Mig langar með þessari grein rétt að koma að þeim hlutum sem mikilvægastir eru við gerð trönubygginga. Þar sem ég tel að því sé oftar en ekki ábótavant við þjálfun skátanna.

Trönurnar, þær verða auðvitað að vera sterkar og þola það álag sem þeim er ætlað að þola. Til þess að komast að því hvort að tranan er sterk eða ekki er besta leiðin að álagsprófa hana. Ein leið til álagsprófunar er að hanga í trönunni, það er t.a.m. hægt að gera þannig að 2 halda trönunni uppi og 2-3 hanga í henni (þetta fer svolítið mikið eftir því hvar tranan á að vera í trönubyggingunni). Ef að tranan stenst álagsprófið þá ætti að vera í lagi að nota hana. Ein góð regla er sú að trönubyggingin er aldrei sterkari en lélegasta tranan eða versta bindingin.

Súrringarnar. Það eru til margar mismunandi súrringaraðferðir, en eitt gildir þó um þær allar, “falleg binding er góð binding” (fegurð er afstæð en ég ætlast til þess að allir skilji hugtakið: falleg binding). Ástæða í fallegri/góðri bindingu er jafnt átak á alla vafningana og þar af leiðandi er bindingin sterkari.

Það hafa örugglega einhverjir hérna einhvern tímann séð súrringu þar sem að fleiri mm eru á milli vafninga og sá hluti bindigarnsins sem ætlaður var til strekkingar liggur slakari en andskotinn. Þessi binding er ekki bara ljót, hún er mjög léleg.

Sumir virðast haldnir þeirri villutrú að það eigi bara að fara nokkrar umferðir og síðan vefja afganginum utan um. Það leiðréttist hér með að þetta er rangt. Trönurnar sem súrraðar eru verða lausar og geta þar af leiðandi orðið mjög varasamar. Þegar súrrað er skal strengt á garninu mjög reglulega, helst eftir hverja umferð, og síðan þegar á að fara að vefja utan um, skal það einnig strengt mjög vel. Menn (og konur) átta sig eflaust á því að súrringin verður ekki alltaf 100% hert, þess þarf heldur ekkert.

Aðalatriðið er að þetta sé bara vel hert, þvervafningurinn sér síðan um að strengja eins mikið og þarf. Munið bara að strekkja þvervafninginn eins vel og ykkur finnst skynsamlegt.

Nú, svo þegar að þið hafið súrrað með þessum hætti þá ætti allt að vera pikkfast, hreyfing trönunnar ætti að vera eitthvað í kringum 1 mm(ekki það að þið eigið að mæla það nákvæmlega eða svo ( þið ættuð að þekkja muninn á hlut sem er fastur og hlut sem er ekki fastur)). Svo gott sem jafnt átak ætti að vera á alla vafninga og byggingin er örugg. Það er auðvitað eðlilegt ef að mikið álag er á trönuna/bindinguna að bindingin slakkni eitthvað en það ætti helst að vera sem minnst.

Ég vona síðan að þið hafið lært eitthvað af þessu, þ.e.a.s. þau ykkar sem ekki kunnu þetta fyrir fyrir og býð ykkur góða helgi.