Nú fer að líða að því að okkar ágæti skátahöfðingi Ólafur Ásgeirsson ljúki störfum sínum og því tímabært að huga að því hvern við viljum sjá sem næsta skátahöfðingja. Nú þegar er kominn fram mjög frambærilegur kostur fyrir okkur en það er Margrét Tómasdóttir aðstoðarskátahöfðingi.
Ég hef verið að hugsa þetta mál mjög rækilega undanfarið og er á þeirri skoðun að það væri hreyfingunni einungis til framdráttar ef við mundum fylkja liði og kjósa Möggu. Þar er á ferðinni greind kona, með mikla reynslu af skátastarfi, ákveðin, röggsöm og umfram allt sanngjörn.
Þegar við hugum að því hvern við ætlum að kjósa til að leiða okkur áfram næstu árin verðum við að hugsa til þess hvernig við sjáum skátahreyfinguna þróast og eflast á næstu árum. Möggu Tomm treysti ég til að halda áfram að vinna að uppbyggingu hreyfingarinnar og til að vera gott andlit okkar útá við. Það eru vissulega ákveðnar áherslubreytingaþörf í stjórn skátahreyfingarinnar í landinu en einnig margt sem vel er unnið. Ég hef þá trú að með Margréti Tómasar við stjórnvölinn getum við treyst því að áfram verði unnið að þeim málum sem vel hafa verið unnin og að hún hafi dug og þor til að breyta því sem miður hefur farið.

Ég segi áfram Magga!

Ekki má heldur gleyma því að það er mjög jákvætt að fá konu sem skátahöfðingja enda eitt af okkar markmiðum að allir séu jafnir bæði konur og karlar. Þó mundi ég aldrei styðja konu “bara” afþví hún er kona heldur vil ég dæma fólk eftir hæfni þess og kostum og á þeim forsendum hef ég ákveðið að veita Margréti Tómasar stuðning minn til kjörs á næsta skátaþingi.
Það væri gaman að heyra ykkar skoðun á þessu máli

Með skátakveðju
Sigrún Ósk
Haförnum-Eina