Íshæk 2004 Íshæk 2004

Eftir 2 ára bið eftir íshæki var biðin loks á enda, við fengum snjó. Laugardaginn 3. mars lögðu 7.stk akureyrskir skátar af stað í gúmmítuðru frá Húsavík að mynni Flateyjardals.

Svona til að byrja á byrjun þá var lagt af stað frá Akureyri kl.10 um morguninn eða svo og ekið til Húsavíkur þar sem við biðum eftir því að Björgunarsveitin Garðar skutlaði okkur, meðan að við biðum, jukum við viðskipti hinnar húsvísku Essoverslunar. Eftir þessa viðskiptaaukningu fórum við niður á höfn þar sem að þeir björgunarsveitarmenn höfðu gert tuðruna tilbúna og fórum við þá í það að binda saman skíði okkar og stafi og klæða bakpokana og annan búnað í plastpoka. Síðan var okkur “fleytt” á tuðrunni að mynni Flateyjardals, fleytingin á að giska c.a. 30mín en við vorum allaveganna komin í land aftur um kl.14. Eitthvað hafði Húsvíkingunum ekki fundist leiðin nægilega löng og ákváðu þeir því að bæta u.þ.b. 3 km við hana með því að sigla norður en ella. Við gengum af stað með skíðin á pokunum og upp að næsta híbýli þar sem við vonuðumst til þess að finna veg, veginn fundum við en hann var þónokkru styttri en við höfðum vonast eftir og því gengum beina leið í norður, yfir móa og mýri, nokkru norðar fundum við svo malarveg, þar hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar, malarvegir hljóta að vera langir :D, malarvegurinn var u.þ.b. hálfur km og lá upp að Brettingsstöðum þar sem að hann rann út í sandinn(Malarvegur haha) þar máttum við þramma yfir holdvota mýri sem innihélt nokkrar ár. Eftir að hafa vaðið síðustu ár mýrinnar var áð til kaffihlés. Að loknu kaffihlénu var haldið af stað á ný og úr mýrinni yfir í grösuga sléttu sem teygði sig upp á “heiði” nokkra ef svo mætti kalla en bak við heiðina fundum við loksins veginn og gengum við eftir veginum, að næstu heiði þar sem að við fundum snjó til þess að tjalda í .Sumir sváfu í bívökum. Einn hópurinn reyndi að gera heiðarlega tilraun til þess að elda sér pylsur yfir varðeldi, sú tilraun mistókst og var gripið til þess ráðs að hita pylsurnar yfir prímus, síðan var háð siðferðileg barátta við kuldann því flestir voru í holdvotum skóm, eftir að kuldinn hafði verið sigraður, fóru menn að sofa.

Dagur 2 – Dagur hinn holdvoti.

Við byrjuðum þennan dag eins og hvern annan dag á því að vakna(en ekki hvað). Eftir vakninguna tókum við saman tjöldin og hófum að snæða morgunmat. Örlítið rigndi á meðan þessu stóð og máttum við því pakka tjöldunum blautum. Þennan dag átti að ganga í skála er staddur er í miðjum Flateyjardalnum og nefnist Heiðarhús, við vorum í um 11 km frá skálanum en á leið okkar var mikið af ám, og litlum heiðum. Við gengum síðan eina 2-3 km með skíðin á pokanum þangað til við loksins komumst í snjó. Eftir alveg 2 ára bið eftir eftir íshæki þá var sú tilfininning alveg dásamleg. Við hófum því að skíða í suður. Snjórinn var þó frekar blautur í sér þennan daginn og þónokkur raki í loftinu. Við urðum þó heppin því hægt var að fara yfir flestar ár á snjóbrúm en þær héldu þó ekki alltaf öllum eins og kom í ljós. En þrátt fyrir snjóbrýr voru framkvæmdar allar mögulegar aðferðir við að fara yfir ár, farið var úr skóm og þær vaðnar í skóm, og loks á skíðum. Eftir að “síðasta” áin sem á vegi okkar varð hafði verið yfirstigin var tími til þess kominn lækka sig niður á sléttuna. Við það tókst mér það ótrúlega afrek að skíða ofan í sprungu og festa mig þannig að ég komst ekki uppúr af sjálfsdáðum. En þegar niður á sléttuna var komið(svona 2-300m neðan við yfirgöngustað ár) leit við okkur það sem við héldum að væri síðasti skaginn þann daginn. Eins og gjarnan er venja þá hleypur í mann einhver aukaandi sem fær mann til að vilja komast þennan síðasta spöl á sem skemmstum tíma. Því greip ég á það ráð að í stað þess að fara fyrir skagann, því ekki bara að fara yfir hann, hækkunin var ekki svo rosaleg að það tæfi fyrir. Ég gekk því af stað og eltu nokkrir mig þá leið, vorum við tvö fremst sem voru nokkru framar en hin, í þessari leið tókst mér það ótrúlega í annað sinn. Ég datt ofan í sprungu og sat fastur þar, meira að segja pikkfastur og mælti ég háum rómi, andskotinn og héldu þá þeir tveir sem ekki höfðu elt mig upp á skagann(og voru svona 100 m frá okkur) að ég hefði brotið skíðin. Sem betur fer fór svo ekki en ég neyddist til þess að moka mig lausan með skóflu. Ég náði að moka mig lausan áður en þau sem á eftir voru komu og þegar þau spurðu hvaða hola þetta væri þá útskýrðum við það á mjög svo “mývetnskan máta” að við hefðum verið að gera snjóflóðaprófanir. Eftir þetta gengum við síðan áfram og loks sá fyrir endann á skaganum en því miður var annar skagi eftir, en sú vegalengd var ekki nema u.þ.b. 1-2 km og eftir að yfir þann skaga hafði verið gengið sást loks í Heiðarhús því var bara hlaupið þangað frá skaganum og pokunum hent af bakinu og 8. ferðafélaganum heilsað. 8. ferðafélaganum hafði verið fyrirmunað að komast á laugardegi og var hann því ferjaður í fjögurra hjóla eldsneytisniðurhellu í Heiðarhús. Þegar inn var komið voru hin blautu föt hengd til þerris og lagst niður, 8.ferðafélaginn var spurður spjörunum úr um hvernig nóttin hefði verið, því við höfðum gert ráð fyrir að hann hefði verið þar einn, en svo kom í ljós að einhverjir náungar höfðu verið þar um nóttina. Afgangurinn af deginum fór svo bara í það að hvíla lúin bein fyrir átök morgundagsins og þurrka allan búnað eins mikið og hægt var.

