Botnsúlur, taka tvö.

Jæja nú var komið að því, meðlimir Ds.Fenris gripu loksins tækifærið og skelltu sér á Botnsúlur helgina 15 til 16 nóvember. Þátttakendur voru þrír, ég(Jösta), Halldóra í Ds.Fenris og Turi dróttskátaforingi. Komum austur að Botnsúlum á föstudagskvöldið um klukkan 1900. Veðrið var voðalega fínt og stillt en ský huldu toppa Botnsúlna. En hvað um það, lögðum af stað og gengum í átt að Súlnadal. Turi vildi endilega labba uppi í miðri hlíð en ég vildi niður á sléttuna. Og ég datt og það var vont. Passið ykkur á svellköldum steinum, ekki gott að detta með 12 kílóa bakpoka. Fengum okkur smá vatn og corny við dalsmynnið en héldum svo af stað á ný. Fljótlega heyrði ég kallað á bak við mig ,, Stopp, stopp. Þetta er óendanlega cool”. Þá var ég nokkuð fyrir Tura og Halldóru og þau sáu mig með tunglskinið í forgrunni. Tunglið lýsti upp snævaþakinn dalinn. Turi gerði margar misheppnaðar tilraunir til að taka myndir af mér þar sem tunglið var á bak við mig og lýsti útlínur mínar og snæhvítan dal á bak við mig. En þessar myndir heppnuðust því miður ekki. Buhu.

En hvað um það. Skokkuðum upp í dal fullann af snjó og fórum nú að leita að skála Ísalp sem er þarna (einhversstaðar). Gengum eftir GPS tæki sem var með punkt af skálanum. Nú jæja, þá vorum við komin með punkt af skálanum og við ætluðum að finna þennan fjandans skála. Við Turi vorum búnir að gera misheppnaða tilraun til að finna þennan skála fyrr í haust(í ömurlegu veðri,stormi og skyggni 0%(höfum það á hreinu)). En bíddu nú við, tækið sýndi að við sæðum við skálann. En hvar er skálinn? Jæja við leituðum að honum en sáum hann hvergi. Þá fengum við okkur smá að borða og hugsuðum um framhaldið. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef við myndum ekki finna skálann á innan við klukkustund þá værum við farin. Nú að sjálfsögðu blasti skálinn við á leiðinni niður. GPS hnitið sem við höfðum af skálanum sýndi skálann hálfan kílómetra frá þeim stað sem hann er í raun og veru. Nú komum við í skálann sem var hreint út sagt viðbjóðslegur. Á móti okkur tók skálavörðurinn, banani sem er ekki myglaður, heldur kominn á það stig að vera sjálfstætt vistkerfi með eigið hagkerfi, þróaðan markaðsbúskap í stjórnmálasambandi við hina matarafgangana. Frá honum heyrðist stöku sinnum vægt kurr á meðan dvöl okkur stóð í skálanum.

Eftir að hafa komið okkur fyrir þá kíktum við út þá blasti við okkur ótrúleg sýn. Skýin voru farinn á brott og tunglið lýsti upp dalinn og norðurljósin voru frábær. Eftir að hafa starað á dýrðina í um hálftíma var okkur orðið kalt enda var frostið um 5 gráður. Eftir smá snarl og heita súpu fórum við í háttinn.

