóg í þessu tilviki því að það var flóð og það dugði ekkert minna heldur en að fara úr buxunum og bretta upp peysuna því að áinn náði alveg upp að nafla og við vorum ekkert á því að labba upp með ánni til þess að finna grynnra vað. En ég hafði bara gaman af þessu enda var þetta hinn ágætasti kúlnadráttur fyrir okkur strákana ; )
Þegar við vorum komin yfir ánna þá tók við 2 km gangur eftir fjörunni þangað til við tókum stefnuna upp í hlíðarnar og upp á Horn þar sem útsýnið var ævinntýranlegt og þar fengum við okkur nestisbita og nutum útsýnisins.
Næst tóku við brattar hlíðar upp á Miðfellið þar sem hægt var að setjast klofvega ofan á fjallið. Þegar á toppinn var komið var útsýnið jafnvel ennþá fallegra uppá Miðfellinu heldur en á Horni. Nú tók fólkið sem var með myndavélar sér langan tíma í myndatökur á meðan ég og Óskar skokkuðum meðfram toppnum á fjallinu þar sem manni leið alveg eins og maður væri Mel Gibson í Braveheart þegar hann var skokkandi meðfram fjallatindunum.
Næst í röðinni voru Kálfatindar sem eru að ég held hæsti tindurinn á
Hornbjargi rúmir 500m en margir í hópnum voru orðnir þreyttir og þoka var á Kálfatindum þannig að meirihluti hópsins ákvað að leggja leið sína til baka í tjaldið en ég og Óskar ákváðum að skokka á undan hópnum fara uppá Kálfatinda og reyna svo að ná hópnum á bakaleiðinni. Þetta gekk mjög vel og þegar við vorum komnir á toppinn misstum við reyndar af útsýninu yfir svæðið út af þokunni en það að halla sér fram af brúninni í rúmri 500m hæð og horfa beint niður þverhnípta hamrana er eitthvað það stórfenglegasta sem ég hef upplifað. Þarna tókum við nokkrar myndir og skírðum einn unga sem við fundum Jón Motherfocker, það er hægt að sjá mynd af unganum á myndasíðu ferðarinnar
http://frontpage.simnet.is/skfhamar/myndir/2005/Hornstrandir2005/Hornstrandir2005.htm
Þá var ekkert annað að gera en að skokka niður og taka stefnuna beint á tjaldið hinumegin í víkinni. Þegar við komum að vaðinu voru Eva og Guðrún að baða sig þannig að við fórum bara úr fötunum og hlupum um naktir í ánni og létum öllum illum látum bara svona uppá flippið og héldum svo áfram í átt að tjaldinu þar sem við grilluðum okkur hamborgara og fórum svo inní tjald í sjöunda himni eftir frábæran dag á Hornströndum.

Dagur 4 sunnudagur

Þegar við vöknuðum um morguninn þennan sunnudag var veðrið ekki sem best, þoka og rigning. Við ákváðum því að fara ekki neitt þennan dag og hafa það bara rólegt í tjaldinu og koma okkur betur fyrir. Um kvöldið grilluðum við tvö læri og átum þau með bestu lyst og fylgdumst með refunum laumast í kringum tjaldið enda hefur lyktin eflaust heillað þá.