Dagur 3 – Dagur hins vonda veðurs.

Morgunin eftir vöknuðum við upp við það að þó nokkur vindur var úti. Þá var tekið til við það að borða morgunmat (sem sumum þó datt í hug að gera ekki vegna óánægju með bragðgæði) og klára að pakka ofan í bakpokann. Rétt eftir kl.9 var lagt af stað upp heiðina fyrir ofan Heiðarhús, stefnan var tekin á að fara sunnan við Digrahnjúk yfir heiðina og ofan í “dal sem nafn eigi í minni festist” þaðan inn í Hvalvatnsfjörðinn yfir Leirárdalsheiðina og í skálann Gil. Hækkunin var einir 800 metrar tæpir. Við byrjuðum á skíðum en þau sem ekki höfðu skinn tóku þau fljótlega af sér. Veðrið var frekar leiðinlegt hvasst og skafrenningur þannig að skyggni var lítið sem ekkert á köflum. Uppúr hádegi(12) þegar að við héldum að við ættum bara síðustu brekkuna eftir(klassískt) áðum við til hádegismatar þá hafði veðrið skánað örlítið og hélt það meðan að við átum. Eftir matinn lögðum við af stað upp “síðustu” brekkuna til þess eins að komast að því að þetta var ekki síðasta brekkan og ekki sú næstsíðasta og við vorum ekki komin upp á topp fyrr en u.þ.b. 3 tímum seinna. Þar var skyggni gott sem ekki neitt, maður sá 10 m í kringum sig og ekki neitt meira. Allt saman var hvítt og hefði maður ekki verið með sólgleraugu hefði það ekki tekið langann tíma fyrir mann að verða snjóblindan. Auk þess sem hitastigið þarna uppi með vindkælingu hefur verið um eða undir –20°C. Við gengum síðan af stað niður í “dalinn sem nafn eigi í minni festist”. Sú leið reyndist vera þónokkuð brattari en við höfðum búist við og allt uppí 40° halla (myndi ég giska á). Við gengum niður brekkuna sem var nokkuð hjörnótt og sóttist sú leið illa og tók nokkurn tíma að finna örugga leið en hún fannst á endanum og við vorum komin niður í dalinn c.a. 1,5 tíma seinna. Þá var klukkan að ganga í 18. Eftir stutt kaffistopp var haldið áleiðis í gil. Sóttist sú ferð nokkuð vel þar sem að færi var ásættanlegt. Aðeins ein á varð á vegi okkar og var vaðið yfir þá á var auðvelt. Frá ánni voru 8km(að mig minnir) í skálann og fylgdum við stikuðri leið í skálann, reyndar var orðið dálítið dimmt undir lokin en við komum í skálann rétt fyrir 22 og voru þá u.þ.b. 13 tímar frá því að við lögðum af stað. Líkt og áður hengdum við draslið okkar upp, sinntum öllum þörfum náttúrunnar og fórum að sofa.