Morguninn eftir var veðrið frábært, ekki ský á himni og Blankalogn. Dalurinn var fullur af snjó og ísaðir hamrarnir risu fyrir ofan skálann. Nú var allur óþarfi skilinn eftir í skálanum og nestið, sólgleraugun og ísaxir teknar með. Uppi í skarðinu á milli Syðstusúlu og Miðsúlu sáum við ótrúlega langt. Jöklarnir tveir, Hofsjökull og Langjökull og fjalllendið að Fjallabaki blasti við okkur. Leiðin upp á Syðstusúlu liggur eftir hrygg í suðvestur upp frá skarðinu. Leiðinn var þakinn snjó og klaka. Með axirnar til öryggis þræddum við hrygginn og útsýnið var æðislegra með hverjum metranum sem við fórum upp á við. Í 1000 metra hæð þurfti ég að stoppa til að fara úr jakkanum, það var Blankalogn og ekki ský á himni, manni leið eins og að maður væri að klifra í Ölpunum. Brattasti kaflinn var við toppinn en þegar upp á hann var komið var hann nokkuð sléttur en ekki langt í hengiflug á allar hliðar.
Útsýnið var eins og áður hefur komið fram frábært, Surtsey í suðri, Hofsjökull í austri og í vestri reis Snæfellsjökull. Húnaflói og Strandir sáust langt í norðri.

Við gerðum langt stopp á toppnum. Við sýndum myndavélum nokkrar grettur, mauluðum corny og snickers og flögguðum ríkisfána Laos í 1095 metrum yfir sjó. Seinna kom svo gönguhópur upp á topp til okkar og furðaði sig á því hvað skátar væru að gera á svona stað. Við ákváðum að ganga eftir hrygg sem liggur í austur frá toppnum en urðum að snúa við á miðri leið. Ef við hefðum haldið áfram þá hefðum við þurft að fara yfir skafl sem var í suðurhlíð fjallsins, en ef hann hefði farið af stað þá hefðum við efnt niðri á Þingvöllum, ca 900 metrum neðar. Nú var ekkert annað að gera en að snúa sér að næsta viðfangsefni, Miðsúlu. Á leið niður í skarðið hittum við tvo ferðafélaga sem voru að koma niður af Miðsúlu. Við höfðum hitt þá fyrir um morguninn niður í skálanum. Þeir sögðu að þeirra leið upp á Miðsúlu hefði verið létt enda voru þeir báðir með tvær klifuraxir hvor og plastskó og brodda. Nú saknaði ég nýju plastskónna og broddanna sem láu inn í skáp heima. En í staðinn þá ákváðum við að fara upp á lægri tind Miðsúlu sem fékk það skemmtilega nafn; Litlasúla, af meðlimum ferðarinnar.

Þegar við gengum í hlíðum Miðsúlu flugu upp í huga minn orð tveggja kunningja minna hvað varaðar snjó um þessar mundir. Þeir sögðu að reyndir hjálparsveitarmenn höfðu sagt við þá að ekki hefði snjóað einu snjókorni á landinu vikuna áður. Orð rétt sögðu þeir ,, Það er ekki snjókorn þarna, í hæsta máta smá föl uppi á tindi”. En þarna var ég að vaða snjó upp að hnjám og var á leið upp á tind þar sem snjórinn var mun meiri. Við fórum upp langa snjóbrekku og loks komum við að rótum tindsins. Þar fórum við yfir undarlegan steingarð og komum fram á syllu og fyrir ofan okkur var toppurinn, leiðin upp leit hins vegar ekki vel út. Hmmmmm, þetta er ekki mjög góð leið. Svo við þræddum sylluna til baka og fórum að norðurhlið tindsins þar sem aðstæður voru mun betri. Við náðum toppnum en Turi þurfti að gefa mér fótstig þannig að ég náði að grípa í toppinn og líta yfir Súlnadal og hinar súlurnar. Á leið niður í skála æfðum við ísaxarbremsu og hengjubrölt. Þegar niður í skála var komið pökkuðum við saman, skrifuðum í gestabók og kvöddum skálavörðinn og vini hans. Leiðin niður gekk vel, nema þá helst að ég datt aftur á svellhálum steinum. Í stjörnubjörtu veðri og fylgd dansandi norðurljósa gengu við að bílnum og næst lá leið okkar í Borganes í sjoppustopp og því næst í félagsútilegu Landnema í Skorradal. Það var ekki fyrr en um hálf þrjú, aðfaranótt sunnudags að ég kom heim, mjög þreyttur en mjög ánægður með frábæra ferð.
Tevur eru drasl