Dagur 5 mánudagur

Við vöknuðum snemma og lögðum á stað og var stefnan tekin á Látravík þar sem hópurinn skipti sér í tvo, Gylfa, Einar, Evu og Guðrúnu sem ætluðu sér að labba upp Almenninga nyrðri og fara upp á Eilífstind og svo aftur niður í Hornvík á meðan Ég og Óskar ætluðum okkur að ganga út í Lónafjörð og tjalda þar yfir nóttina og koma svo yfir í Hornvík á þriðjudeginum.
Ferðin hjá mér og Óskari gékk ágætlega til að byrja með. Fyrst löbbuðum við uppá Axlarbjarg og þangað var góður og greinilegur göngustígur en eftir það var löng og erfið leið að Lónafirði því það voru engir göngustígar alla leiðina þótt að kortið hafði sagt að það ætti að vera greinilegur göngustígur alla leiðina. Þetta gekk þrátt fyrir allt ágætlega, við hittum að vísu ekki á skarðið sem við áttum að fara í gegnum og löbbuðum í staðin bara yfir fjallið og svo á leiðinni niður missti Óskar GPS tækið sitt og við þurftum að eyða góðum klukkutíma í það að labba til baka og leita að tækinu. Að lokum eftir 12 tíma göngu og 20 km komum við niður í Lónafjörð og fundum okkur góðan stað til þess að tjalda á.
Ferðin hjá stærri hópnum gékk ágætlega eftir því sem ég best veit en í kringum klukkutíma eftir að þau skildu við mig og Óskar náðu þau útvarpsendingu með stormviðvörun á þessu svæði og stuttu eftir það kom Reimar á bátnum og var að reina að ná sambandi við þau en þau heyrðu ekkert í honum því hann var of langt í burtu. Þegar þau komu niður að tjaldinu hafði Reimar komið þangað og skilið eftir skilaboð hjá hópi Þjóðverja sem var á svæðinu. Skilaboðin voru á þá leið að það væri að koma fárviðri og hann vildi helst sækja okkur seinna um daginn því að hann var ekki viss um hvort hann gæti sótt okkur fyrr en á föstudaginn út af veðrinu.
Nú sátu þau í súpunni þar sem ég og Óskar vorum á leiðinni á Lónafjörð og það er um það bil 3 klst. sigling frá Hornvík (eflaust lengri í vondu veðri) svo það var ákveðið að vera áfram í Hornvík og treysta á að Reimar gæti sótt okkur einhvertíman í vikunni.






