,,Oh, þarf ég að velja hvort ég fari á Vormót eða í Skaftafell.” Já það er erfitt að taka ákvarðanir, og það að þurfa að velja á milli tveggja ferða þessa löngu helgi, þvílíkar kröfur. Við vorum gagnrýnd fyrir að setja opna dróttskátaferð sömu helgi og annað skátamót. Svo virðist sem ákveðnum hópi sé illa við að fólk þurfi að velja á milli atburða. Það erfitt að gera öllum til hæfis, en þannig verður það alltaf. Kannski er bara ekkert sniðugt að hafa nokkra atburði sömu helgina, hver veit?

Þetta er sagan af þeim sem völdu.

Þessi saga gerist fyrir svo löngu síðan að ég man varla hvað við gerðum eða hvenær þetta gerðist. Jú annars, þetta var Hvítasunnuhelgin 2004 þegar Fenris fór til Akureyrar. Við vorum á þremur bílum og höfðum upphaflega ætlað í Skaftafell en svo breyttist veðurspáin og við forum norður í staðinn. Já einmitt þannig var það!

Við brunuðum norður með byrgðir af epla Fanta og helling af drasli eins og við í Fenris erum fræg fyrir. Á leiðinni var boðið uppá plötukynningar með Dj. Ága og Turi koma með nokkur ,,gestalög”. Það var soldið þröngt því ekkert var skilið eftir. Þetta mynnti mig soldið á ferð árið áður þar sem við forum 5 í bílnum hans Sigga Tomma í Skaftafell um Hvítasunnu. Við rétt gátum lokað skottinu og einn sat með skíði yfir axlirnar og með ísklifurskó undir vanga En það er nú allt önnur saga. Kannski var þessi Akureyrarferð ekki svo slæm því nú vorum við með tvo Toyota Hilux undir draslið svo það var enginn afsökun fyrir því að taka lítið dót með sér.

Á laugardeginum klifraði hópurinn í Munkaþverárgili inní í Eyjafirði. Góð stemmning. En um kvöldið forum við að lýta hærra uppí fjöll og tókum ákvörðum um að klifra á konung íslenskra drulludranga, Hraundranga. Hraundrangi er drulluspíra sem rís í yfir 1000 metrum yfir Öxnadal. Þið sjáið hann á vinstri hönd þegar þið keyrið til Akureyrar. Til að skýra hugtakið drulluspíra aðeins nánar þá merkir orðið tind sem er úr lélegu bergi, töluvert brattur og toppurinn þarf að vera hvass eins og spíra. Hraundrangi er skólabókardæmi um drulluspíru, mikið af mosa, drullu, bergið er laust í sér og grjóthrun . Tilvalið viðfangsefni á sunnudegi um Hvítasunnuhelgi. Við vorum fimm saman. Ég, Elmar, Siggi T, Gunni og Halldóra. Gangan upp að tindinum er töluvert brött en hressandi upphitun fyrir það sem koma skal. Fyrsta megintrygging er í ,,Sveppnum” svokallaða, litlum tindi neðan við dranginn sjálfan. Elmari datt í hug að pissa niður í Öxnadal sem væri ekki merkilegt nema fyrir það helst að við honum blasir 500 metra fall niður í laaanga skriðu sem skilaði hverjum þeim sem tæki sér flugferð í kaffi til Jónasar Hallgrímssonar.

Klifrið á drangann er soldið spes, frekar laust í sér og helstu tryggingarnar eru fleygar. En þó allt í lagi. Siggi leiddi klifrið, svo komu ég og Elmar sem dró línurnar fyrir Gunna og Halldóru. Önnur megntrygging er utan á miðri skítahrúgunni en hún er svona la la örugg. Seinni klifurspönn er mun skemmtilegri, enda brattari og útsýni meira. Ég var ekki búinn að minnast á útsýnið. Það var alveg brilliant, sól og smá gola Útsýni yfir Tröllaskagann og inn á Eyjafjörð. Sigga gekk vel að fikra sig upp en var þó alltaf að henda burt smásteinum. Einn steinninn frá Sigga hitti annan sem var MJÖG stór og hann ákvað að fá sér flugferð. Þetta gefur orðinu grjótregn alveg nýja merkingu. Meira eins og steypiregn, eða ætti að segja að himininn sé að hrynja? Þegar ég kom upp sagði Siggi mér að sér hafi sýnst sem klettur á stærð við fólksbíl hafi hrunið niður hlíðina.Ofarlega í dranginum vorum við Elmar að klifra þegar ég kom að hvössu horni og horfði niður 800 metra. Ekki laust við að ,,raunsæislofthræðslan” hafi gert vart við sig. Síðustu metrarnir uppá topp voru upp skemmtilega sprungu sem var samt frekar erfitt að klifra í klunnalegu gönguskónum. Elmar var aðeins fyrir ofan mig sem spólaði og hamaðist í lokabrekkunni eins og Ural-hertrukkur og jós drullu og steinum inná mig sem sótbölvaði honum fyrir þennan námugröft. Toppnum var fagnað með með tilheyrandi fagnaðarlátum, faðmlögum og þakkarræðum. Toppurinn var stærri en ég bjóst við, þokkalega stór sylla og steinn sem hægt er að halda utan um og einnig er hægt að setjast. Ég var síðastur til að síga niður og það er magnað að sitja einn þarna á tindinum, í logn og sól. Svo var sigið niður í þremur línulengdum. Ætli Halldóra sé ekki yngsta konan til að klifra Hraundranga, aðeins 15 ára gömul? Um kvöldið voru svo nýir meðlimir vígðir inn í sveitina.

Hananú, segið svo ekki að skátar geti ekki gert eitthvað spennandi á fjöllum.

Og munið að besta leiðin til að losna við flugurnar á Úlfljótsvatni, er að fara uppá fjöll og gera eitthvað að viti.
Tevur eru drasl