Dagur 4 – Dagur hinna hvíldu beina

Hvíldardagur, við sváfum til 10 og fórum þá og fengum okkar að borða og lágum bara í leti þangað til mótsstjórnin(Undur vetrar) kom á vélsleðum og slógu upp hinni undursamlegu bikarkeppni skíðasambands skáta. Keppnin samanstóð af svigi og þrautabraut. Svigið gekk nokkuð vel fyrir sig en áhorf á þrautabrautina var hin mesta skemmtan. Í þrautabrautinni átti að hlaupa út af kamrinum niður að leiktæki og fara í gegnum dekk og stökkva úr rólu, fara síðan á skíðin safna 5 hlutum sem lágu á víð og dreif um svæðið og skilja þá eftir við skálann, fara aftur að leiktækinu og undir slá eina(sem var í svona 50cm hæð) á skíðunum og yfir net, síðan upp að kamri, úr skíðunu og inn á kamar og loka. Og var þetta tímataka. Dekkið stóð nokkuð í mönnum og konum eða öfugt þar sem að ákveðnar mjaðmir og rassar fóru illa í gegn. En að bikarkeppninni lokinni var dýrindis kjúklingur grillaður og honum skolað niður með veigum djöfulsins(Vífilfell). Þegar þessu var lokið um kl.15 tók það eitt við að liggja í leti. Ákváðum við að skella upp grind yfir kamínuna til þess að nýta betur hitann af henni og þurrka skónna okkar. Flest allt annað hékk yfir kamínunni. Rétt fyrir kvöldmat fórum við í það að hræra “bónusbúðing”,skera niður súkkulaði og þeyta rjóma. Bónusbúðingurinn mistókst alveg sérstaklega vel og bragðaðist eins og terpentína eða eitthvað þaðan af verra. Súkkulaðið og rjóminn áttu hins vegar að vera með jarðarberjum og sú máltíð öllu betur. Afgangurinn af kvöldinu fór síðan í það að pakka niður öllu því sem hægt var að pakka niður og gera tilbúið fyrir morgundaginn.

Dagur 5 – Dagur hinna þurru skóa.

Við vöknuðum um kl 8 og hófum að eta og undirbúa brottför. Skórnir voru þurrir í fyrsta skipti síðan fyrsta degi sem var hreinn unaður. Um kl. 10 lögðum við af stað frá Gili og var ætlunin að ganga inn Trölladalinn sem liggur til/frá Grenivík. Leið þessi er um 13-15 km (man ekki töluna) í loftlínu og frekar þægileg og falleg gönguleið. Felst að mestu í því að hækka sig nokkuð jafnt upp um nokkur hundruð metra á 10 km þangað til upp á Þröskuld er komið og þá liggur leiðin niður á við niður að Grenivík.

Við byrjuðum sem sagt gönguna um kl. 10 og gengum við án skíða fyrstu hálftímann eða svo þangað til við komum í skíðahæfan snjó. Þá vorum við komin upp á nokkuð flatt land og var stefnan tekin á að ganga að heppilegu vaði yfir ánna sem skilur dalinn að. Við fundum vaðið en þá kom það upp að sumir neituðu að fara úr skónum og eyddu alveg gríðarlegum tíma í það að finna grunnt vað, sem þeir fundu ekki og máttu svo snúa við, en ekki fóru þeir úr skónum og stóðu stoltir á sínu. Eftir að yfir ánna var komið gengum við áfram dalinn og upp úr 13. hófum við að snæða hádegismat, braust þá sólin fram úr skýjunum og gerði þessa svakalegu “bongóblíðu”. Hádegismatinn snæddum við örfáa km. frá þröskuldnum og eftir hádegismatinn tók það eitt við að ganga upp á þröskuldinn. Upp á þröskuldinn vorum við komin um hálf fjögur var útsýnið þar hreint dásamlegt. En síðan renndum við okkur bara niður, það gekk upp og ofan þar sem að snjórinn var sérstaklega viðnámsmikill og þurfti á köflum að ganga niður brekkurnar. En í allra síðustu brekkunni var snjórinn alveg unaðslega góður og var hreinn unaður að telemarka niður þá brekku. Snjórinn endaði þó of snemma í þeirri brekku og þó svo að snjórinn væri “eltur” niður eftir brekkunni þurftum við að ganga síðasta spölinn niður á bílastæði. Þar biðum við svo eftir að verða sótt. Þegar mótsstjórinn kom og sótti okkur gaf hann okkur þetta líka dásamlega ískalda pepsi. Að því loknu var farið í sund þar sem að “skíturinn” var skolaður af. Að því loknu var ekið til Akureyrar og var íshæki þá lokið en næstu 3 daga hélt “Undur vetrar” mótið áfram. En það er önnur saga.

Ég vil endilega bara þakka lesturinn
Bjarni Jósep Steindórsson Ds.ævintýrið DS. Vilko

P.S. SAAB er besti bíll í heimi.