Dagur 6 þriðjudagur

Ég og Óskar vöknuðum til að byrja með klukkan 8 í Lónafirði og þá var rok og rigning úti þannig að við ákváðum að sofa aðeins lengur og gá hvort að það myndi ekki lægja aðeins og hætta að rigna, höfðum auðvita ekki hugmynd um að það hefði verið spáð fárviðri og að veðrið ætti bara eftir að versna. Við vöknuðum svo sirka á klukkutímafresti þar til klukkan var orðinn 12 og þá hafði veðrið versnað frá því um morgunnin þannig að við ákváðum að drífa okkur á stað og tókum draslið okkar saman og vorum komnir á stað um eitt leitið. Ferðin gekk ágætlega til að byrja með, samkvæmt kortinu áttum við að labba upp með ánni þangað til að við kæmum að vatni. Þarna var einn galli á, það var ekki bara ein á eins og var á kortinu heldur tvístraðist hún í svona 20 og við höfðum ekki hugmynd um hvaða á við áttum að fylgja þar sem þær voru allar svipað stórar. Auðvita völdum við vitlausa á og löbbuðum smá úr leið og þegar við vorum komnir nokkuð út úr leið þá ákváðum við bara að gefa skít í þetta blessaða kort og labba bara í beina línu að tjaldinu með hjálp GPS. Þetta gekk mjög vel og við hittum á Axlarskarð sem við áttum að fara í gegnum, þar varð ég fyrir einni erfiðustu lífsreynslu sem ég hef orðið fyrir því þarna var einhver mesti vindur sem ég hef á æfi minni lent í. Allur vindurinn sem kemur inní Hornvíkina safnast þangað og fer í gegnum þetta skarð sem er innst í Hornvíkinni. Ég og Óskar tókum okkur örugglega hátt í 15 mínútur að koma okkur yfir þessa 100 metra sem var efsti hluti skarðsins (með 15-20 kg bakpoka). Þegar við vorum komnir í gegnum skarðið lá leiðinni niður hlíðarnar niður í Hornvík þar sem blaut mýrin tók við og svo var það bara tjaldið þar sem heitur kakóbollinn beið.
Á meðan ég og Óskar fórum úr blautu fötunum og sötruðum kakó sögðu hin okkur frá svakalegum björgunaraðgerðum sem áttu sér stað á meðan við vorum á Lónarfirði. þegar stærri hópurinn kom að tjaldinu daginn áður þá hefði fararstjórinn hjá þjóðverjunum farið að leita að einhverjum sem hefði orðið viðskilja við hópin upp á Hælavíkurbjargi, þýski hópurin var ekkert að gera mikið mál út af þessu þannig að íslenski hópurinn var ekkert að kippa sér upp við þetta og fór bara að sofa en daginn eftir vöknuðu þau við að fararstjóri þjóðverjana var að banka á tjaldið þeirra til að spyrja hvort að þau gæti hjálpað honum að ná sambandi við björgunarsveitina. Einar og Gylfi fóru með honum út í neyðarskýlið og náðu sambandi við björgunarsveitina sem sögðu þeim að ná í björgunarfólk sem var statt þarna í víkinni í um 3 km fjarlægð. Þeir byrjuð að reyna að ná athygli þeirra með neiðarblysum en þau tóku ekki eftir því þannig að fararstjóri þjóðverjana ákvað að skokka þetta sem er venjulega um 1-2 klst gangur og ná í þau. Þegar þjóðverjin var komin að húsinu hjá björgunarfólkinu kom Reimar inní víkina á bátnum afþví að hann hafði heyrt neyðarkallið í talstöðinni. Þjóðverjin og björgunarfólkið kom til baka yfir víkina með bátnum og byrjuðu að skipuleggja leitarhópa. Þegar leitarhópar voru komnir á stað þá ákvað björgunarsveitn að senda fleiri menn frá ísafirði og senda þyrluna á stað. Núna þegar allt var komið á stað var hringt í björgunarsveitina á ísafirði og þeim var sagt að þjóðverjin væri staddur í hælavík. Þá hefði hann bara gengið niður í hælavík þegar hann varð viðskilja við hópin og beðið skálavörðin sem var þar að hringja og láta vita af sé svo að það yrði ekki farið að leita að honum, en þessi sérstaki skálavörður var ekkert að drífa sig í því að hringja og þegar hann heyrði það í fréttunum dagin eftir að það væri týndur maður á hornstrjöndum þá ákvað hann að hugsa sig um í klukkutíma og hringja þá en þá var líka bara búið að kalla út 40 manns á ísafirði og senda á stað með skipi og senda þyrluna á stað. það má segja að tímasetningin hafi ekki alveg verið í lagi hjá þessum blessaða skálaverði. Í stuttu máli var gæjin aldrei týndur og við hin gerðum rosa mikið mál út af því, fararstjórinn hans var úti að leita að honum alla nóttina á meðan hann svaf bara inni í skála í hælavík.

Dagur 7 Miðvikudagur

Úff morgun síðasta dags, við vöknuðum í mjög kósý innisundlaug sem hafði orðið til um nóttina og eftir að hafa slakað á í smá stund í sundlauginni kom Reimar og spurði okkur hvort að við treystum okkur til þess að fara í dag því það var frekar vont í sjóinn. Við rökræddum um þetta fram undir hádegi, í millibilinu fengum við okkur morgunmat og skoðuðum svæðið í kringum okkur og komumst þá að því að við lentum ekkert illa í því miðað við hina á tjaldstæðinu, Þjóðverjarnir voru með 13 tjöld og eftir nóttina voru tvö tjöld þurr en svo var þarna einn frá finnlandi og hann hefur eflaust orðið blautastur af okkur öllum því að hann vaknaði um nóttina við það að það var komin gosbrunnur undir tjaldið hans.
Að lokum ákváðum við að láta okkur hafa það og fara bara í dag svo við tókum saman draslið okkur flestir tóku sjóveikispillur og svo drifum við okkur bara burtu.
Sjóferðin var ekki eins slæm og við bjuggumst við, það voru töluvert stærri öldur en síðast en á móti fór Reimar mun hægar yfir heldur en á leiðinni í Hornvíkina og ég held bara að það hafi ekki neinn orðið sjóveikur enda vorum við í töluvert betra ástandi en síðast, búin að fá okkur morgunmat og svona. Þegar við komum í Norðurfjörð fórum við í sund og brunuðum svo í bæinn með tilheyrandi sjoppustoppum og vorum komin heim um miðnæti.